Þegar hausta tekur koma brúnir, grænir og beige-litir tónar oft við sögu. Það sem er öðruvísi núna er að þessir litir eiga helst að flæða yfir allt. Það þýðir að neðri hluti og efri hluti eiga helst að vera í sama lit og ekki er verra ef yfirhöfnin tónar við litapallettuna þannig að litaflæðið sé eins og ferskur andblær á heitum sumardegi. Nema kannski ef liturinn sem þú blandar við sé rauður. Rauði liturinn er með innkomu í hausttískuna sem hressir okkur við. Kannski áttu rauðan bol í fataskápnum sem passaði aldrei við neitt en núna passar hann við allt.
Það væri svo auðvelt að segja að tískustraumar haustsins væru allir í anda 1990 og aldamótanna. Það er þó ekki alveg þannig því það sjást áhrif frá mörgum fyrri tískutímabilum. Það má sjá merki frá sjöunda og áttunda áratugnum. Aldamótatískan kemur sterk inn með sínum síðu pilsum og buxum og fatnaði með hermannasniði. Öll glansandi efnin minna líka á tísku aldarmótanna þegar Guðjón í Oz hélt geggjuð þemapartí og gosbjór þótti það ferskasta sem hægt var að setja inn fyrir varir sínar.
Stórir jakkar
Stórir og víðir jakkar eru áberandi í tísku haustsins en hvernig á að nota þá án þess að líta út fyrir að vera í fötum af pabba þínum? Jú, þú ferð í víðan jakka við síðar útvíðar buxur eða ferð í eitthvað þröngt undir. Skims-kjólar Kim Kardashian passa til dæmis mjög vel innanundir stóra og mikla jakka. Það má líka klæðast þröngum buxum og þröngum topp undir jakkanum. Það skiptir hins vegar máli að jakkarnir séu vel sniðnir þótt þeir séu stórir. Þeir þurfa að passa á þig og svo má alltaf hafa bak við eyrað að það má breyta fötum. Það má þrengja víða jakka örlítið í mittið til þess að gera þá kvenlegri.
Bolir með gati
Eitt af því sem er áberandi í tískunni núna eru bolir, kjólar og toppar með gati yfir bringuna. Sísí Ingólfsdóttir klæddist slíkum bol á dögunum þegar hún opnaði sýningu á verkum sínum. Sísí fékk landsmenn til þess að langa í útsaumað verk með sniðugum setningum sem settu fókusinn á hvað manneskjan getur verið mikill plebbi á köflum. Það voru margir sem þráðu að afplebbast því verkin ruku út á núll-einni.
Axlarpúðar fyrir fólk í jafnvægi
Svo eru það axlapúðarnir – ekki gleyma þeim. Fólk sem gengur ennþá til sálfræðings vegna áfallastreituröskunar sem skrifast á allt of stóra axlapúða sem fóru á flakk og voru skyndilega dottnir niður á bak eða maga er líklega ekki að fara að kaupa sér jakka eða kápu með risaaxlapúðum en yngri kynslóðir munu eflaust stökkva á vagninn. Smá axlapúðar geta verið góð hugmynd ef efri hluti fólks er rýr og fólk vill fá valdsmannslegra útlit. Þeir geta líka gert heildarmyndina tignarlegri. Eina leiðin til þess að komast að því hvort jakki með axlapúðum sé góð eða slök hugmynd er að máta. Og máta svo aftur.
Þegar fólk er að venjast nýjum tískustraumum þarf að gefa sér tíma. Ekki hlaupa inn í næstu búð og kaupa bara eitthvað. Einn af heitustu tískustraumum haustsins er nefnilega að fara vel með peninga. Það er fjárfesting að kaupa vönduð og góð föt en það er ekki fjárfesting ef dýru fötin eru keypt í flýti til þess að fylla upp í hjartasárin sem eru að fara með okkur í gröfina. Þá er betra að nota peningana til þess að fara í handleiðslu. Þegar fatastíll og tíska eru til umræðu gleymist oft að minnast á að slíkt prjál er ekki samkvæmisleikur hinna illa gefnu. Rannsóknir sýna að fólki sem leggur metnað í klæðaburð sinn vegnar betur á vinnumarkaði og fær hærri laun.
Það er einmitt vegna þessara rannsókna sem fólk í framlínunni ræður sér stílista til að setja saman fataskáp til þess að vera sem flottast. Það eru nefnilega ekki allir jafnklárir og Alma Möller landlæknir sem töfraði fram hvert dressið á fætur öðru á ákveðnu tímabili sem þessi þjóð vill helst gleyma.