Ölfus Vatnið frá Icelandic Glacial er nú selt í yfir 30 löndum. Sækja á fram á nýjum mörkuðum. Þar með talið í Mið-Austurlöndum.
Ölfus Vatnið frá Icelandic Glacial er nú selt í yfir 30 löndum. Sækja á fram á nýjum mörkuðum. Þar með talið í Mið-Austurlöndum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjárfestingafélagið Iceland Star Property hefur keypt meirihlutann í Icelandic Water Holdings, fyrirtækinu sem selur íslenskt vatn undir merkjum Icelandic Glacial í ríflega þrjátíu löndum. Sænski fjármálamaðurinn Johan Dennelind er í forsvari fyrir…

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fjárfestingafélagið Iceland Star Property hefur keypt meirihlutann í Icelandic Water Holdings, fyrirtækinu sem selur íslenskt vatn undir merkjum Icelandic Glacial í ríflega þrjátíu löndum.

Sænski fjármálamaðurinn Johan Dennelind er í forsvari fyrir fjárfestingafélagið en hann varð stjórnarformaður Icelandic Water Holdings í stjórnarkjöri 12. júní síðastliðinn.

Dennelind var í Stokkhólmi þegar Morgunblaðið ræddi við hann símleiðis.

Spurður um hlut Iceland Star Property í Icelandic Water Holdings eftir viðskiptin segir Dennelind að félagið hafi eignast meirihluta í fyrirtækinu, sem endurspeglist í meirihluta í nýrri stjórn.

Varðandi hlut Blackrock, eins stærsta ef ekki stærsta fjárfestingafélags heims, segir Dennelind að bandaríska félagið sé nú annar stærsti hluthafinn í fyrirtækinu. Það sé mjög jákvætt að hafa Blackrock innanborðs í ljósi orðspors félagsins, mikillar þekkingar og víðtækrar reynslu af alþjóðaviðskiptum.

Eiga umtalsverðan hlut

Spurður hver hlutur feðganna Jóns Ólafssonar og Kristjáns sonar hans verður eftir viðskiptin segir Dennelind að þeir muni áfram eiga umtalsverðan hlut í félaginu. Þeir einsetji sér að stuðla að vexti fyrirtækisins og muni áfram eiga sæti í stjórninni. Jafnframt verði Jón sérstakur sendiherra vörumerkisins um heim allan.

Ásamt þeim feðgum eiga þeir Daniel Worrell og Jeffrey Gordon sæti í stjórninni sem fulltrúar Blackrock. Peter Zhang, Danny Liang, Tony Liang, Peter Partma og fyrrnefndur Dennelind eru í stjórninni fyrir hönd nýrra meirihlutaeigenda.

– En hvað greiddi Iceland Star Property fyrir meirihluta í Icelandic Water Holdings?

„Það er ekki gefið upp á þessu stigi en við viljum geta þess að samningurinn var ekki gerður í gegnum hlutafjárkaup heldur með útgáfu nýs hlutafjár til að bæta sjóðstreymi og fjárhag fyrirtækisins,“ segir Dennelind.

– Hefur greiðslan verið innt af hendi?

„Já.“

– Hvað heitir fjárfestingasjóðurinn í Liechtenstein sem er að baki Iceland Star Property?

„Þetta er hópur fjárfesta af ýmsum þjóðernum. Þess má einnig geta að samsetning hluthafa í sjóðnum kann að breytast með tímanum.“

Enginn á yfir 20%

– Hvaða fjárfestar eru hér á ferð?

„Þetta eru nokkrir alþjóðlegir fjárfestar en enginn á meira en 20% hlut og þeir eru af ýmsum þjóðernum. Fjárfestarnir eru meðal annars frá Kanada, Hong Kong og Singapúr.“

– Hópurinn hyggst styrkja Icelandic Glacial sem alþjóðlegt vörumerki. Hversu mikil fjárfesting er í burðarliðnum til að láta þetta raungerast?

„Við ætlum okkur að fjárfesta fyrir umtalsverðar fjárhæðir í fyrirtækinu til að auka framleiðslugetuna og styðja við sölu og dreifingu um heim allan. Það hafa of fáir í heiminum bragðað hreinleika Icelandic Glacial. Það er vert að taka fram að fyrirtækið mun áfram hafa djúpar rætur á Íslandi og við höfum metnað til að stækka verksmiðjuna í Ölfusi og auka umsvif okkar á Íslandi en það gæti eflt vinnumarkaðinn og haft annan ávinning fyrir nærsamfélagið í för með sér.“

Með endurskoðun í huga

– Hvers vegna er fyrirtækið með aðsetur í Liechtenstein en ekki, til dæmis, í Lúxemborg?

„Við fylgjum þannig regluverki EES-svæðisins en Liechtenstein varð fyrir valinu af lagalegum ástæðum og með endurskoðun í huga.“

– Hver er þinn bakgrunnur?

„Ég er 53 ára og hef verið framkvæmdastjóri mestallan minn feril í fjarskiptum, netþjónustu og fjölmiðlum. Ég hef starfað víða um heim, í Asíu, Afríku, Evrópu og Suður-Ameríku. Fyrir þremur árum ákvað ég að láta staðar numið sem framkvæmdastjóri og stofna mitt eigið ráðgjafar- og fjárfestingafyrirtæki. Ég veiti nokkrum viðskiptavinum ráðgjöf og fjárfesti í nokkrum fyrirtækjum og hef mikla ánægju af því. Ég er sænskur ríkisborgari og að jafnaði með aðsetur í Svíþjóð.“

Horft til Mið-Austurlanda

– Hvernig meturðu stöðu Icelandic Glacial á alþjóðamarkaði?

„Jón og Kristján hafa sem stofnendur kostað miklu til, til að byggja upp vörumerkið, og hefur það skilað því að Icelandic Glacial er orðið eitt sterkasta vörumerkið í vatnsbransanum um heim allan. Þetta er því rétti tíminn til að sækja fram á nýjum markaðssvæðum. Félagið hyggst ekki síst sækja fram í Mið-Austurlöndum, Suðaustur-Asíu og Kína,“ segir Dennelind.

Hann vekur svo athygli á því að hann hafi mikið dálæti á Íslandi. Fyrir kórónuveirufaraldurinn hafi hann fylgst með hringborðsumræðum með forsætisráðherra Íslands og forstjórum frá Íslandi og öðrum Norðurlöndum en sjálfbærni hafi borið á góma. Þá hafi hann verið hér á landi með fjölskyldu sinni og þau haft gaman af landi og menningu, ekki síst gestrisni Íslendinga.

Skoðuðu aðra kosti

„Vatnsgeirinn á Íslandi varð á vegi mínum fyrir faraldurinn en þá var ég með félögum mínum sem voru að leita að verkefnum. Það var þá sem ég fór að fylgjast grannt með þessum geira og ég hef veitt þessum hópi fjárfesta ráðgjöf. Ég hitti líka heimamenn og skoðaði aðra valkosti á Íslandi, ef þessi samningur hefði ekki gengið eftir, en við skoðuðum einnig önnur tækifæri til að flytja út vatn frá Íslandi.

Niðurstaðan var sú að það kæmi ekki annað fyrirtæki en Icelandic Water Holdings til greina. Eftir að hafa kynnst þeim mikla árangri sem Icelandic Glacial hefur náð var niðurstaðan því að sjálfsögðu sú að ganga til samninga. Ég hef kynnt mér málin sífellt betur og kann virkilega að meta vatnið. Það er frábær vara. Það hafa of fáir í heiminum bragðað vatnið frá Icelandic Glacial. Það er ábyggilegt.“

Fari á hærra þrep

„Við teljum að möguleikarnir séu miklir. Fjárfestarnir elska vöruna og telja að þeir geti eflt fyrirtækið og gert Icelandic Glacial að alþjóðlega þekktu vörumerki. Blackrock hefur sama metnað. Hagsmunir okkar og Blackrock fara saman en fulltrúar bandaríska fyrirtækisins eru einnig mjög spenntir yfir tækifærinu til að koma Icelandic Glacial upp á hærra þrep og tryggja að fleira fólk um heim allan fái að bragða á vatninu.

Við erum jafnframt afar ánægðir með að Blackrock sé að fjárfesta í fyrirtækinu. Þeir breyttu lánsfé í eiginfé og ég tel að það vitni um mikla staðfestu og að það sé styrkleikamerki fyrir íslenskt viðskiptalíf að hafa svo virtan hluthafa með okkur,“ segir Dennelind að lokum.

Höf.: Baldur Arnarson