Gleði Einar tilkynnti Elísabetu að stígurinn fengi nafnið Elísabetarstígur.
Gleði Einar tilkynnti Elísabetu að stígurinn fengi nafnið Elísabetarstígur. — Morgunblaðið/Eggert
„Þarna birtist skýrt ákall frá íbúum í hverfinu og eflaust fleirum. Það gladdi mig að geta tilkynnt Elísabetu að stígurinn myndi bera hennar nafn,“ segir Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs

„Þarna birtist skýrt ákall frá íbúum í hverfinu og eflaust fleirum. Það gladdi mig að geta tilkynnt Elísabetu að stígurinn myndi bera hennar nafn,“ segir Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs.

Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur kom á fund hans í gærmorgun og afhenti honum um 1.100 undirskriftir þar sem þess var farið á leit að nýr stígur sem verður milli Sólvallagötu og Hringbrautar bæri nafn hennar, Elísabetarstígur. Elísabet bjó um langt árabil í einu af húsunum sem standa á svæðinu og nefndu nágrannar það Töfrahúsið. Upphaflega stóð til að stígurinn yrði kenndur við Pétur Hoffmann en bent var á að hundruð gatna hétu eftir körlum. Þótti mörgum ekki síðri kostur að kenna stíginn við skrítna og skemmtilega konu.

Einar segir að stígurinn sé ekki beinlínis á vegum borgarinnar heldur á vegum lóðarhafa. Honum þótti hins vegar sjálfsagt að miðla málum. „Ég hafði samband við uppbyggingaraðila á þessum reit og þeir tóku vel í þessa hugmynd. Okkur fannst tilvalið að tengja þennan nýja reit við sögu hverfisins.“
hdm@mbl.is