Sigurður Arnljótsson
Sigurður Arnljótsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á árinu 2022 var 21% fjárfestinga vísisjóða í sprotafyrirtækjum sem samanstanda af kvenkyns frumkvöðlum, samanborið við 13% árið á undan. Það er 60% aukning milli ára. Ef horft er til fjárfestinga í blönduðum teymum voru þær sömuleiðis 21%…

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Á árinu 2022 var 21% fjárfestinga vísisjóða í sprotafyrirtækjum sem samanstanda af kvenkyns frumkvöðlum, samanborið við 13% árið á undan. Það er 60% aukning milli ára.

Ef horft er til fjárfestinga í blönduðum teymum voru þær sömuleiðis 21% fjárfestinga en 58% fjárfestinga voru í teymum einungis skipuðum karlmönnum.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið KPMG vann fyrir Framvís, samtök vísifjárfesta.

Þar kemur einnig fram að vísisjóðir hafi fjárfest í 48 fyrirtækjum árið 2022 fyrir alls 10,2 milljarða króna. Er það annað árið í röð sem fjárfestingar vísisjóða í nýsköpunarfyrirtækjum eru í kringum 10 milljarðar króna. Árin þar á undan nam fjárfesting á bilinu 2-4 milljörðum króna.

Byrjaði fyrir alvöru 2015

Sigurður Arnljótsson, formaður Framvís og framkvæmdastjóri Brunns Ventures, segir í samtali við Morgunblaðið að vísiiðnaðurinn hafi hafist fyrir alvöru árið 2015 með innkomu þriggja nýrra sjóða, Brunns, Frumtaks og Eyris sprota. „Áður var vissulega fjárfest í sprotafyrirtækjum en það var smærra í sniðum og ekki eins markvisst,“ útskýrir Sigurður.

Fjárfestar í vísisjóðunum á Íslandi eru að stærstum hluta stofnanafjárfestar eins lífeyrissjóðir. „Með stofnun vísisjóðanna er grunnur lagður að því að hægt sé að fjárfesta að einhverju ráði í sprotafyrirtækjum. Stofnanafjárfestar hafa í áratugi, einkum í Bandaríkjunum, fjárfest í þessum eignaflokki, en árið 2015 markaði upphafið að stofnun sérhæfðra sjóða í þessum geira á Íslandi.“

Sigurður segir að Framvís hafi safnað gögnunum sem notuð eru í skýrslunni til að skoða hvort eitthvað væri að þroskast og breytast í umhverfinu, sem hefur gerst að hans sögn. „Til dæmis bættust fimm nýir vísisjóðir á markaðinn árið 2021.“

Hann segir alla sjóðina hafa áhuga á að fjárfesta í fjölbreyttum teymum. „Þegar fólk kemur úr ólíkum áttum með mismunandi bakgrunn er það betur í stakk búið til að takast á við hið óvænta. Þessi sprotafyrirtæki eru orðin töluvert betri en þau voru fyrir tuttugu árum. Þeim hefur líka fjölgað mikið og frumkvöðlarnir sjálfir eru orðnir reyndari. Sprotafyrirtækin eru því betur rekin.“

Sigurður segir að kynjahlutföll meðal starfsmanna vísisjóða séu jafnari hér á landi en í nágrannalöndunum. „Við erum með nánast jafnt kynjahlutfall. Það sama á við um stjórnir og fjárfestingaráð vísisjóðanna. Erlendis er mikið gagnrýnt að sprotaheimurinn sé karlaveröld, en það á ekki við á Íslandi.“

1% til evrópskra kvennateyma

Hér á landi eru meiri fjármunir fjárfestir í sprotafyrirtækjum með kvennateymi og blönduð teymi en í nágrannalöndunum. „Í Evrópu til samanburðar fór 1% fjárfestinga til kvennateyma og 8% til blandaðra teyma. 90% fjármagns runnu til karlateyma. Hér á landi runnu 68% fjármagns til karlateyma til samanburðar. Þetta er vísbending um að við séum að gera hlutina öðruvísi.“

Skýrslan leiðir einnig í ljós að kvenfrumkvöðlar séu betri í að fá fjölbreyttari teymi í lið með sér. „Þá endar teymið sem blandað teymi en ekki kvennateymi. Karlar virðast eiga erfiðara með þetta.“

Sigurður segir að það sé hlutverk vísisjóðanna að styðja sprotafyrirtækin í framhaldi af fjárfestingu, veita ráðgjöf, styrkja og styðja.

929 manns unnu í sprotafyrirtækjum árið 2019 en í dag er fjöldinn 2.300 manns.

„Það er mikill vöxtur og gróska í geiranum eins og sést vel á því m.a. að heildartekjur allra félaga í eignasöfnum vísisjóðanna hafa rúmlega þrefaldast á milli 2019 og 2022. Þær fóru t.d. úr 21,1 milljarði árið 2021 í 31,1 milljarð árið 2022,“ segir Sigurður að lokum.

Framvís

Samstarfsvettvangur engla- og vísifjárfesta sem vinna að því að efla vistkerfi vísifjárfestingar á Íslandi.

Starfa náið með hinu opinbera að stefnumótun og hafa það markmið að stuðla að vönduðum vinnubrögðum.

Vísisjóður er nýyrði, dregið af ensku skammstöfuninni VC (Venture Capital).

Höf.: Þóroddur Bjarnason