Viðtal
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Sarah Kane skrifar ekki aðeins meitlaðan og magnaðan texta, heldur ótrúlega agaðan. Þó textinn virki hversdagslegur krefst hann alltaf ákveðinnar fjarlægðar til að hægt sé að skilja innihaldið,“ segir Margrét Vilhjálmsdóttir sem fer með titilhlutverkið í leikritinu Ást Fedru eftir Söruh Kane í þýðingu Kristínar Eiríksdóttur sem Þjóðleikhúsið frumsýnir á laugardag í leikstjórn Kolfinnu Nikulásdóttur. Æfingum dagsins er lokið og Margrét hefur gefið sér tíma til að setjast niður með blaðamanni þegar aðeins fimm dagar eru í frumsýningu. Við tyllum okkur í forsal Þjóðleikhússins og heyrum í fjarska óminn af Stóra sviðinu þar sem þýska leikskáldið og leikstjórinn Marius von Mayenburg æfir um þessar mundir Ekki málið.
Aðspurð segist Margrét umsvifalaust hafa sagt „já“ þegar henni bauðst hlutverk Fedru, enda mikill aðdáandi Kane. „En síðan fékk ég hálfgert sjokk þegar ég endurlas leikritið,“ segir Margrét og brosir leyndardómsfullt. Í verkinu leitar Kane innblásturs í gríska harmleiknum Fedru eftir Seneca sem byggist á goðsögninni um drottninguna Fedru sem verður ástfangin af stjúpsyni sínum, Hippolítosi, með skelfilegum afleiðingum. En ólíkt gríska harmleiknum á mestallt ofbeldi nýja verksins sér stað á sviðinu auk þess sem Kane skilgreindi leikrit sitt sem gamanleik en ekki harmleik.
Spyr um mörk, þrá og ofbeldi
„Það er einmitt gott að hafa í huga að Kane lýsti verkinu sjálf sem gamanleik,“ segir Margrét og bendir á að þegar limlestingar og ofbeldi verði of yfirþyrmandi, líkt og raunin sé í „splatter“-myndum, verði það svo yfirgengilegt að það verði hlægilegt. Bendir hún á að leikhópurinn hafi rætt það mikið hvort fara ætti þá leið að hafa ofbeldið eins raunverulegt og hægt væri eða nálgast hlutina með táknrænum hætti.
Margrét bendir á að hægt sé að leggjast í mikla rannsóknarvinnu í tengslum við verkið og skoða vísun þess í gríska harmleikinn. Í því samhengi nefnir hún skrif Anne Carson um konur í grískum harmleikjum. „Verkið fjallar um hnignandi konungsfjölskyldu sem býr í sjálfskipaðri einangrun og því má skoða hvers konar fólk þetta er í dag,“ segir Margrét og nefnir í því samhengi samfélagsmiðlastjörnur samtímans. Margrét segist sannfærð um að verkið tali jafnsterkt inn í samtímann og það gerði þegar það var frumsýnt fyrir nærri þremur áratugum.
„Kane veltir upp ágengum spurningum um ofbeldi, mörk, þrá, völd, valdaleysi og hefnd.“ Spurð hvernig sé að takast á við þá marglaga persónu sem Fedra er bendir Margrét á að hún hafi á ferli sínum fengið ágætis þjálfun í því að takast á við myrkar persónur sem beiti aðra ofbeldi. Nefnir hún í því samhengi Shakespeare-persónurnar Góneríl í Lé konungi sem hún lék 2010 og lafðina í Macbeth 2012, sem og Mörtu í Hver er hræddur við Virginiu Woolf? eftir Edward Albee 2016. „Fedra er „predator“ eða rándýr.“
Veitti gríðarlegan innblástur
Skyndilega opnast hliðardyrnar út úr Stóra salnum og út kemur Mayenburg, sem Margrét þekkir eftir margra ára búsetu í Berlín. „Ég var einmitt að segja blaðamanninum áðan hversu mikil áhrif Kane hefur haft á þína kynslóð leikskálda,“ segir Margrét við Mayenburg. „Það er rétt. Hún veitti okkur gríðarlegan innblástur,“ segir Mayenburg og rifjar upp að hann hafi á upphafsárum sínum sem leikskáld tekið þátt í fjögurra vikna vinnusmiðju í London þar sem Kane gaf mikið af sér í samskiptum við þátttakendur. „Hún var svo skemmtileg og meðvituð um leikritun sem handbragð en ekki bara spurningu um einhverja snilligáfu,“ segir Mayenburg og rifjar upp að þeir Benedict Andrews hafi fyrst unnið saman þegar Andrews leikstýrði Cleansed eftir Kane hjá Schaubühne í Berlín 2004. „Það var algjörlega mögnuð uppfærsla og falleg. Í öllum okkar samtölum við leikhópinn lögðum við Andrews höfuðáherslu á að verk Kane snerust ekki um grimmdina og ljótleikann heldur fegurðina,“ segir Mayenburg. Margrét tekur undir þessi orð og bætir við að í sínum huga sé ástin einmitt mikilvægt leiðarstef í verkum Kane: „Ástin kemur okkur í gegnum þetta allt.“ Mayenburg jánkar þessu og kveður.
Að grenja úr sér augun
Það fer að síga á seinni hluta viðtalsins. Í ljósi þess að Margrét hefur ekki sést á íslensku leiksviði í um fimm ár, eða frá því hún lék í uppfærslu Borgarleikhússins á Himnaríki og helvíti 2018, liggur beint við að spyrja hvort hún hafi verið að leika á sviði í Þýskalandi og Noregi þar sem hún hefur búið síðustu árin.
„Fyrir tveimur árum fékk ég tækifæri til að leika í uppfærslu Hálogalandsleikhússins í Tromsø á Når det storme som verst eftir franska leikskáldið Florian Zeller,“ segir Margrét og tekur fram að verkið kallist sterklega á við Föðurinn eftir sama leikskáld sem Þjóðleikhúsið sýndi 2017. „Það hentaði hlutverkinu að ég talaði norsku með smá hreim. Í fyrra lék ég fjögur hlutverk í uppfærslu leikhússins á Framúrskarandi vinkonu, sem var mjög skemmtilegt, enda frábært að fá tækifæri til að stökkva milli svona ólíkra persóna í sömu sýningunni,“ segir Margrét og bætir við: „Ég hélt alltaf að ég yrði grínleikkona, því ég nenni ekki að þurfa að grenja úr mér augun í hvert sinn sem ég stíg á leiksvið,“ segir Margrét og áréttar aftur að Kane hafi lýst Ást Fedru sem gamanleik. „En þegar fjallað er um hrylling verður líka að sjá fegurðina og ástina, þó hún geti orðið hrikalega sjúk.“
Sarah Kane var sem leikskáld glöggskyggn á heiminn og grimmdina sem þar þrífst
Eitt áhrifaríkasta breska leikskáld síðari tíma
Sarah Kane (1971-1999) er eitt áhrifaríkasta breska leikskáld síðari tíma. Hún var, ásamt Mark Ravenhill, í forsvari fyrir „In-Yer-Face“-leikhúsið í Bretlandi, sem lýsa mætti sem afar aðgangshörðu leikhúsi þar sem áhorfendur komast ekki hjá því að horfast í augu við ljótleika heimsins og grimmd manneskjunnar. En Kane beindi ekki aðeins sjónum sínum að grimmd, sársauka og dauða, heldur einnig frelsandi ást og kynhvötinni.
Á stuttum ferli sínum skrifaði Kane fimm leikrit. Blasted (Rústað, frumsýnt 1995), Phaedra’s Love (Ást Fedru, 1996), Cleansed (Hreinsun, 1998), Crave (Þrá, 1998) og 4.48 Psychosis (4.48 geðtruflun, frumsýnt 2000, sextán mánuðum eftir andlát Kane 1999).
Ást Fedru er þriðja verk Kane sem ratar á svið hérlendis, en áður hafa verið sýnd Rústað í leikstjórn Kristínar Eysteinsdóttur í Borgarleikhúsinu 2009 og 4.48 Psychosis í leikstjórn Friðriks Friðrikssonar í Þjóðleikhúsinu 2015 í samstarfi við Edda Productions og Aldrei óstelandi.
Kane glímdi árum saman við geðhvarfasýki og mikið þunglyndi. Snemma árs 1999 reyndi hún að fremja sjálfsmorð með því að taka hátt í 200 pillur. Henni var bjargað og komið á spítala, þar sem hún hengdi sig tveimur dögum síðar.
Breska Nóbelsverðlaunaleikskáldið Harold Pinter, sem var vinur Kane, sagðist fullviss um að grimmd mannskepnunnar hefði orðið Kane um megn. „Að einhverju marki erum við öll meðvituð um grimmd manneskjunnar, en okkur tekst að stórum hluta að ýta þeirri vitneskju til hliðar og gleyma. Ég held að hún hafi verið ófær um það. Ég tel að hún hafi verið glöggskyggn á heiminn og því séð vel hversu skelfilegur hann er.“