Hörður Felix Harðarson
Hörður Felix Harðarson
Útilokað er að flutningarnir hafi haft að markmiði eða verið til þess fallnir að raska samkeppni á sjóflutningamarkaði.

Hörður Felix Harðarson

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í máli Eimskips og Samskipa er komist að þeirri niðurstöðu að samkomulag félaganna um svokallaða neyðarflutninga hafi verið ólögmætt samráð sem refsa beri fyrir.

Með samkomulaginu var félögunum gert kleift að leita hvort til annars með tilfallandi flutninga í tilvikum þar sem röskun varð á áætlun, svo sem vegna bilana, veðurs, strands eða annarra óviðráðanlegra orsaka. Tilgangurinn með samkomulaginu var fyrst og síðast að bjarga verðmætum, einkum ferskvörum, við aðstæður sem þessar. Samningar af þessum toga eru eðli málsins samkvæmt vel þekktir um heim allan, ekki eingöngu í sjóflutningum heldur fjölda annarra geira atvinnulífsins, t.d. flugþjónustu og fjarskiptaþjónustu.

Gögn málsins sýna að umfang flutnings skipafélaganna á grundvelli þessa samkomulags var smávægilegt. Á árunum 2008 til 2013 voru fluttar 144 gámaeiningar á þessum grundvelli en heildarflutningsmagn félaganna á því tímabili var 1,1-1,2 milljónir gámaeininga. Augljóst er að tilfallandi flutningar af þessum toga flokkast ekki undir samvinnu eða samstarf keppinauta sem er fallið til þess að hafa neikvæð áhrif á samkeppni. Flutningarnir námu um 0,01% af heildarflutningum og höfðu því engin áhrif á rekstur félaganna, önnur en þau að unnt var að bjarga verðmætum fyrir viðskiptavini í neyðartilvikum. Útilokað er að flutningarnir hafi haft að markmiði eða verið til þess fallnir að raska samkeppni á sjóflutningamarkaði.

Samkeppniseftirlitið er hins vegar ósammála þessu og sér þessum flutningum allt til foráttu. Gengur stofnunin svo langt að lýsa þessum viðskiptum sem „Evrópusamráði“. Samskip mega sýnilega ekki undir neinum kringumstæðum senda vörur með Eimskipi, sama hvert tilefnið er. Hins vegar telur Samkeppniseftirlitið mjög mikilvægt að ýta með öllum tiltækum ráðum undir aukna yfirburði Eimskips á sjóflutningamarkaði. Þetta gerði stofnunin til að mynda með því að samþykkja á árinu 2019 að Eimskip mætti hefja gríðarlega umfangsmikið samstarf við keppinaut í sjóflutningum, það umfangsmesta sem nokkru sinni hefur sést hér á landi.

Royal Arctic Line er öflugt flutningafyrirtæki sem er í einokunarstöðu á mörkuðum á Grænlandi. Félagið er jafnframt keppinautur á sjóflutningamörkuðum hérlendis. Með ákvörðun nr. 13/2019 var þessum tveimur markaðsráðandi fyrirtækjum heimilað að reka sameiginlegt flutningakerfi í flutningum milli Íslands og Evrópu og samnýta allt pláss um borð í skipum félaganna tveggja. Með því er Eimskipi gert kleift að ná aukinni stærðarhagkvæmni og nýtingu á flutningakerfinu með samstarfi við keppinaut á markaðnum.

Það er ekki sama hvort í hlut á Jón eða séra Jón þegar kemur að mati Samkeppniseftirlitsins á viðskiptum eða samstarfi keppinauta á sjóflutningamarkaði.

Höfundur er lögmaður Samskipa.

Höf.: Hörður Felix Harðarson