547 þúsund farþegar flugu með Icelandair í ágústmánuði. Icelandair hefur því flutt tæplega þrjár milljónir farþega það sem af er ári, eða 21% meira en á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.
Jafnan fljúga flestir með félaginu yfir sumarmánuðina, í júní, júlí og ágúst. Engin undantekning var á því í ár og flugu 1,6 milljónir farþega með Icelandair þessa þrjá mánuði ársins.
Farþegar til Íslands voru 249 þúsund, frá Íslandi 51 þúsund, tengifarþegar voru 223 þúsund og innanlandsfarþegar tæplega 25 þúsund. Sætanýting var 83,9% og stundvísi 78,9%.
Þá voru seldir blokktímar í leiguflugi 18% fleiri en í fyrra og aukning í tonnkílómetrum í fraktflutningum nam 43%.