Sævar Freyr Þráinsson
Sævar Freyr Þráinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR), segir að enn liggi ekki fyrir nægilegar upplýsingar um áform Orkufélagsins Títans til að geta metið áhrifin af mögulegri nýtingu á svæðinu

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR), segir að enn liggi ekki fyrir nægilegar upplýsingar um áform Orkufélagsins Títans til að geta metið áhrifin af mögulegri nýtingu á svæðinu. Því sé mikilvægt að náið samstarf verði milli OR og Títans um öll skref sem tekin eru.

Elliði Vignisson, sveitarstjóri Ölfuss, greindi frá því í síðustu viku að sveitarfélagið hefði stofnað Orkufélagið Títan hf., en tilgangur félagsins er að fara fyrir orkurannsóknum, orkuvinnslu og rekstri hitaveitu í þágu Ölfuss, annarra sveitarfélaga og hagsmunaaðila og rekstri tengdra mannvirkja á svæðinu.

Sævar segir í samtali við mbl.is að OR-samstæðan hafi átt í góðu samstarfi við sveitarfélagið Ölfus um áratugaskeið og þjónustað bæði íbúa og fyrirtæki á svæðinu með einum eða öðrum hætti.

Rannsóknir fyrirhugaðar í kringum Hengilinn

OR stefnir einnig á frekari nýtingu á há- og lághitasvæðum innan sveitarfélagsins. „Enn frekari uppbygging í Jarðhitagarði Orku náttúrunnar er fyrirhuguð sem og á fleiri stöðum innan sveitarfélagsins Ölfuss og gerði ON nýverið raforkusamning við landeldisfyrirtækið Geosalmo í því ljósi. Frekari jarðvarmanýting hjá OR er fyrirhuguð innan sveitarfélagsins Ölfuss og í fleiri nálægum sveitarfélögum til þess að tryggja orkuöflun til framtíðar, s.s. í Meitlum, Hverahlíð II, Þverárdal og Litla- Skarðsmýrarfjalli,“ segir Sævar.

Samhliða því sé verið að skoða hvort nýta megi svæðin í Miðdal, Fremstadal, Innstadal, Bitru og Ölfusdal. Einnig er til skoðunar uppbygging vindorkugarða við Lambafell og Dyraveg sem eru innan sveitarfélagsins Ölfuss.

„Innan OR-samstæðunnar hefur byggst upp áratuga þekking á nýtingu auðlindanna á þessu svæði og mikið lagt í að vinnsla sé með ábyrgum hætti, og tryggja þannig auðlindirnar til framtíðar. Samhliða því eru stigin markviss en ábyrg skref áfram til nýtingar á svæðinu til að styðja við orkuskiptin, þróun atvinnulífsins og vöxt samfélagsins alls,“ segir Sævar og bætir við að tryggt sé með lögum að við útgáfu nýrra leyfa til nýtingar á auðlindum í jörðu sé tillit tekið til þeirrar nýtingar sem þegar er hafin í næsta nágrenni.

Ekki hægt að rannsaka Hengilinn fyrr en nú

Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra rannsókna og nýsköpunar hjá OR, segir að vegna tafa á afgreiðslu rammaáætlunar hafi ekki verið hægt að rannsaka ný svæði í Hengli fyrr en nú. Rannsóknir séu þegar hafnar og verða leyfismálin fyrirferðarmikil á þessu ári. „Sérstaklega er mikilvægt að sjá sem fyrst hversu heitur vökvinn í jarðhitakerfunum er. Hitinn stjórnar hlutfalli gufu og vatns og ræður því hvort hann sé nýtanlegur til raforku- og varmavinnslu eða aðeins til varmavinnslu,“ segir Hera.

Hera bendir á að jarðhitakerfin á Hengilssvæðinu séu mörg og að einhverju leyti aðskilin. Hún tekur í sama streng og forstjórinn um áform Títans. „Einnig er óhætt að segja að Ölfus sé stórt sveitarfélag og þar séu miklar jarðhitaauðlindir, bæði háhita- og lághitakerfi. Til að geta svarað nákvæmlega hvaða áhrif áform Títans hafa á nýtingu dótturfélaga Orkuveitunnar þyrftum við að hafa meiri upplýsingar um áformin. Það er þó ljóst að mikil varmaorka er til staðar innan Hveragerðisbæjar og í Ölfusdal,“ segir Hera.

„Líklegt er að jarðhitakerfið sem þar er standi undir aukinni vinnslu en öllu máli skiptir hvernig staðið er að þeirri framleiðsluaukningu og lítið hægt að segja án frekari rannsókna,“ segir Hera.

Lausn verði fundin til að nýta svæðin vel

Hún segist hafa fulla trú á því að þeim góðu samskiptum sem hafa verið milli OR og Ölfuss verði fram haldið. Samvinnan muni einnig halda áfram og lausn verði fundin til að nýta svæðin til hagsbóta fyrir samfélagið.

Hera bendir á að hitun húsa fyrir almenning sé í forgangi þegar jarðhitaauðlindir eru nýttar. Þau áform sem eru á borði OR miði helst að því að tryggja orku til frambúðar á svæðinu. Það sé gert með því að kanna alltaf fleiri og fleiri möguleika.

„Þannig er mikilvægt að frekari jarðhitavinnsla í Ölfusdal og dölunum þar fyrir innan skerði ekki möguleika á rekstri hitaveitu fyrir almenna íbúa um langa framtíð. Þar er mikilvægt að huga að því að uppbygging orkuvinnslu á svæðinu verði gerð í skynsamlegum áföngum og viðbrögð jarðhitasvæðanna við vinnslu verði notuð til að meta fýsileika frekari uppbyggingar,“ segir Hera og bendir því næst á að jarðhitaauðlindin, sem er grunnur þeirra lífsgæða sem við búum við í dag, er ekki endalaus uppspretta.

„Lækkun á þrýstingi í jarðhitakerfum samfara vinnslu á jarðhita gerir það að verkum að flæði úr borholum minnkar, sem þýðir að þrátt fyrir að jarðhitaauðlindir endurnýi sig þá gerist það á löngum tíma og mun hægar en sjálft vinnslutímabilið.“

Umgangast skuli jarðhitaauðlindina af virðingu

Hera segir mikla möguleika til staðar í núverandi vinnslu OR hvað varðar bætta nýtingu. Það sé alltaf þeirra fyrsti kostur áður en farið er í að auka upptekt á svæðinu.

„Mörg okkar hér Íslandi líta á heitt og kalt vatn, og rafmagn, sem sjálfsagðan hlut en við þurfum öll að muna að umgangast jarðhitaauðlindina af virðingu með það fyrir augum að tryggja komandi kynslóðum sama aðgengi. Magn og gæði auðlinda sem við nýtum er því gríðarlega mikilvægur þáttur í okkar starfsemi,“ segir Hera.

Höf.: Sonja Sif Þórólfsdóttir