3M Amanda Andradóttir átti stórleik með Val gegn Þór/KA.
3M Amanda Andradóttir átti stórleik með Val gegn Þór/KA. — Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
Amanda Andradóttir, landsliðskonan unga úr Val, var besti leikmaðurinn í 19. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins. Amanda átti sannkallaðan stórleik…

Amanda Andradóttir, landsliðskonan unga úr Val, var besti leikmaðurinn í 19. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta að mati Morgunblaðsins.

Amanda átti sannkallaðan stórleik þegar Valur vann Þór/KA með yfirburðum, 6:0, á Hlíðarenda síðasta fimmtudag. Hún skoraði eitt mark og lagði upp fjögur fyrir samherja sína og var allt í öllu í sóknarleiknum hjá Val.

Fyrir vikið fékk hún hæstu mögulegu einkunn hjá Morgunblaðinu, þrjú M, sem aðeins örfáir leikmenn fá á hverju keppnistímabili.

Amanda, sem er aðeins 19 ára gömul, kom til liðs við Val frá Kristianstad í Svíþjóð í júlí og hefur sett svip sinn á Hlíðarendaliðið í undanförnum leikjum. Hún hefur skorað þrjú mörk í sjö leikjum, sem eru hennar fyrstu í efstu deild hér á landi.

Hún lék með Val í yngri flokkunum en fór kornung til Danmerkur þar sem hún spilaði eitt tímabil með Nordsjælland í úrvalsdeildinni.

Síðan lék hún eitt ár með Vålerenga í Noregi, 2021, þar sem hún varð bikarmeistari með liðinu, og gekk síðan til liðs við Kristianstad í Svíþjóð.

Mörk í fjórum deildum

Þó Amanda sé ekki eldri hefur hún þegar leikið í fjórum úrvalsdeildum á Norðurlöndum og skorað í þeim öllum.

Hún hefur skorað tvö mörk í fyrstu 15 A-landsleikjum sínum og gerði 10 mörk í 12 leikjum með yngri landsliðunum.

Amanda kemur úr fótboltafjölskyldu en faðir hennar er Andri Sigþórsson, fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður, og föðurbróðir hennar er Kolbeinn Sigþórsson, annar tveggja markahæstu leikmanna íslenska karlalandsliðsins. Afi hennar, Sigþór Sigurjónsson, lék með KR og Völsungi.

Amanda er í liði umferðarinnar í þriðja sinn. Þróttur á þrjá leikmenn í úrvalsliðinu og ein þeirra, Katie Cousins, er í liði umferðarinnar í fimmta skipti. Þrír nýliðar eru í liðinu að þessu sinni.