Messa Góður hópur fólks úr Möltureglunni hér saman kominn eftir hátíðarmessu sem tileinkuð var Maríu mey og var í Landakotskirkju um síðustu helgi.
Messa Góður hópur fólks úr Möltureglunni hér saman kominn eftir hátíðarmessu sem tileinkuð var Maríu mey og var í Landakotskirkju um síðustu helgi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um síðustu helgi var haldin í Landakotskirkju í Reykjavík Mölturiddaramessa til heiðurs heilagri Maríu mey í tengslum við ársfund Norðurlandadeildar Möltureglunnar. Starf hennar er í kaþólskum sið, tileinkað Jóhannesi skírara og hefur að inntaki að aðstoða sjúka og fátæka

Um síðustu helgi var haldin í Landakotskirkju í Reykjavík Mölturiddaramessa til heiðurs heilagri Maríu mey í tengslum við ársfund Norðurlandadeildar Möltureglunnar. Starf hennar er í kaþólskum sið, tileinkað Jóhannesi skírara og hefur að inntaki að aðstoða sjúka og fátæka.

„Starfið er öflugt og gefandi,“ segir Gunnar Örn Ólafsson, einn félaga í reglunni. Rúmlega tuttugu manns sóttu fundinn að þessu sinni; fólk frá Finnlandi, Svíþjóð, Danmörku og Íslandi. Um 45 manns eru í hinni norrænu reglu. Því til viðbótar kemur mikill fjöldi sjálfboðaliða sem sinnir líknarstarfi og er þar lifandi í andanum í verkefnum sem skipta samfélagið miklu máli.

Höfuðstöðvar Möltureglunnar eru í Róm. Hún er sjálfstætt ríki sem gefur út sín eigin vegabréf. Er með sendiráð eða fulltrúa í 106 ríkjum. Hefur einnig áheyrnarfulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum og fleiri alþjóðastofnunum. Slíkt þarf; svo umsvifamikið er starf reglunnar sem oft sinnir hjálparstarfi. Má þar nefna jarðskjálfta á Ítalíu fyrr á þessu ári.

„Við leggjum víða lið,“ segir Gunnar Örn. Hjá íslenskum Mölturiddurum er áherslumál að styðja við starf Teresusystra. Þær eru með starfsemi við Ingólfsstræti í Reykjavík, þar sem margir líta við á morgnana og fá kaffi og brauð. Gjarnan eru þetta hælisleitendur eða fólk í vanda. Einnig hefur verið stutt við fæðingarsjúkrahús í Betlehem sem Möltureglan starfrækir eins og fleiri spítala. sbs@mbl.is