Jóna Fríða Gísladóttir fæddist á Hólslandi í Eyjahreppi 6. apríl 1948. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 27. ágúst 2023.
Foreldrar hennar voru Kristján Gísli Sigurgeirsson, f. 18.6. 1915, d. 12.8. 1994, og Auðbjörg Bjarnadóttir, f. 27.7. 1915, d. 7.6. 1993. Jóna Fríða átti fjögur systkini, þau eru Sigurgeir, f. 1940, Bjarnheiður, f. 1941, d. 2018, Magnús, f. 1944, og Alda Svanhildur, f. 1953.
Eftirlifandi eiginmaður Jónu Fríðu er Sævar Garðarsson, f. 12.11. 1946. Foreldrar Sævars voru þau Garðar Guðjónsson, f. 1925, d. 2018, og Kristín Jóhannesdóttir, f. 1928, d. 2019. Áður var Jóna Fríða gift Vali Frey Jónssyni, f. 1947. Foreldrar hans voru Jón Hjálmtýsson, f. 1918, d. 2005, og Margrét Sigurðardóttir, f. 1923, d. 2014.
Jóna Fríða og Sævar giftust þann 21.12. 1985 og eignuðust einn son, Garðar f. 1986. Hann er kvæntur Margréti Aðalbjörgu Blængsdóttur, f. 1988. Synir þeirra eru Sævar Hrafn, f. 2013, Sölvi Viktor, f. 2017, og Óðinn Darri, f. 2021. Sonur Jónu Fríðu og Vals Freys er Jón Birgir, f. 1970, kvæntur Maríu Pálsdóttur, f. 1964. Börn þeirra eru 1) Indíana Björk, f. 1995, maki Ólafur Þór Jónsson, f. 1992. Synir þeirra eru Matthías Atli, f. 2021, og Theodór Steinn, f. 2023. 2) Trausti Freyr, f. 1999. Fyrir átti Sævar soninn Sigurð Rúnar, f. 1971. Hann er kvæntur Monu Erlu Ægisdóttur, f. 1972, barn Kristrún Erla, f. 2012. Fyrir átti Sigurður Rúnar börnin Einar Snorra, f. 1992, og Heiðrúnu Ósk, f. 1994. Fyrir átti Mona Erla fjögur börn.
Jóna Fríða fæddist á Hólslandi í Eyjahreppi. Hún fluttist með fjölskyldu sinni að Hausthúsum í sama hreppi og ólst þar upp. Hún sótti grunnskólanám í Söðulsholti í Eyjahreppi og árið 1968 stundaði hún nám við Húsmæðraskólann í Reykjavík. Jóna Fríða starfaði sem bóndi ásamt fyrrverandi eiginmanni. Fyrst í Hausthúsum 1969-1970 og síðar að Akurholti í Eyjahreppi 1971-1984. Samhliða bústörfum gegndi hún starfi matráðskonu í Laugargerðisskóla á Snæfellsnesi frá 1978 til 1984. Eftir að Jóna Fríða flutti til Reykjavíkur 1984 starfaði hún fyrst hjá Víði hf. og svo hjá Tóró til ársins 1986.
Jóna Fríða starfaði sem dagmóðir á árunum 1988 til 1990. Eftir það hóf hún störf á leikskólanum Holtaborg og þaðan fór hún á leikskólann Ásborg til ársins 2004. Þá hóf hún störf á leikskólanum Maríuborg í Grafarholti og starfaði þar uns hún settist í helgan stein árið 2017.
Jóna Fríða stundaði nám sem leikskólaliði og útskrifaðist með fyrstu einkunn árið 2007. Jóna og Sævar hófu sína sambúð á Hjallavegi í Reykjavík og bjuggu þar til ársins 2004 þegar þau fluttu í Grafarholt. Jóna var alla tíð mikil hestakona, hún átti nokkurn fjölda hrossa á meðan hún bjó í Akurholti og þá hélt hún hestamennskunni áfram eftir að hún flutti til Reykjavíkur ásamt Sævari, þau héldu hesta í Víðidal til ársins 2006. Þau ferðuðust mikið innanlands sem og erlendis hin síðari ár auk þess sem þau áttu sumarbústað í Öndverðarnesi.
Útför Jónu Fríðu fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 7. september 2023, kl. 14.
Þessi upphafskynni okkar Jónu lýsa henni mjög vel. Húmorinn og glettnin í svip hennar sem einkenndu hana alla tíð. Hún lét ekki mikið fara fyrir sér fara en hafði ákveðnar skoðanir. Það var svo gaman að vera með henni þegar hún hló svo andlitið varð uppljómað og sló oftar en ekki á lær sér og gerði góðlátlegt grín að sjálfri sér og öðrum í kringum sig. Jóna talaði oft um heilaþokuna sem væri að stríða sér og allir höfðu gaman af að fylgjast með er hún sagði frá í kaffistofunni og í prjónaklúbbnum sem við Jóna vorum í saman.
Jóna var alltaf svo smekkleg og fín, puntaði sig oftar en ekki með handverki sínu, gladdi aðra með gjöfum sem hún hafði gert og stundum nutum við verka hennar sem fjáröflun fyrir náms- og hópeflisferðir skólans. Í síðasta prjónaklúbb sýndi hún okkur fugl sem hún var búin að skera út og var hreint meistaraverk eins og allt handbragð sem eftir hana liggur.
Það er ekki hægt að minnast Jónu án þess að hugsa til Beggu heitinnar en þær unnu mikið saman í Maríuborg. Það var yndislegt að horfa á þær skemmta sér þegar við gerðum okkur glaðan dag hvort sem það var jólagleði eða námsferðir. Þá léku þær vinkonurnar á als oddi, sungu, hlógu og gerðu grín að sjálfum sér og dásömuðu allt og alla í kringum sig. Ég veit að Begga mín mun taka á móti Jónu sinni opnum örmum í Sumarlandinu.
Jóna starfaði mest á tveim deildum leikskólans og hugsaði ég oft að ef hægt væri að klóna Jónu mína þá myndi ég gjarnan gera það svo öll börnin í leikskólanum gætu notið nærveru hennar, visku og góðmennsku. Hún var einstök með börnunum, þau dýrkuðu öll Jónu sína og var oft mjög gott að fara í hlýjan faðm hennar á morgnana þar sem hún umvafði börnin og raulaði jafnvel kvæði eða þulu þangað til þau voru tilbúin fyrir daginn.
Talandi um þulur og kvæði. Þar var Jóna alveg í sérflokki að vinna með börnunum og lærðu aðrir starfsmenn mjög mikið af henni. Bókin Lubbi finnur málbein var bók sem hún vann mikið með til að kenna börnunum tákn og hljóðmyndun. Það var hrein unun að sjá hana kenna börnunum þulur og söngva sem eru í bókinni. Börnin lærðu ótrúlega fljótt og vel sitt tákn og voru svo stundum með uppákomu í salnum þar sem þau fóru með sína þulu og rytminn og framburðurinn var alveg dásamlegur. Þá var nú Jóna mín stolt af börnunum sínum og þau ekki síður af sér sjálfum.
Jóna sá oftar en ekki um samverustundir á sinni deild og sátu þá börnin flötum beinum og ef þau gleymdu sér þurfti hún ekki annað en að horfa til þeirra þá mundu þau hvernig Jóna vildi að þau sætu í samverustund. Ég heyrði hana aldrei hækka röddina eða skammast við börnin heldur notaði hún blíðu röddina sína og andlit til að koma því til skila sem þurfti og oftar en ekki var það notalegi faðmur Jónu sem breytti öllu til hins betra.
Ég gæti endalaust hrósað og dásamað Jónu mína fyrir allt sitt fallega og góða starf í Maríuborg. Í dag get ég ekki annað en verið þakklát fyrir að hafa fengið að njóta krafta hennar, börnum foreldrum og starfsfólki leikskólans til gleði, fróðleiks og sem ógleymanlegur vinur og starfsmaður.
Missir Sævars er mikill og allra í fjölskyldunni, ekki síst barnabarnanna sem fengu ekki að njóta ömmu sinnar lengur. Ég sendi þeim öllum mínar bestu samúðarkveðjur.
Ég vil að lokum þakka fyrir þær stundir sem ég og allir í Maríuborg fengum með Jónu okkar. Þín verður sárt saknað af öllum er fengu að kynnast þér og öllu því góða sem þú kenndir okkur. Blessuð sé minning þín, elsku yndislega Jóna.
Guðný Hjálmarsdóttir.