Einar Skúlason fæddist í Reykjavík 9. febrúar 1957. Hann lést 19. ágúst 2023 á Heilbrigðisstofnun Vesturlands Akranesi.

Einar var sonur hjónanna Skúla Benediktssonar, kennara frá Efra-Núpi í Miðfirði, f. 19. mars 1927, d. 12. janúar 1986, og Rögnu Svavarsdóttur, húsmóður og dagmóður, frá Akureyri, f. 5. desember 1931, d. 14. febrúar 1998. Þau slitu samvistir.

Einar var þriðji í röð átta systkina en þau eru: 1) Bergljót, f. 26.10. 1953, maki Svein Arve Hovland, þau eiga einn son. 2) Benedikt, f. 11.1. 1955, d. 17.10. 1998. Ógiftur og barnlaus. 3) Laufey, f. 21.3. 1958, maki Pétur Óðinsson, þau eiga þrjú börn. 4) Ingibjörg, f. 30.11. 1959, maki Pétur Berg Þráinsson, þau eiga þrjú börn. 5) Þorbjörg, f. 17.3. 1961, maki hennar var Gunnar Jón Sigurjónsson, þau skildu, hún á tvær dætur. 6) Sigríður, f. 1.2. 1962, maki Steingrímur Benediktsson, þau eiga þrjú börn. 7) Skúli Ragnar Skúlason, f. 5.3. 1964, maki er Stephen Gaughan.

Fjölskylda Einars flutti frá Reykjavík til Raufarhafnar árið 1958, var þar einn vetur en flutti þá að Reykjaskóla í Hrútafirði. Árin 1960-1966 ólst Einar upp í Ólafsvík. Staðurinn var honum afar kær og þaðan átti hann mjög góðar minningar. Þar kynntist hann Bítlunum sem voru hans ástríða alla tíð og síða hárið varð hans aðalsmerki eftir það. Fjölskyldan flutti þá á Akranes og þar gekk hann í skóla þar til hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands árið 1980. Einar hélt heimili með móður sinni og systurdóttur þangað til móðir hans lést. Flutti þá á Vesturgötu 71b, Grímsstaði, sem hann hafði fest kaup á nokkru áður.

Einar vann almenna verkamannavinnu á unglingsárunum en eftir stúdentspróf vann hann skrifstofustörf, kenndi viðskiptagreinar við Fjölbrautaskólann en lengst vann hann þó hjá Akraneskaupstað sem forstöðumaður Arnardals, félagsmiðstöðvar unglinga, ásamt því að hafa umsjón með Vinnuskólanum á sumrin. Seinustu árin sá hann einungis um Vinnuskólann og sinnti öðrum tilfallandi verkum hjá bænum. Hann lét af störfum í febrúar árið 2020.

Einar var mikill tónlistarunnandi, músíkalskur og sjálflærður á ýmis hljóðfæri, t.d. gítar, píanó og munnhörpu. Hann lék í ýmsum hljómsveitum frá því að hann var unglingur og fram til síðasta dags. Hann var mikill áhugamaður um knattspyrnu og ákafur stuðningsmaður ÍA og Chelsea.

Útför fer fram frá Akraneskirkju í dag, 7. september 2023, klukkan 13.

Ég átti ekki mikla samleið með Einari stóra bróður í uppvextinum. Skýringin liggur í aldursmuninum en Einar var fimm árum eldri en ég. Í fyrstu var Einar bara óþekktarpjakkur og síðar uppátækjasamur töffari og ég vildi sem minnst af honum vita. Eftir að við fullorðnuðumst urðu samskiptin nánari og á nýjum forsendum. Óknyttastrákurinn, sem mér fannst hann hafa verið, breyttist í skemmtilegan, kláran, yndislegan og hjartahlýjan eldri bróður.

Í dag er gott að ylja sér við skemmtilegar minningar úr æskunni. Við systkinin gengum flest í Barnaskóla Akraness sem þá var tvísetinn. Fyrir vikið og kannski vegna gráglettni örlaganna fengum við Einar sama umsjónarkennara eitt skólaárið. Fyrir litlu systur var það ekkert skemmtilegt. Það kom nefnilega fyrir að hann var látinn „sitja eftir“ með völdum félögum. Ég mætti í skólann klukkan 13.00 en hans skóladegi átti alla jafna að ljúka á hádegi. Ég man sérstaklega eftir að í eitt skipti þegar ég mætti sat Einar bróðir hróðugur aftast með glettnissvip – og stríðnisglampa í augunum. Ég dauðskammaðist mín fyrir stóra bróður og þóttist ekki þekkja hann heldur strunsaði beint í sætið mitt. Þegar kom að „drekkutímanum“ gerði hann það mér til „skemmtunar“ að koma til mín og segja: „Sigga, gemmér kleinu!“ Ég man að ég þeytti kleinunni í hann án þess að segja neitt og óskaði þess að hann hyrfi sem skjótast. Þegar við eltumst hvarf þessi skömm og ég kynntist honum á nýjan hátt. Mér fannst hann flottur og eitthvað í honum sem maður gat litið upp til og tekið sér til fyrirmyndar.

Einar átti stórkostlegt plötusafn. Hann eyddi löngum stundum uppi í herberginu sínu og hlustaði á tónlist. Við systkinin höfðum óminn af helstu tónsnillingum þessara ára í eyrum daginn út og inn. Vá! Hvað unglingurinn og litla systirin öfundaði stóra bró af þessu „himnaríki hljómplatnanna“ en það mátti ENGINN fara inn í herbergið hans. Ég reyndi nokkrum sinnum að stelast inn í þessa dýrðarveröld. Ég reyndi eins og myndavélarauga að nema mynd af aðstæðum í herberginu eins nákvæmlega og hægt var. Hvar hver hlutur var, platan á fóninum, plötuumslagið, stóllinn og allir litlu hlutirnir. Þegar ég síðan skildi við herbergið í „nákvæmlega“ sama horfi og þegar ég hafði komið inn í það í sæluvímu eftir að hafa sett Bítlana, Strawbs, ELO og alla hina á fóninn var ég þess fullviss að Einar kæmist sko ekki að þessu í þetta sinnið. Allt kom fyrir ekki. „Sigga, fórst þú inn í herbergið mitt?“ hljómaði um leið og hann kom upp í herbergi. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mínar og að ég reyndi að setja allt í sama horf komst Einar alltaf að þessu brölti mínu og enn veit ég ekki hvernig.

Einar fylgdist mjög vel með systkinum sínum og systkinabörnum og var umhugað um að öllum liði vel. Elsku Einar, það er enginn eins og þú. Við Steingrímur og börnin okkar, Lóa, Ragna og Benedikt, þökkum samfylgdina og allt það sem þú varst okkur. Hláturinn, brosið, glettnin og þessi einstaki húmor þinn mun nú verða minningin ein. Hvíl í friði bróðir sæll.

Þín litla systir,

Sigríður (Sigga).

Dagur að kveldi kominn hinn 19. ágúst 2023. Ég sit og hlusta og horfi yfir á sólsetrið. Það er líkt og ég sjái á eftir þér út í eilífðina. Tilveran er önnur í dag en í gær, einhvern veginn líta trén öðruvísi út nú en áður, form og litir hafa breyst, hugurinn reikar langt aftur í tímann til dagsins í dag. Allt er einhvern veginn öðruvísi – því þú ert farinn yfir hinn andlega þröskuld, út í eilífðina, í siglinguna sem við öll munum sigla einhvern tíma. Þú fórst um borð allt of fljótt með því að sigla út í sundið og hvarfst sjónum okkar við sjóndeildarhringinn.

Fyrir mér ertu hér enn. Þú ert ljóslifandi í huga mínum með stríðnisglampann og kímnina í augunum. Í brosinu þínu leynist svo ótal margt sem þú ætlar að segja en þú lætur það samt vera. Í stað hins óyrta skynja ég hlýju, umhyggju, ást og svo margt sem þú settir ekki í töluð orð nema þegar þér gafst kjarkur til.

Minningarnar streyma og ég fyllist þakklæti fyrir að hafa átt þig að sem bróður og vin. Þú trekktir upp í mér hugrekkið á erfiðum tímum, bæði hér heima og þegar ég bjó á Bretlandi. Við ferðuðumst saman, skemmtum okkur, hlógum, tókumst á og rifumst, ræddum djúpt saman og alltaf hafðir þú mikla trú á mér sem ég er óendanlega þakklátur fyrir. Þú vitnaðir oft í Robert Burns með orðunum: „Þvílík gjöf að sjá okkur sjálf líkt og aðrir sjá okkur“ og baðst mig að taka þau orð með mér inn í framtíðina. Þakklæti, hlýja, virðing, hugulsemi, glettni, stríðni eru allt orð sem koma upp í hugann þegar ég hugsa til þín.

Á síðustu Írsku dögum á Akranesi sigldum við saman inn í fortíðina og ræddum um hluti sem við höfðum aldrei talað um áður. Það kom mér á óvart hvað þú opnaðir á og spurðir um svo ég átti erfitt með svör. Í dag er ég svo óendanlega þakklátur fyrir þessar stundir og fyrir samtalið sem við áttum.

Elsku Einar. Ég á eftir að taka þig með mér hvert sem ég fer. Ég minnist svo vel orða þinna og ráða sem þú gafst mér í byrjun júlí síðastliðins. Þú varst mér ekki bara bróðir heldur vinur og trúnaðarvinur þegar ég þurfti á að halda. Ég er endalaust stoltur af því að hafa fengið að eiga þig sem bróður og því kveð ég þig með döprum augum en yl í hjarta. Takk fyrir samspilið og samfylgdina kæri bróðir. Sjáumst hinum megin við brúna.

Þú komst

Þú komst inn með glettni, gleði og kímni í augum.

Þú gekkst inn og skemmtir með skellum og skondnum sögum.

Það var svo kátt, þú skemmtir frá kveldi að dögun.

Við spiluðum söngva og sungið var saman í kór.

Þú komst með nærveru bróður með mikla hlýju.

Þú komst með gáskann og fjörið og allt var svo gott.

Þú komst með gítar og leikið var saman á fiðlur.

Þú kvaddir og sagðir „við sjáumst þá síðar en fljótt“.

Þú komst með lag til að kveðja og allt varð svo rótt.

Við sungum öll með – og tárin þau léku hljótt undir.

Ég kvaddi með orðunum „sé þig við endann á brúnni“.

Á móti þér tók inn í faðm sér hin friðsæla nótt.

(Skúli Ragnar Skúlason)

Hvíl í friði elsku Einar.

Þinn bróðir,

Ragnar.

Bærinn er breyttur, hefur gránað. Síðsumardagarnir í ágúst voru fallegir en það haustaði snemma í ár. Eitt skrautlegasta blómið á enginu hneigði krónuna, fölnaði svo og féll á völlinn.

Öldurnar hafa hjalað um aldir við sandinn í fjörunni við Krókalón á Akranesi. Um tíma var leikið undir úr gráa húsinu á bakkanum. Þaðan barst ómur af helstu ópusum bítlatímans og hippaáranna. Stundum var leikið af plötum. Stundum sat íbúinn í gráa húsinu sjálfur við píanóið sitt og spilaði af innlifun og náttúrugáfum.

Sá sem við kveðjum í dag festi kaup á þessu húsi fyrir nokkrum árum og hafði komið sér þar smekklega fyrir til að njóta efri áranna. Við húsið hafði hann byggt veglegan pall til að geta boðið vinum og ættingjum til gleðistunda. Um opna glugga og dyrnar út á pallinn bárust tónarnir og staldraði fólk við á stígnum fyrir neðan til að njóta.

Við höldum að það mikilvægasta við ferðalag sé áfangastaðurinn. Spekingar sem lifa í núinu segja að ferðalagið sjálft sé málið. En mesti spekingurinn benti á þann augljósa sannleik að það eru ferðafélagarnir sem öllu skipta.

Íbúinn í húsinu var skemmtilegast samsetti maður sem ég hef kynnst. Hann var afburða hlýr og umhyggjusamur um sitt fólk. Leiftrandi gáfaður, hafsjór af almennri þekkingu og alvitur um sín helstu áhugamál sem voru íþróttir og umfram allt tónlist. Hann hafði yndi af samveru við fólk og samræður við hann voru unun. Hann bjó yfir sterkri listrænni taug, lék á mörg hljóðfæri og samdi texta og lög sem hann var þó lítið fyrir að flíka. Hann var í raun allt of hógvær og hefði átt fullt erindi á stærra svið en hann helgaði sér. Hann kunni vel að gleðjast með ættingjum og vinum og var svo skemmtilegur að okkur hinum fannst við skemmtileg, bara af að sitja þögul í návist hans. Hann var bæði glaður maður og gleðimaður. Hróður hans barst víða og einnig út fyrir landsteinana. Þetta sannaðist er undirritaður átti með eiginkonunni, systur Einars, erindi á krá við aðaltorgið í Amsterdam seint á síðustu öld. Þar spurðu menn að ætt og uppruna eins og tíðkast hjá góðum gestgjöfum. Er það var upplýst að við værum frá Akranesi, lustu barþjónar og gestir knæpunnar upp gleðiópi: „Ísland! Akranes! Einar!“ Kom í ljós að Einar hafði verið á ferð þar, þó nokkrum árum fyrr en frægð hans lifði enn, þessum árum seinna.

Einar greindist nýlega með alvarlegt mein en við áttum þó von um að fá að njóta nærveru hans enn um sinn. Skyndilegt fráfall hans er ömurlegt og verður aldrei annað. Tíminn læknar hér engin sár. Það er bara hægt að bíða morgunsins þegar maður vaknar og fyrsta hugsunin er ekki sú að nú sé Einar horfinn okkur að eilífu. Kannski má bera í brjósti veika von um að „dauðinn sé ekki endirinn“ eins og Dylan, einn vinur Einars sagði.

En í dag ætla ég að gráta. Og ég vona að himnarnir gráti og skuggarnir og skerin við Krókalón og allt og allt.

Vertu sæll mágur og þakka þér ævinlega fyrir ferðalagið!

Steingrímur
Benediktsson.

Kær vinur og mágur minn Einar Skúlason er látinn eftir snarpa baráttu við erfiðan sjúkdóm. Kynni okkar hófust þegar ég og systir hans Laufey hófum sambúð fyrir rúmum 40 árum. Með okkur tókst strax góð vinátta og minningarnar streyma í gegnum hugann, minningar um einstakan, skemmtilegan, skarpgreindan og góðan mann.

Ég minnist bíóferða í Bíóhöllina á sunnudagskvöldum kl. 11, aðfangadagskvölda á loftinu í Stillholtinu þar sem við hlustuðum á plötur langt fram á nótt þar sem þú leiddir mig í allan sannleikann um hvað væri góð músík, bílferða fyrir fjörð á útileiki með ÍA o.fl. o.fl. Síðustu ca. 20 ár höfum við leikið okkur ásamt góðum félögum við það að spila eldri músík og þegar haustaði drógum við okkur inn í skúrinn og hittumst vikulega og æfðum upp prógramm sem síðan var stundum flutt annaðhvort í sal eða þá smellt í garðtónleika. 3. júní síðastliðinn var svo síðasta spilverkið, síðasti tónninn sleginn, er við ásamt félögum lékum á árgangsmóti.

Með sorg í hjarta kveð ég vin minn og mág með þakklæti fyrir það sem hann var mér og mínum, þú hefur verið fastur punktur í tilverunni, komst reglulega við hjá okkur og þið Laufey voruð svo náin og sterk taug á milli ykkar. Börn mín og barnabörn nutu þess að eiga þig sem vin og besta frænda. Hvíl í friði elskulegur.

Pétur Óðinsson.