FH Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson er kominn heim.
FH Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson er kominn heim. — Morgunblaðið/Eggert
„Markmiðið er skýrt og það er að koma heim með Íslandsmeistarabikarinn í Kaplakrika,“ sagði Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handknattleik og leikmaður FH í Dagmálum

„Markmiðið er skýrt og það er að koma heim með Íslandsmeistarabikarinn í Kaplakrika,“ sagði Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handknattleik og leikmaður FH í Dagmálum.

Aron er mættur aftur í úrvalsdeildina eftir fjórtán ár í atvinnumennsku hjá Kiel í Þýskalandi, Veszprém í Ungverjalandi, Barcelona á Spáni og Aalborg í Danmörku.

Aron, sem er 33 ára gamall, hefur unnið ellefu landstitla á ferlinum, þrjá Evrópumeistaratitla og þá hefur hann tvívegis orðið heimsmeistari félagsliða, ásamt fjölda bikarmeistaratitla.

Hann hefur hins vegar aldrei orðið Íslandsmeistari en Hafnfirðingum er spáð efsta sæti úrvalsdeildarinnar á komandi keppnistímabili í spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liða í deildinni sem var opinberuð á kynningarfundi HSÍ á Grand hóteli á þriðjudaginn.

„Ég er vanur pressu og öllu sem henni fylgir. Ég er með mín tæki og tól til þess að takast á við hana en þetta er klárlega ný pressa fyrir mig og hún er öðruvísi en ég er vanur. Ég átta mig algjörlega á því að ég á ekki að geta klikkað á skoti en á sama tíma er ég líka að koma inn í risastóran klúbb þar sem markmiðið er að berjast um alla þá titla sem í boði eru.

Liðið og teymið er mjög sterkt og spennandi. Við erum með eldri, reynslumikla leikmenn sem eru mjög góðir. Svo erum við með leikmenn á aldrinum 24 ára til 27 ára sem eru orðnir þekktar stærðir í efstu deild. Síðan erum við með unga og efnilega leikmenn sem eru mjög hungraðir í að sanna sig, og ætla sér langt í íþróttinni, þannig að blandan er virkilega góð hjá okkur,“ sagði Aron meðal annars.

Tímabilið í efstu deild karla hefst í dag með þremur leikjum; Valur og Víkingur mætast á Hlíðarenda, FH tekur á móti bikarmeisturum Aftureldingar í Kaplakrika og Fram fær Gróttu í heimsókn í Úlfarsárdal. Á morgun tekur svo HK á móti Haukum í Kórnum og 1. umferðinni lýkur á laugardaginn þegar Selfoss fær KA í heimsókn á Selfoss og Stjarnan tekur á móti Íslandsmeisturum ÍBV í Garðabænum. bjarnih@mbl.is