Hildur Björnsdóttir
Hildur Björnsdóttir
Þau kynna okkur fagrar umbúðir um lítið innihald. Gylliboð án áætlana – og í ljós hefur komið að bylur hæst í tómri tunnu.

Hildur Björnsdóttir

Samkvæmt nýlegum mælingum Vegagerðarinnar hefur umferð á höfuðborgarsvæðinu aldrei mælst meiri, en hún jókst um 7,3% milli ára í júlímánuði, og telja sérfræðingar Vegagerðarinnar að ársumferð á höfuðborgarsvæðinu muni að líkindum aukast um 4,5% milli ára.

Illa hefur gengið að vinna að samgöngubótum á höfuðborgarsvæðinu og fer samgönguvandinn vaxandi. Líkt og á fyrri kjörtímabilum gerir meirihlutinn lítið til að greiða úr umferð fyrir alla fararmáta og flýta nauðsynlegum framkvæmdum. Staðan er slæm og hún versnar.

Valfrelsi og sveigjanleiki

Langflestir íbúar höfuðborgarsvæðisins telja það lífsgæðamál að bæta samgöngur. Það var því jákvætt skref þegar samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins var undirritaður árið 2019 en hann tryggði stóraukin framlög til nauðsynlegra samgönguframkvæmda á svæðinu.

Sáttmálinn átti að tryggja breiða fjárfestingu í fjölbreyttum samgöngum. Stærstum hluta fjármagnsins skyldi varið til stofnvegaframkvæmda, því næst skyldi fjárfest í öflugum almenningssamgöngum og loks bættum innviðum fyrir gangandi og hjólandi. Unnið yrði út frá því markmiði að fjölga notendum almenningssamgangna, en þó gengið út frá þeirri forsendu að áfram færu flestir leiðar sinnar á bíl.

Frá undirritun sáttmálans hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokks undirstrikað mikilvægi þess að gætt verði að tímaáætlun framkvæmda og ráðdeild hvað varðar framkvæmdakostnað. Með sáttmálanum þyrfti að tryggja frelsi og val um fjölbreyttar samgöngur – einn fararmáti skyldi ekki útiloka annan – framtíðin ætti að fela í sér valfrelsi og sveigjanleika.

Sáttmálinn endurskoðaður

Nú fjórum árum eftir undirritun sáttmálans ríkir hins vegar enn mikil óvissa um fjármögnun hans. Komið hefur í ljós að framkvæmdir við Arnarnesveg, Sæbrautarstokk og Fossvogsbrú voru stórlega vanáætlaðar. Að auki hefur ekki verið lokið við neina þeirra flýtiframkvæmda sem tilgreindar voru sem forgangsverkefni í sáttmálanum.

Það skiptir okkur sjálfstæðismenn máli að áætlanir fyrir svo veigamikil verkefni séu vandaðar og byggðar á skýrum forsendum. Við fögnum því þeirri endurskoðun sem nú á sér stað á samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Í framhaldinu verður mikilvægt að setja aukinn kraft í samgönguframkvæmdir á svæðinu, en tryggja að áætlanir séu vandaðar, raunhæfar og standist skoðun.

Hvar er Sundabraut?

Á samgöngusáttmálanum er sá veigamikli ágalli að í honum er Sundabraut hvergi tilgreind. Það má telja með miklum ólíkindum, að gert hafi verið heildarsamkomulag um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu til langrar framtíðar, án þess að Sundabrautar sé getið. Ítrekað hefur verið sýnt fram á hve arðbær framkvæmdin yrði og hve mikilvæg tenging hún myndi reynast fjölmörgum hverfum Reykjavíkur. Færi vel á því við endurskoðun sáttmálans að framgangur Sundabrautar yrði tryggður án tafar, sem sannarlega yrði tilvalin einkaframkvæmd.

Að teikna fagrar myndir

Áhugafólk um bættar almenningssamgöngur getur ekki verið ánægt með árangur síðustu ára. Ekki hefur tekist með markverðum hætti að fjölga notendum Strætó og enn síður hefur tekist að tryggja stöndugan rekstur. Því má halda til haga að borgin er meirihlutaeigandi í Strætó og ber þar mesta ábyrgð.

Það skýtur því skökku við þegar sá meirihluti sem hefur ráðið hér ríkjum í einni eða annarri mynd síðustu áratugi stígur í sífellu fram með fögur fyrirheit um stærra og öflugra kerfi, sem sami hópur ætlar að innleiða og reka. Þau kynna okkur fagrar umbúðir um lítið innihald. Gylliboð án áætlana – og í ljós hefur komið að bylur hæst í tómri tunnu.

Bættar og nútímalegar almenningssamgöngur verða mikilvægur liður í því að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Trúverðugasti hópurinn til að tryggja slíkar samgöngubætur eru ekki þau sem hrópa hæst og teikna fegurstu myndirnar – heldur þau sem gera raunhæfar og ábyrgar áætlanir, og fylgja þeim eftir.

Fjölbreyttar þarfir og frjálsir valkostir

Sjálfstæðisflokkurinn vill skapa borg sem virkar fyrir fólk og fyrirtæki. Höfuðborg, þar sem fólk getur leitað hamingjunnar á eigin forsendum. Borg sem byggð er á frjálsum valkostum – og býður lífsgæðin sem felast í greiðum samgöngum.

Samgönguvanda höfuðborgarsvæðisins þarf að leysa með hliðsjón af fjölbreyttum þörfum og frjálsum valkostum. Úrbæturnar þurfa að byggjast á raunhæfum og ábyrgum áætlununum – og þær þarf að framkvæma af skynsemi og festu. Það er til mikils að vinna fyrir okkur öll.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Höf.: Hildur Björnsdóttir