Sjávarútvegshúsið Myndin er tekin frá Sölvhólsgötu að bakhlið hússins. Umfangsmiklar endurbætur standa yfir.
Sjávarútvegshúsið Myndin er tekin frá Sölvhólsgötu að bakhlið hússins. Umfangsmiklar endurbætur standa yfir. — Morgunblaðið/sisi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sis@mbl.is

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sis@mbl.is

Undanfarin misseri hafa staðið yfir viðgerðir og endurbætur á stórhýsinu Skúlagötu 4, Sjávarútvegshúsinu. Samkvæmt upplýsingum frá Framkvæmdasýslunni – Ríkiseignum miðar þeim ágætlega en þær verða umfangsmeiri en lagt var upp með. Kostnaðurinn skiptir milljörðum.

Skúlagata 4 er með glæsilegri byggingum í eignasafni Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna(FSRE), segir Karl Pétur Jónsson upplýsingafulltrúi stofnunarinnar. Húsið er byggt árið 1961 eftir teikningu Halldórs H. Jónssonar arkitekts fyrir starfsemi fiskirannsókna Háskólans. Upphaflega átti húsið að vera fjórar hæðir, en skömmu áður en framkvæmdir hófust var ákveðið að bæta 5. og 6. hæð við. Flutti Ríkisútvarpið á efstu tvær hæðirnar. Sjávarútvegsráðuneytið var í húsinu um árabil.

Árið 2019 var ákveðið að endurbæta þrjár neðstu hæðir hússins og hófst undirbúningur þess árið 2020. Að afloknum kosningum 2021 og uppstokkun stjórnarráðsins í kjölfarið var ákveðið að allt húsið yrði endurbætt og að ráðuneyti flyttu inn að því loknu.

„Með því gafst kostur á að gera mikilvægar strúktúrbreytingar á húsinu; einkum bæta við lyftu í húsið til að bæta aðgengi í húsinu. Þá voru lagnir og loftræstikerfi endurnýjuð,“ segir Karl Pétur.

Fljótlega eftir upphaf framkvæmda hafi mönnum orðið ljóst að ástand hússins var mun verra en aldur þess gaf tilefni til að ætla. Í ljós kom að gera þurfti við innra og ytra byrði hússins. Sprungur höfðu myndast í gegnum tíðina og húsið lekið á mörgum stöðum með tilheyrandi rakavandamálum. Einnig hefur þurft að skipta út öllum gluggum hússins.

„Þetta ríflega 60 ára gamla hús verður að endurbótum loknum nútímalegt og vandað skrifstofuhúsnæði. Í hönnun hefur verið lagt upp með auðvelt sé að aðlaga húsnæðið breytilegum húsnæðisþörfum ráðuneyta, enda færast málaflokkar gjarnan á milli ráðuneyta. Húsið mun rúma allt að fimm ráðuneyti, sem munu deila stærri fundarsölum og annarri aðstöðu,“ segir Karl Pétur.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið (FJR) gaf í janúar 2021 út stefnuskjal með áherslum og vi ðmiðum fyrir húsnæðismál stofna na. Helstu markmið stefnunnar eru hagkvæm og markviss húsnæðisnýting og fjölbreytt og sveigjanlegt vinnuumhverfi sem styðji við teymisvinnu og samstarf.

Breyttar áherslur felast meðal annars í því að horfið var frá þeirri stefnu að meirihluti starfsfólks hefði til afnota einkaskrifstofu, en aukið pláss fer þess í stað í fjölbreytta verkefnamiðaða vinnuaðstöðu svo sem fundarherbergi, hópvinnurými, næðisrými og félagsleg rými.

Hvenær er reiknað með að viðgerðum ljúki og ráðuneytin flytji inn?

„Að svo stöddu liggur ekki fyrir nákvæm lokadagsetning, en við sjáum fyrir endann á verkefninu sem hefur breyst og stækkað talsvert frá upphafi þess.

Og þá hvaða ráðuneyti?

FSRE ákveður ekki staðsetningu ráðuneyta. Fyrir liggur að heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti muni hvort fá til umráða eina hæð í Skúlagötu 4. Ekki er ljóst á þessari stundu hvaða önnur ráðuneyti muni flytja í húsið. Má undanskilja forstætis-, fjármála-, utanríkis- og háskóla- og nýsköpunarráðuneyti. Dóms- og matvælaráðuneyti eru til húsa í leiguhúsnæði í Borgartúni 26 og stefnt er að því að umhverfis- og loftslagsráðuneyti flytji í sama hús í haust eða vetur.

Hvaða fyrirtæki vinna verkið og um hvaða upphæð var samið?

Verktaki er Sérverk og Yrki sér um hönnunina, Efla er með eftirlitið. Samningur við Sérverk hljóðar upp á 1.596.275.505 með VSK. Inni í því er ekki kostnaður við viðgerðir á innra og ytra byrði, aðgerðir við að hreinsa rakaskemmdir úr öllum veggjum og gólfum, né gluggaskipti í öllu húsinu. Einnig var samið sér um viðgerðir á „kálfi“ og enn liggja ekki fyrir ákvarðanir um ýmis mál á borð við frágang lóðar.

Skúlagata 4 er skráð 6.165 fermetrar að stærð í fasteignaskrá. Fasteignamat ársins 2024 er tæpir 2,6 milljarðar króna.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson