Umferðarþungi Mikill umferðarþungi er í Reykjavík og þá ekki síst á álagstímum að morgni og síðdegis.
Umferðarþungi Mikill umferðarþungi er í Reykjavík og þá ekki síst á álagstímum að morgni og síðdegis. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Í mínum huga eru umferðarljósin á höfuðborgarsvæðinu ekki snjallljós,“ segir Ólafur Kr. Guðmundsson umferðarsérfræðingur, spurður um fullyrðingar samgöngustjóra Reykjavíkurborgar í Morgunblaðinu í gær um að umferðarljósum á höfuðborgarsvæðinu sé stýrt með svokölluðu snjallljósakerfi.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Í mínum huga eru umferðarljósin á höfuðborgarsvæðinu ekki snjallljós,“ segir Ólafur Kr. Guðmundsson umferðarsérfræðingur, spurður um fullyrðingar samgöngustjóra Reykjavíkurborgar í Morgunblaðinu í gær um að umferðarljósum á höfuðborgarsvæðinu sé stýrt með svokölluðu snjallljósakerfi.

Fjögur klukkukerfi

„Hér er notað klukkukerfi eins og kemur fram í viðtalinu við samgöngustjórann. Það eina sem kalla má snjallt í þessu er að það eru nemar í götunni sem telja umferðina, þ.e. hversu margir bílar fara um, en hann tekur ekki tillit til þess hverskonar umferð er á ferðinni. Þeir stýra því hvaða klukkukerfi er notað hverju sinni. Klukkukerfin eru fjögur, eitt fyrir morguninn, annað fyrir miðjan dag, þriðja fyrir síðdegið og fjórða fyrir helgarumferð. Út frá mælingu nemanna er ákveðið hvenær skipt er á milli kerfa, t.d. hvort farið er úr morgunkerfi yfir í miðdagskerfi klukkan 9 eða 9.30. Það er það eina sem er snjallt við þetta kerfi,“ segir Ólafur.

Nemar með myndavél og radar

Spurður hvernig hægt sé að standa betur að verki, segir Ólafur að það megi gera með því að setja nema sérstakrar gerðar á umferðarljósastaurana. Slíkir nemar eru með innfrarauðri myndavél til að sjá í myrkri og í þeim er einnig radar og myndavél og stýrt af hugbúnaði sem keyrður er yfir netið. Búnaðurinn nemur hverskonar vegfarandi er á ferð allt í kringum ljósin og lágmarkar biðtíma hvers og stýrir ljósunum m.t.t. þess hvernig umferðin flæðir á hverjum tíma.

Klukkan ræður ferðinni

Hann bendir á að kerfið virki þannig að þegar gangandi maður ýtir á gönguljósatakkann, þá skynjar búnaðurinn hvenær hann er kominn yfir götuna og opnar þá fyrir bílaumferð á ný. Nú ráði klukkan hins vegar ferðinni.

„Ef maður kemur gangandi að gönguljósunum við Klambratún þá stoppar hann umferðina í hálfa mínútu, enda þótt hann sé löngu kominn yfir götuna. Á meðan hleðst umferðin upp á ljósunum og „græna bylgjan“ er komin í rugl,“ segir hann.

Snjallljósabúnaður í nágrannalöndunum

Ólafur nefnir að hvarvetna í nágrannalöndunum sé umferð stýrt með snjallljósabúnaði en ekki með klukkukerfi eins og hér. Verði snjallljós innleidd hér myndu þau stytta ferðatíma um 15% þegar einkabílar eiga hlut að máli, en um 20% í tilviki strætó vegna þess að búnaðurinn er tengdur tímaáætlun vagnanna og veitir þeim forgang sem eru á eftir áætlun.

„Ég og fleiri töluðum fyrir því á sínum tíma að gerð yrði tilraun með snjallljósastýringu á Bústaðavegi, Nýbýlavegi og einnig í Hafnarfirði, en sú tilraun var stöðvuð af embættismönnum borgarinnar,“ segir Ólafur Kr. Guðmundsson.

Miklir möguleikar með snjallljósum

„Ég er sannfærður um að það eru miklir möguleikar fyrir hendi í að greiða fyrir umferð í borginni með snjallljósakerfi og einnig að draga úr mengun. Þannig er hægt jafna umferðina og auka umferðaröryggi,“ segir Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

„Það er hröð þróun í þessum málum erlendis og ljóst að Reykjavíkurborg hefur dregist aftur úr, það er eins og það sé ekki pólitískur vilji í Reykjavík til að nýta tæknina til að greiða fyrir umferðinni,“ segir Kjartan og bætir því við að tilgangurinn hljóti að vera sá að gera fólki erfiðara fyrir að eiga bíl.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson