Kjarasamningar Viðræður um að hífa upp kjör fólks eru fram undan.
Kjarasamningar Viðræður um að hífa upp kjör fólks eru fram undan. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hörður Vilberg hordur@mbl.is „Ég horfi á þessa kjarasamninga sem risastórt verkefni,“ segir Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), um kjaraviðræðurnar sem eru fram undan í vetur. 120 samningar á almennum vinnumarkaði verða lausir þann 1. febrúar ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma. „Þetta tengist öllu því sem þarf til að halda úti heimili. Við erum að skoða heildina, annars vegar hvað við erum að fá í laun og hver útgjöldin eru.“

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

„Ég horfi á þessa kjarasamninga sem risastórt verkefni,“ segir Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), um kjaraviðræðurnar sem eru fram undan í vetur. 120 samningar á almennum vinnumarkaði verða lausir þann 1. febrúar ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma. „Þetta tengist öllu því sem þarf til að halda úti heimili. Við erum að skoða heildina, annars vegar hvað við erum að fá í laun og hver útgjöldin eru.“

En fleira kemur til. „Við erum að skoða samspil bótakerfa og skatta á mismunandi hópa. Þetta er það sem við erum að vinna í núna. Síðan munum við fljótlega fara að þrengja umræðuna um hvar við berum niður,“ segir Finnbjörn. Enn er því nokkuð í land að formlegar kröfugerðir verkalýðsfélaganna líti dagsins ljós.

Stefnan mörkuð

Miðstjórn ASÍ fundaði síðastliðinn miðvikudag þar sem komandi kjaraviðræður voru einkum til umræðu. „Við vorum að fara vítt og breitt yfir þetta. Það sem stóð upp úr varðandi málefni eru húsnæðismálin og hvernig er hægt að ná niður verðbólgu. Það er hlutur sem við erum með í skoðun.“

Kjaraviðræðum á Íslandi hefur hætt til að dragast úr hófi fram og ítrekað hefur það gerst að nýr kjarasamningur taki ekki við af eldri samningi. Á forseti ASÍ von á langri samningatörn fram undan? „Það fer að stórum hluta eftir viðsemjendum okkar,“ segir hann. „Við viljum klára þetta á sem skemmstum tíma. Þetta er verkefni sem þarf að klára. Það er algjör óþarfi að hanga yfir því ef menn sammælast um markmiðin.“

Ríkið komi að borðinu

Finnbjörn segir að margt þurfi að koma til svo að samningar náist. „Það þarf ákveðna víðsýni og það þarf að koma töluvert frá ríkisvaldinu.“ Hann undanskilur ekki sveitarfélögin sem hann telur að hafi mikilvægu hlutverki að gegna þó svo að þau standi misvel fjárhagslega. Hann kveður skýrt að orði um hvað þau þurfi að leggja til málanna. „Það eru bara tilbúnar lóðir.“

Alþýðusamband Íslands er stærsta fjöldahreyfing launafólks á landinu. Um tveir þriðju hlutar launamanna í skipulögðum samtökum á Íslandi eru aðilar að ASÍ. Félagsmenn í ASÍ eru 127 þúsund í fimm landssamböndum og 44 aðildarfélögum um land allt.

Til umræðu innan sambandsins nú er hvort aðildarfélögin komi sameinuð til leiks í komandi kjaraviðræðum eða hvort félögin semji hvert fyrir sig. „Það var mikið rætt á fundinum í gær en það er engin niðurstaða komin í það,“ segir forseti ASÍ.

Viðsemjendur ASÍ hjá Samtökum atvinnulífsins leggja sömuleiðis áherslu á að samningar verði kláraðir tímanlega. Mikilvægt sé að ná niður verðbólgunni og hátt vaxtastig sé atvinnulífinu erfitt ekki síður en heimilum landsins. Mikilvægt sé að aðilar vinnumarkaðarins stilli saman strengi.