Baksvið
Hörður Vilberg
hordur@mbl.is
Samtök atvinnurekenda og launafólks á almennum vinnumarkaði munu á næstu mánuðum ræða um og semja um kaup og kjör næstu ára en skammtímasamningur sem gerður var til eins árs í nóvember á síðasta ári rennur sitt skeið í byrjun febrúar 2024. Um ákveðinn millileik var að ræða í kjölfar lífskjarasamningsins sem var til þriggja ára og gilti til 2022. Í sumar hafa óformlegar viðræður milli aðila átt sér stað til að búa í haginn en ekki er ólíklegt að viðræðurnar muni fyrr en síðar enda á borði ríkissáttasemjara.
Óleyst mál
Þar á bæ eru nokkur mál sem bíða úrlausnar frá síðasta vetri sem ekki náðist sátt um fyrir sumarið. Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari tók við embættinu síðla í júlí á þessu ári. „Frá síðustu samningalotu þá eru það fyrst og fremst sjómannamálin sem standa út af,“ segir hann og vísar til samninga við Sjómannafélagið og Sjómannasamband Íslands og VM vegna sjómanna. Samningur sem gerður var síðstliðið vor var felldur. „Þannig að þau mál eru enn óleyst.“ Fleiri mál eru á borði ríkissáttasemjara sem bíða sátta eins og málefni starfsmanna Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem var nýlega vísað til embættisins líkt og kjaramálum tónlistarkennara.
Undirbúningur fyrir komandi kjaraviðræður er þegar hafinn hjá ríkissáttasemjara. „Við búum okkur undir það að reyna að þjónusta aðila með aðstoð um þau mál sem er til okkar vísað á komandi vetri. Við vitum ekki hversu mörg þau verða eða hvernig þau verða,“ segir Ástráður. „Við gerum okkur vonir um að aðilar séu þegar byrjaðir að tala sín á milli og hafa með sér samráð og velta fyrir sér hvernig eigi að takast á við þetta. Efnahagslífið er þannig að í fljótu bragði sýnist mér að þetta gæti orðið svolítið snúið,“ segir Ástráður.
Skyldur ríkissáttasemjara eru skýrar. „Fyrst og fremst að gera allt sem í valdi embættisins stendur til að aðstoða. Það erum við að gera og við erum að undirbúa okkur undir að okkar aðstaða verði sem best. Við erum að gera ráðstafanir til að efla starfsemi embættisins þannig að það verði burðugra til að takast á við þetta.“ Ástráður getur ekki greint frá því á þessari stundu í hverju það felst. „Síðan eru skaflar sem maður horfir framan í, þeir geta breyst. Það getur svo margt komið upp á. Atburður úti í heimi eða hér heima. Það eru líkur til þess að það geti orðið allmikið af málum sem verði hér til meðferðar þegar kemur fram á næsta ár.“
Á ríkissáttasemjari von á hörðum vetri? „Nei, ég er ekki mikill veðurfræðingur,“ segir hann en ljóst er að viðfangsefni hans verða ærin. „Við getum ekki útilokað að það verði átök á vinnumarkaði, það er eitthvað sem hefur oft gerst við sambærilegar aðstæður. Við vonum auðvitað að menn beri gæfu til þess að finna einhverja leið til þess að leysa úr þessu með sem friðsamlegustum hætti. Við viljum stuðla að því og það er okkar hlutverk. Við erum að setja okkur í stellingar og setja upp nýtt skipulag til að takast á við þetta. Það er aðalverkefnið núna.“
Öðrum hvorum megin við áramótin má búast við því að það fari að hitna á vinnumarkaðnum og ljóst að þróun efnahagsmála mun hafa mikil áhrif á kröfugerðir launafólks. „Aðilar vinnumarkaðarins eru í bílstjórasætinu,“ segir Ástráður en vilji samningsaðila er að flýta viðræðum eins og kostur er þó svo að sagan sé til vitnis um annað.
Formlegar viðræður að hefjast
Sigríður Margrét Oddsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. „SA eru aðili að um 120 kjarasamningum sem losna 1. febrúar, þar af um 50 almennir kjarasamningar og 70 sérkjarasamningar. Við höfum þegar hafið undirbúning vegna endurnýjunar kjarasamninga með það að markmiði að viðræður geti hafist sem fyrst. Það er mikilvægt að viðsemjendur gefi sér góðan tíma til að ræða grundvöll nýrra kjarasamninga og hvernig þeir geti stuðlað að aukinni hagsæld fyrir fólkið, fyrirtækin og samfélagið allt,“ segir hún. Sigríður Margrét segir að lífskjör á Íslandi mælist með því besta sem gerist í heiminum. „En vegna þeirra áskorana sem eru framundan – baráttan við verðbólguna og hátt vaxtastig, sem hefur mikil áhrif á atvinnulífið ekki síður en heimilin – er mikilvægt að allir aðilar stilli saman strengi og vinni sameiginlega að niðurstöðu sem byggir undir stöðugleika og hagsæld. Við þurfum að vera samtaka. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að ná niður verðbólgu og vöxtum. Í þeirri baráttu getur enginn skorast undan ábyrgð,“ segir hún. Miðstjórn ASÍ sem kom til fundar í gær eftir sumarfrí setti kjaramálin á oddinn fyrir komandi viðræður.