Nýsköpun Þórey Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri Empower.
Nýsköpun Þórey Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri Empower.
Nýsköpunarfyrirtækið Empower hefur sett hugbúnaðarlausnina Öldu í loftið og stefnir á Evrópumarkað í fyrstu skrefum en fyrirhugað er að setja lausnina á markað í Bandaríkjunum á næsta ári. Hugbúnaðarlausninni er ætlað að útrýma eitraðri…

Nýsköpunarfyrirtækið Empower hefur sett hugbúnaðarlausnina Öldu í loftið og stefnir á Evrópumarkað í fyrstu skrefum en fyrirhugað er að setja lausnina á markað í Bandaríkjunum á næsta ári. Hugbúnaðarlausninni er ætlað að útrýma eitraðri vinnustaðamenningu, tryggja inngildingu og að hjálpa vinnustöðum að ná hámarksárangri með fjölbreyttum teymum.

Öldu-hugbúnaðurinn var þróaður og prófaður á Íslandi og býður upp á mælaborð, kannanir, markmiðasetningu, örfræðslu og aðgerðaáætlanir sérsniðnar með gervigreind.

Þórey Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri Empower segir að Alda sé hönnuð til að greina áskoranir og draga fram raunverulega stöðu.

„Reynsla mín er sú að stjórnendur vilja sinna mannauðsmálum vel og telja iðulega að vinnuumhverfið stuðli að fjölbreytni og jákvæðri vinnumenningu. Með Öldu er hægt að styðjast við rauntímamælingar, sem sýna raunverulega stöðu, og lagðar eru fram aðgerðir til betrumbóta. Slíkt reynist mun öflugra verkfæri en góður ásetningur í orði. Teymið á bak við Öldu hefur unnið algjört kraftaverk með því að koma lausninni á markað einungis ári eftir að þróun á henni hófst. Og ekki bara það heldur höfum við fengið það staðfest að Alda-hugbúnaðarlausnin sé einstök á heimsmælikvarða vegna óhefðbundinnar og heildrænnar nálgunar en eftir því hafa stórfyrirtæki um allan heim í raun verið að kalla,“ segir Þórey.

Á síðastliðnu ári tryggði Empower sér 300 milljóna króna fjármögnun frá Frumtaki og Tennin. Í desember í fyrra tryggði fyrirtækið sér 50 milljóna króna styrk frá Tækniþróunarsjóði.