Danshöfundur „Iðulega hafa verkin mín ákveðna stefnu en þau eru ekki hoggin í stein fyrr en ég kemst í stúdíóið með dönsurunum,“ segir Tom Weinberger sem samdi The Simple Act of Letting Go í samstarfi við ÍD.
Danshöfundur „Iðulega hafa verkin mín ákveðna stefnu en þau eru ekki hoggin í stein fyrr en ég kemst í stúdíóið með dönsurunum,“ segir Tom Weinberger sem samdi The Simple Act of Letting Go í samstarfi við ÍD. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísraelski danshöfundurinn Tom Weinberger rannsakar jafnvægi hreyfinga, tónlistar og texta í nýju dansverki sínu, The Simple Act of Letting Go, sem Íslenski dansflokkurinn (ÍD) frumsýnir um helgina

Viðtal

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Ísraelski danshöfundurinn Tom Weinberger rannsakar jafnvægi hreyfinga, tónlistar og texta í nýju dansverki sínu, The Simple Act of Letting Go, sem Íslenski dansflokkurinn (ÍD) frumsýnir um helgina. Boðið var upp á sérstaka hátíðarsýningu í byrjun sumars en verkið verður formlega frumsýnt á sunnudag, 10. september, kl. 20 á Nýja sviði Borgarleikhússins.

Weinberger hefur komið víða við, sem dansari, kennari og danshöfundur, og í kynningartexta frá ÍD segir að hann sé „af mörgum talinn einn efnilegasti danshöfundur sinnar kynslóðar“.

„Ég hitti Ernu [Ómarsdóttur, listdansstjóra ÍD] upphaflega á tískusýningu í París þar sem við unnum bæði sem dansarar,“ segir danshöfundurinn um tildrög þess að hann samdi verk fyrir ÍD.

„Ég er alltaf forvitinn að hitta nýja dansara frá öðrum löndum, annarri menningu og með annars konar þjálfun. Þegar þessi hugmynd kom upp þurfti ég ekkert að hugsa mig um, það var bara spurning um að láta það passa inn dagskrána. Mig langar alltaf að komast í kynni við nýtt fólk sem getur túlkað mínar hugmyndir og hugarheim svo ég var spenntur fyrir því að koma hingað.“

Yfirmáta dramatískt

Spurður út í ferlið við að semja dansverkið segir Weinberger: „Ég kom hingað fyrst í janúar til þess að kynnast dönsurunum. Á tímabilinu milli fyrstu heimsóknarinnar og annarrar urðu hugmyndirnar og þemun smám saman til. Iðulega hafa verkin mín ákveðna stefnu en þau eru ekki hoggin í stein fyrr en ég kemst í stúdíóið með dönsurunum. Ég hef ekki svo mikinn áhuga á upphaflegu hugmyndunum heldur því þegar hugmyndirnar mínar mæta öðru fólki og hvernig annað fólk umbreytir þeim og lyftir þeim á hærra plan.“

Hann segist hafa langað til að kanna titilinn The Simple Act of Letting Go. „Hann felur í sér ákveðna þverstæðu því það að sleppa tökunum er líklega eitt af því erfiðasta sem hægt er að gera. Það er húmor í titlinum svo ég reyni að gefa áhorfendunum leyfi til þess að hundsa þennan yfirmáta dramatíska heim sem við búum til á sviðinu, en geri þeim á sama tíma kleift að kafa í þetta þema.“

Með dönsurunum segist hann reyna að formgera alls kyns endurtekningu, hegðunar- eða hugsanamynstur. Hann vilji skoða hvaða „drama það skapi“ á sviðinu, „hvaða ryþma það býr til“ og hvernig til verði „einstök augnablik þar sem áhorfandinn getur séð sjálfan sig í því sem á sér stað á sviðinu“.

„Sem danshöfundur og sem listamaður vil ég ekki loka á ímyndunarafl fólks með því að segja hvað það er sem ég vil tjá. Og ef ég á að vera hreinskilinn þá er ekkert eitt sem mig langar að tjá. Mig langar frekar að kanna stóran hluta tilfinningalandslagsins og bjóða fólki að koma sér fyrir í því landslagi á meðan á sýningunni stendur. Hvað áhorfendur taka með sér eða hvernig þeir túlka verkið er þeirra að ákveða. Það er frelsið sem felst í því að vera listneytandi.“

Af hverju ekki?

Weinberger segist vera forvitinn um jafnvægi texta, tónlistar og hreyfingar og því flytja dansararnir gjarnan texta í verkum hans. „Að hluta til er það vegna þess að ég vex úr grasi sem dansari í umhverfi þar sem texti var ekki notaður. Ég náði ákveðnum stað á mínum ferli þar sem mig langaði að kanna hvað annað dans gæti verið en bara hreyfing og texti var það sem kom upp,“ segir hann.

„Það hefur líka eitthvað með það að gera að sem dansarar tjáum við okkur með hreyfingum en texti er eitthvað sem er álitið óáreiðanlegra eða óheiðarlegra en hreyfing. Mig langaði að nota texta til þess að bæta nýrri vídd við heiminn sem við búum til á sviðinu og líka sem brú fyrir áhorfandann. Ef maður sameinar orð og hreyfingar, opnar það verkið fyrir áhorfandann?“ spyr hann.

„Mig langar líka næstum að spyrja: Af hverju ekki? Af hverju ekki að nota texta? Það er önnur leið til að tjá sig. Dansarinn bregst við hvötum og hvatirnar voru þannig að textinn varð að vera með. Það er ekki þannig að ég hafi bætt textanum við verkin heldur vill textinn brjótast út.“

Hann tekur fram að ekki sé um að ræða frásagnarleikhús heldur sé textinn brotakenndari. „Þetta snýst um tónlistina í tungumálinu ekki síður en merkinguna og hvernig það tengist þeim harmóníum sem við erum að reyna að búa til á sviðinu. Mér finnst það afskaplega áhugavert. Við notum hljóðnemana ekki bara til þess að fara með texta, við syngjum og við reynum að túlka hvernig hafið hljómar eða hvernig nostalgía myndi hljóma.“

Hluti af verkfærakistunni

En hvaðan koma textabrotin sem heyrast í verkinu? „Stundum horfi ég á manneskju og langar að heyra hana segja: „Ég myndi gera hvað sem er,“ og þegar ég heyri hana segja það þá opnar það á nýjar hreyfingar. Stundum heyri ég eitthvað í lestinni sem talar til mín og ég skrifa það iðulega niður. Svo fer ég að sjá eitthvað sameiginlegt með því sem ég hef punktað hjá mér.

Þetta snýst ekki um að segja sögu heldur verður til brotakennd frásögn sem vekur áhorfandann til umhugsunar. Það er mikið af upplýsingum í verkinu en ef þér tekst að sjá heildarmyndina þá má sjá ákveðna þræði.“

Weinberger hefur verið að prófa sig áfram með áhrif hljóðnemans í fleiri verkum. „Þeir heillar mig. Það hvernig það sem maður segir er magnað upp. Ég get sagt eitthvað við þig og við rætt það og það getur alveg verið áhugavert en ef þú segir eitthvað í hljóðnema fyrir framan áhorfendur þá magnast það upp og það verður til sameiginleg hlustun,“ segir hann.

„Mér finnst hljóðneminn líka munúðarfullur. Ég hugsa að ef þú spyrðir vefnaðarlistamann af hverju hann ynni með vefnað þá myndi hann segja að efnið hafi einhver tilfinningarleg áhrif og þannig er það með hljóðnemann. Hann opnar eitthvað. Svo núna hef ég þá með hvert sem ég fer.

Ég hef skoðað hljóð, texta og hljóðnema í tvö ár og ég er alls ekki kominn með leiða á því. En þetta gengur örugglega í hringi. Það mun örugglega koma að því að ég fari aftur í það að vinna bara með hreyfingar. En núna er þetta hluti af verkfærakistunni minni.“

Einbeitt, auðmjúk og örlát

Weinberger segir að það hafi verið heiður að vinna með Íslenska dansflokknum. Persónulegu kynnin hafi verið virkilega góð.

„Þetta er virkilega frábær hópur af fólki. Þau hafa verið svo gestrisin og það er eitthvað svo heimilislegt við Íslenska dansflokkinn. Þetta er ekki eins og aðrir dansflokkar sem ég hef unnið með þar sem allt er svo stórt í sniðum og stundum ópersónulegt,“ segir hann.

„Auðvitað hafa verið áskoranir. Svona ferli gengur aldrei alveg smurt en þetta hefur gengið eins smurt og hægt er. Við komum frá ólíkum menningarheimum og svo er mín leið til að tjá hreyfingu mjög sérstök. Dansararnir sögðu að það hefði verið mjög nýtt fyrir þeim að reyna að tileinka sér hana og öll smáatriðin. Þau segjast hafa fengið harðsperrur á stöðum sem þau hafi aldrei fundið fyrir áður. Þetta tekur tíma en þau hafa verið virkilega einbeitt, auðmjúk og örlát. Ég er mjög ánægður með ferlið.“

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir