Vinum stríðsins fækkar ört

Það er hættulegt tillfinningaleysi, sem daglegar fréttir frá Úkraínu valda um að sprengjur hafi fallið hér og hvar og sjaldnast haft hernaðarlega þýðingu. Og í framhjáhlaupi er þess getið að fáeinir íbúar, jafnvel börn, hafi látið lífið. Reyndar eru svipaðar fréttir á ferðinni, en stopulli, um að aðgerðir Úkraínumanna hafi valdið tjóni í Rússlandi og þá undirstrikað að upphafsstaður sprengjusendinga hafi verið innan Rússlands. Það gerir Rússum órótt, því að þeir gengu út frá því að stríðið skapaði ekki hættur fyrir Rússa heima fyrir. Það gerir lífið þægilegra fyrir herstjórnir. Því þótt langt stríð taki á þolinmæðina, þá munar fjarlægðin og persónulegt öryggi miklu.

Allur þorri Rússa (og Pútín meðtalinn) „vissi“ að þetta yrði stutt stríðssnerra en úrslitin væru þegar bókuð um að Rússar ynnu auðveldlega. En jafnvel stríð, sem eru víðsfjarri, og litu þægilega út í byrjun, kalla með tímanum á óvinsældir. Ríkisvaldið og „pólitíkin“ ráða illa við það þegar líkpokunum fjölgar og fá merki sjást um sigur innan seilingar.

Stríðið í Víetnam er sláandi dæmi. Bandaríkin höfðu yfirburði í lofti og á jörðu niðri, en fundu þó ekki vinningsleið. Og loks var barist maður á mann, en ekki úr fjarlægð þar sem tækniyfirburðir nýttust. Og loks tapaðist stríðið heima fyrir! Stuðningurinn minnkaði og fjaraði loksins út og sífellt varð erfiðara að finna menn sem upphátt viðurkenndu að hafa stutt stríðið og það ákaft. En „hafi þeir stutt það stríð, þá hefur það verið annars konar stríð“. Ofurefli til staðar á öllum sviðum í stríði sem ynnist á skikkanlegum tíma.

Síðustu styrjaldir Bandaríkjanna í Víetnam, Írak og Afganistan töpuðust ekki í beinum skilningi, en þær unnust ekki heldur. Þótt staða „heimamanna“ í þessum löndum væri ekki beysin, þá fóru þeir hvergi. Þeir áttu jú heima þarna. Og það sem meira var; krafan reis um að bandarísku hermennirnir færu að koma heim, um hálfan hnöttinn og ekki í líkpokum. „Allir voru nú á móti stríðinu,“ því að óvinnandi stríð eru ekki vinsæl í landi kúrekanna.

Fjölskyldurnar sundruðust á fyrsta degi í Úkraínu. Karlmenn með litla stríðsþjálfun kvöddu konur og börn á lestarstöðvunum. Selenskí sagði þeim þjóðhöfðingjum sem buðu skjól, að hann væri ekki á förum. Og hann er þar enn og hefur ekki tapað miklu landi til viðbótar því sem tapaðist á fyrstu misserum stríðsins. En hann og hans menn hafa ekki grætt á gagnsókn sinni. Erfitt er að slá á hversu marga menn stríðið hefur haft til Heljar. „Við“ trúum frekar tölum Selenskís um fallna og særða svo að þeir eigi ekki afturkvæmt í bardaga. Við erum jú í því liði. Birtar dánartölur lúta engum vísindum og þær verða ekki sannreyndar. En það gefur augaleið að Rússar eru betur settir í mannskap, þótt vopnamokstur Natóríkja, einkum Bandaríkjanna, jafni þann leik. En það verður snúnara eftir því sem frá líður. En þótt Úkraínumenn hafi fengið vopn sem enginn annar gat skaffað þeim, þá þurfti Selenskí að nudda dag og nótt um að fá vopn, sem hann sagði að væru þau sem ráða mundu úrslitum. Auðvitað er það svo að hefði Selenskí ekki fengið svo fullkominn varnarbúnað, þar með taldar fullkomnustu flaugar, þá hefði hann þegar tapað stríðinu.

Pútín veðjaði á að viðbrögð Vesturlanda yrðu nú þau sömu og þegar leiðtogar ESB fengu ótvírætt umboð frá Obama forseta um að sjá um viðbrögð vesturvelda. Og þau urðu ekkert annað en uppblásnar refsiaðgerðir, sem engu skiptu. Pútín trúði því þess vegna að 50 kílómetra tískusýning hans á gömlum skriðdrekum, eins og blásið var til á Rauðatorginu, myndu duga til uppgjafar. En Boris var þá enn í London og blés í lúðra og hafði hátt og vesturveldum þótti óþægilegt að Pútín kæmist upp með, sér að kostnaðarlausu, að höggva enn í sama knérunn.