Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst um 1,3% í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra. Að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar er þetta mesta umferð sem mælst hefur í ágústmánuði en umferðarmesti mánuður hingað til var júní sl. Útlit er fyrir að umferðin í ár aukist um 4,5% sem myndi leiða til umferðarmesta árs frá því mælingar hófust. Núverandi met er frá árinu 2019. Alls fóru rúmlega 180 þúsund ökutæki um þrjú mælisnið á höfuðborgarsvæðinu á hverjum degi í ágúst en mælingar í júní sýndu rúmlega 187 þúsund ökutæki.
Umferðin á hringveginum í ágúst hefur ekki áður mælst meiri. Hún jókst um rúm átta prósent frá sama mánuði í fyrra en var eigi að síður heldur minni en í júlí. Búast má við að umferðin í ár aukist um 6-7 prósent á hringveginum, segir á vef Vegagerðarinnar.