Hreggviður Þorgeirsson fæddist á Seyðisfirði 8. september 1935. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Grund 24. ágúst 2023.

Foreldrar hans voru Anna Bekk Guðmundsdóttir, f. 1902 á Seyðisfirði, d. 1994, starfaði sem matselja, við hjúkrun og aðhlynningu á Seyðisfirði, í Vestmannaeyjum og Reykjavík, og Þorgeir Sigurðsson, f. 1899 á Borgarfirði eystri, d. 1997, bóndi og útgerðarmaður í Brúnavík og Húsavík, Borgarfirði eystri, á Seyðisfirði, í Engey og Reykjavík. Hreggviður átti þrjú hálfsystkini sammæðra, Vilborgu Sigríði Einarsdóttur, f. 1921, Einar Einarsson, f. 1925, og Jórunni Einarsdóttur, f. 1928. Þau eru öll látin.

Eiginkona Hreggviðs er Herborg Halldóra Halldórsdóttir, f. 10. september 1933. Þau áttu 65 ára brúðkaupsafmæli í vor. Hreggviður og Herborg eignuðust þrjú börn sem eru: 1) Halldóra, f. 1959, framkvæmdastjóri. Eiginmaður Árni Geirsson verkfræðingur, f. 1960. Börn þeirra: a) Herborg, f. 1988, gift Einari Axel Helgasyni og eiga þau Árna Friðþjóf og Ástrós Evu, móðir hennar Erla Rut Káradóttir, b) Hlynur, f. 1990, unnusta Stephanie Allyson Zakas. 2) Þráinn Valur, f. 1962, framkvæmdastjóri. Eiginkona Hugrún Gunnarsdóttir líffræðingur, f. 1962. Synir: a) Guðbjartur, f. 1993, í sambúð með Ernu Katrínu Gunnarsdóttur og eiga þau tvíburana Írenu Björt og Ísak Erni, b) Hrafnkell, f. 1997, kvæntur Agnesi Davíðsdóttur, c) Kári, f. 1999, unnusta Kolbrún Kara Þorsteinsdóttir. 3) Snorri, f. 1964, innkaupastjóri. Eiginkona Olga Björk Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 1963. Dætur: a) Heiðdís, f. 1987, gift Stefáni Karli Snorrasyni og eiga þau Emilíu Dís og Jökul Snorra, b) Harpa, f. 1994, í sambúð með Skarphéðni Snorrasyni.

Hreggviður fæddist á Seyðisfirði og ólst þar upp með móður sinni til 13 ára aldurs þegar þau mæðgin fluttu til systra hans í Vestmannaeyjum. Þar fór hann ungur á vertíð og síldveiðar, m.a. á Sidon með mági sínum Einari Runólfssyni skipstjóra. Árið 1957 lauk hann rafvirkjanámi frá Iðnskólanum í Reykjavík og sótti í kjölfarið nám í rafmagnsdeild Vélskóla Reykjavíkur. Hreggviður útskrifaðist sem tæknifræðingur frá Hässleholmsstads Tekniska Skola 1960. Að loknu námi starfaði hann hjá Íslenskum aðalverktökum, en hóf árið 1964 störf með Johan Rönning við nýja heildverslun með raflagnaefni. Árið 1975 stofnaði Hreggviður ásamt Herborgu eiginkonu sinni eigin heildverslun með raflagnaefni, ÍSKRAFT, sem þau hjónin ráku til ársins 1999 þegar Húsasmiðjan keypti.

Hreggviður lærði til einkaflugmanns og átti hlut í lítilli flugvél um tíma. Hann var áhugamaður um ljós- og kvikmyndun. Þau hjónin áttu sameiginleg áhugamál í kringum börnin, s.s. útivist, skíðaiðkun og ferðalög innanlands og utan. Skógrækt var þeim einnig mjög hugleikin þar sem þau lögðu víða gjörva hönd á plóg á eigin vegum og með skógræktarfélögum. Eftir sölu ÍSKRAFT komu þau sér upp athvarfi á Kletti í Reykhólahreppi, þar sem stórfjölskyldan sameinaðist við leik og störf.

Útför Hreggviðs fer fram frá Garðakirkju í dag, 7. september 2023, klukkan 15.

Nú hefur hann afi okkar kvatt okkur en eftir sitja minningar um ljúfar samverustundir í gegnum tíðina.

Hreggviður afi og Hebba amma voru stór partur af æsku okkar og þau gáfu sér mikinn tíma til að vera með okkur barnabörnunum, þrátt fyrir annríki við að sinna eigin fyrirtæki, Ískraft. Það var sérlegur lúxus fyrir okkur systkinin þegar Ískraft var í Sólheimunum, á móti húsinu okkar, og því oft möguleiki á að fara að heilsa upp á afa og ömmu í vinnunni og fá jafnvel eitthvert gotterí. Svo var alltaf sérlega eftirsóknarvert af fá að fara í heimsókn til afa og ömmu og jafnvel gista í Hrísholtinu, stóra ævintýralega húsinu í Garðabænum þar sem villt jarðarber uxu garðinum. Þar var alltaf notalegt að vera og stjanað við okkur og þar fengum við líka að gista svo oft að við áttum okkar eigin tannbursta og náttföt. Í Hrísholti kom líka öll fjölskyldan oft saman við ýmis tækifæri. Ómissandi hefðir í kringum jólin með laufabrauðsbakstri, spil við frændsystkinin og maltöli úr Ultima Thule-glösum.

Frá því við munum eftir okkur var eitt af aðaláhugamálum afa og ömmu trjárækt og við börnin fengum oft að fara með. Lærðum ung hvernig planta ætti litlum græðlingum og passa upp á að þeir döfnuðu vel. Fara varlega og stíga ekki á þá þegar maður hljóp um í móanum og gefa þeim næringu með einhvers konar dýrataði. Það var hægara sagt en gert að rækta upp tré í harðbýlu landi og hefur örugglega verið mikið streð á köflum. Við eigum líka margar ljúfar minningar um ferðalög víða um land þar sem við fengum að kynnast íslenskri náttúru. Lautarferðir út í móa, tína ber og sveppi, veiða og læra um fugla og blóm. Eftir að Klettur kom til sögunnar urðu stundirnar fleiri þar og þangað var gott að koma og njóta sveitasælunnar. Spranga um landið og gera stíflur í læknum, fara í pottinn og spila. Afi var alltaf þarna í bakgrunni eitthvað að baksa úti, gera við girðingar og dytta að hinu og þessu. Stundum gátum við hjálpað til, t.d. með girðingavinnu eða reka kindur sem höfðu komist inn fyrir girðinguna á trjáræktinni.

Afi var mikill matmaður og vissi ekkert betra en íslenskar kartöflur, sem voru nauðsynlegar með hverri máltíð. Hann minntist oft æsku sinnar á Seyðisfirði og bar hag íslenskunnar fyrir brjósti. Ekki var hann hrifinn af því að slett væri á ensku, eða engilsaxnesku eins og hann kallaði hana, af hverju ekki þá að nota frekar sænsku? Afi var skoðanaglaður á ýmsu og ekki vorum við alltaf sammála, en það skipti ekki öllu. Í seinni tíð hélt hann mikið upp á barnabarnabörnin sem hefur þótt gaman að koma í heimsókn til langafa og langömmu.

Lífið er skrítið og dauðinn óumflýjanlegur. Afa verður sárt saknað. Okkur þykir vænt um allar ómetanlegu samverustundirnar sem við munum aldrei gleyma.

Herborg og Hlynur.

Nú er hann elsku afi minn allur og er erfitt að átta sig á þessum nýja raunveruleika. Afi, þú varst mér og okkur alltaf svo góður, virkaðir stundum fullstrangur á yfirborðinu en undir því leyndist hjartahlýr og barngóður maður sem verður sárt saknað. Ófá voru þau skipti sem við bræðurnir gistum heima hjá ömmu og afa í Hrísholtinu. Núna þegar maður er sjálfur orðinn foreldri áttar maður sig á hvað mamma mín og pabbi voru dugleg að djamma á þessum tíma. Þetta voru hinar yndislegustu stundir þar sem þú kenndir okkur að tefla og amma eldaði spagettí ofan í okkur strákana og svo fengum við bláber með sykri og rjóma með bíómyndum kvöldsins sem þú undantekningarlaust sofnaðir yfir. Það var alltaf mesta sportið að vakna svo á morgnana og taka til töflurnar sem þið amma tókuð dag hvern. Þetta var fjöldinn allur af töflum og ég hafði engan skilning á því af hverju þið tókuð þær, mér fannst bara gaman að finna til allar töflurnar og setja á diskinn.

Afi tók alltaf svo vel á móti öllum barnabörnunum sínum og fannst að ég held skemmtilegast að eyða með þeim tíma, helst uppi í sveit þar sem honum leið best. Þar ók hann um á fjórhjólinu eins og kóngur í ríki sínu milli þess sem hann gróðursetti heilu skógana af trjám með ömmu og öllum í fjölskyldunni. Þessu fylgdi svo erfið girðingarvinna sem tók vissulega á en var partur af prógrammet og svo var ekki slæmt að skella sér í heita pottinn eftir gott dagsverk.

Eitt sinn vorum við öll í sveitinni og hann afi var búinn að taka á leigu á til að veiða í í nágrenninu. Allir svaka spenntir óðu út í með flugustöngina og hugsuðu sér gott til glóðarinnar. Skemmst er frá því að segja að enginn fiskur fékkst alla helgina, svo hann afi fékk nóg, brunaði heim í hlöðu og sótti netið, henti því út í ána og leið ekki á löngu þar til heil bleikjutorfa var föst í netinu. Afi aflakóngur varð því aðeins sáttari við ferðina, en hvort þetta hafi verið leyfilegt skal ósagt látið.

Afi var alltaf uppátækjasamur og fann sér alltaf eitthvað að gera. Einu sinni fyrir langalöngu var skólaferð upp á Esjuna meðan ég var í grunnskóla. Fjölskyldumeðlimir voru velkomnir með og auðvitað kom hann afi með. Léttur á fæti flaug hann með mér og skólafélögum upp að steini. Þegar halda átti heim á leið uppgötvaðist að einn úr hópnum vantaði. Uppi varð fótur og fit þegar uppgötvaðist að hann afi væri horfinn. Við tók mikil leit og fundum við svo göngugarpinn hann afa kominn enn lengra upp Esjuna í sólskinsskapi.

Þín verður sárt saknað, afi minn, minningin um frábæran afa og langafa mun lifa um ókomna tíð.

Guðbjartur, Erna Katrín, Írena Björt og Ísak Ernir.

Hreggviður var bróðir Einars manns míns. Þeir voru sammæðra. Móðir þeirra, Anna Guðmundsdóttir, var Seyðfirðingur. Anna var dóttir Guðmundar Bekk Einarssonar sem bjó allan sinn búskap á Seyðisfirði. Hreggviður lærði rafvirkjun hjá Halldóri Ólafssyni rafvirkjameistara en Einar hafði lokið námi þar. Hreggviður fékk vinnu hjá Halldóri og lagði Einar til að bróðir hans myndi sækja um að komast á samning. Hreggviður sagði mér að hann myndi þann dag vel er hann sótti um stöðu hjá Halldóri. Hreggviður lærði rafvirkjun hjá Halldóri en fór svo í framhaldsnám til Svíþjóðar í tæknifræði. Þá var hann búinn að hitta sína góðu konu, Herborgu Halldórsdóttur, þar sem hann leigði herbergi og var í fæði.

Hebba fór með honum og dóttir þeirra, Halldóra. Ég veit að Hebba kona hans var honum mikil og góð stoð við námið. Heim kom Hreggviður menntaður tæknifræðingur og var alltaf sami dugnaðarforkurinn. Þau unnu mikið saman fjölskyldan og stofnuðu fljótlega fyrirtækið Ískraft sem flutti inn rafmagnsvörur. Þar var alltaf mikið að gera. Ég man vel þegar þau unnu hörðum höndum við byggingu einbýlishúss síns í Hrísholti 5 í Garðabæ. Það var mikið afrek en þar áttu þau heima eiginlega allan sinn búskap en fluttu síðar í fallega íbúð á Löngulínu 24, Garðabæ. Þá voru þau búin að selja sitt hús.

Þeir bræður, Hreggviður og Einar, voru miklir vinir. „Ég ól Hreggvið upp,“ sagði Einar stundum, svo var aldursmunurinn mikill. Einar fór 14 ára til sjós í Keflavík og var að beita með pabba sínum. Þar var líka Hreggviður með mömmu sinni, þá tveggja eða þriggja ára. Hún var ráðskona hjá öðrum formanni. Hreggviður var alltaf með mömmu sinni, hvar sem hún vann. Það er óhætt að segja að að sumu leyti var eldri bróðir fyrirmynd Hreggviðs. Einar maður minn dvaldi lengi á Vífilsstöðum og var Hreggviður einstaklega duglegur að heimsækja hann þegar heilsu hans fór að hraka. Margar og miklar ánægju- og samverustundir áttum við með börnum okkar í afmælum og um jól. Ég er innilega þakklát fyrir heimsóknir þeirra á erfiðum tímum í veikindum mínum.

Við fjölskyldan sendum Hebbu og fjölskyldunni allri hlýjar samúðarkveðjur. Minningin lifir.

Ólöf Stefánsdóttir.