Náttúran í Noregi er engri lík segir Svandís Fjóla.
Náttúran í Noregi er engri lík segir Svandís Fjóla.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við reynum að nýta tímann okkar vel og oft tökum við með okkur nesti eða prímus á virkum dögum og gerum kvöldmatinn úti, njótum og förum svo heim að hátta.“

Ég flutti til Noregs árið 2013 af algjörri hvatvísi með fyrrverandi kærasta, ég var í tímabundinni vinnu á Íslandi og hafði engu að tapa, mig langaði að prófa eitthvað nýtt og víkka sjóndeildarhringinn. Þetta var erfitt en varð að mesta gæfuspori lífs míns. Ég kynntist Hirti Halldórssyni manninum mínum seint 2015 hér í Stavanger, hann var búinn að vera hér síðan 2009. Okkur leið báðum svo vel hérna að það hefur aldrei verið í umræðunni að flytja aftur heim. Þó það sé draumur að eiga litla sæta íbúð miðsvæðis á Íslandi og jafnvel verja meiri tíma á Íslandi en við höfum gert seinustu ár,“ segir Svandís Fjóla um hvernig það kom að hún flutti til Noregs.

Svandís Fjóla segir Noreg æðislegt land og náttúran engri lík. „Ég var með einhverja hugmynd i höfðinu þegar ég flutti út um frekar grátt og dýrt land, en það var fljótt að breytast eftir að ég var lent. Í heimsfaraldrinum missti ég vinnuna og fór að ganga á fjöll og er ég oft mjög þakklát fyrir þann tíma, það kom mér af stað aftur í útivistina. Ég var alltaf í skátunum sem krakki en missti áhugann einhvers staðar á leiðinni en er sko aldeilis búin að finna útigleðina á ný. Náttúran gefur mér svo ótrúlega mikið, hún hjálpar mér að vinna með kvíða sem ég hef verið að glíma við lengi á einhvern ótrúlegan hátt. Fyrir mér er náttúran allra besta meðalið fyrir andlega heilsu.“

Mikilvægt að dóttirin kynnist náttúrunni

Fyrir tæpum sex árum breyttist lífið þegar dóttir þeirra Svandísar Fjólu og Hjartar, gullmolinn Hjördís Embla, kom í heiminn. „Líf mitt umturnaðist eftir að ég varð móðir, á góðan hátt. Ég fór í allsherjar sjálfskoðun og það hefur hjálpað mér mikið að finna út hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór og hvað ég vill fá út úr lífinu,“ segir Svandís sem er að klára jógakennara- og hugleiðslunám en starfar að mestu við verkefni tengd samfélagsmiðlum. Hún heldur einnig úti eigin Instagram-síðu, svandisfjola, þar sem hún sýnir frá lífinu í Noregi.

Svandís Fjóla hefur mikla trú á ágæti útiveru. „Ég er viss um að börn muni alltaf búa að því að eyða tíma í náttúrunni, ég er svo lánsöm að eiga foreldra sem drógu mig með sér í alls konar ævintýri innanlands og kunnu að nota náttúruna og er ég virkilega þakklát fyrir það í dag. Mér finnst mikilvægt að dóttir mín fái að upplifa það sama. Maður mun alltaf búa að því að kunna nota náttúruna á réttan hátt, róa taugakerfið og njóta.“

Fjölskyldan þarf ekki að fara langt til þess að lenda í ævintýrum. „Svæðið sem við búum á er fullkomið útivistarsvæði fyrir alla fjölskylduna, við höfum allar stærðir af fjöllum, ströndum og vötnum. Norðmenn elska að vera „ut på tur“ svo það er erfitt að hrífast ekki með. Mér finnst mikilvægt að dóttir mín komist í kynni við náttúruna og líður okkur hvergi betur. Ég sníð ferðirnar okkar alltaf að hennar getu og þroska hverju sinni. Mér finnst mikilvægt að fara ekki of geyst af stað og leyfa barninu svolítið að ráða ferðinni. Það er ekki alltaf toppurinn sem skiptir mestu máli heldur samveran.“

Borða stundum kvöldmatinn úti

Foreldrarnir Svandís Fjóla og Hjörtur búa fjarri fjölskyldunni og í stað þess að fá pössun fer Hjördís Embla með í flest sem þau gera og skapar fjölskyldan skemmtilegar minningar saman í leiðinni.

„Við keyptum lítinn flutningabíl sem við byggðum inn í fyrir nokkrum árum og höfum tekið nokkrar skemmtilegar ferðir á honum. Við elskum að ferðast um Noreg og heimsækja nýja staði. Við reynum að nýta tímann okkar vel og oft tökum við með okkur nesti eða prímus á virkum dögum og gerum kvöldmatinn úti, njótum og förum svo heim að hátta. Við höfum ekkert bakland svo það hefur bara þróast þannig að Hjördís kemur með mér í nánast allt sem ég geri, við bara látum það ganga upp og það hefur skapað svo frábærar minningar fyrir okkur öll. Það fer auðvitað mikið eftir árstíðum hvar áhuginn liggur og hvað við gerum, þegar dagurinn er styttri þá förum við mikið í til dæmis sund, á ströndina eða stuttan hjólatúr. Okkur finnst samveran aðallega skipta mestu máli.

Helgarnar reynum við svo að nýta extra vel og metum við það hverju sinni, það þarf ekki alltaf að vera allt eða ekkert. Að fara út í náttúruna á til dæmis kanó eða róðrabretti er okkar slökun og líður okkur aldrei betur en eftir góðan dag saman úti í rólegu umhverfi. Dóttir mín er algjört náttúrubarn og rífur til dæmis alltaf af sér skóna um leið og við komum á ströndina, börnin læra víst það sem fyrir þeim er haft og er það mjög mikilvægt fyrir mig að hún kynnist náttúrunni, læri að nota hana og bera virðingu fyrir henni. Eftir allt leikskóla og skóla amstrið þá er þetta mikilvægur partur að okkar lífi að komast í rólega náttúruna og hlaða batteríin,“ segir Svandís Fjóla.

Allir hafa aðgang

„Norðmenn eru snillingar í nýta náttúruna, menningin er kannski ekki mikið öðruvísi þannig séð nema þeir eru margfalt fleiri og er ferðafélagið þeirra, DNT, alveg hrikalega stórt og starfrækt um allan Noreg. Þeir leggja rosa metnað í stígagerð og gott aðgengi fyrir flesta, og það er auðveldur aðgangur að útivistabúnaði fyrir alla. Það eru allstaðar grill „hyttur“ sem eru opnar fyrir alla og kanóar við flest vötn til afnota. Þeir leggja mikið upp úr að allir hafi aðgang að útivist, alveg sama hvernig tekjur eða heimilisaðstæður líta út. Frilager er fyrirtæki sem ég hef verið í samstarfi við, þeir eru í samvinnu við ferðafélagið og fylkið Rogaland. Þeir leigja út búnað til einstaklinga, skóla og samtaka með það í huga að allir geti verið með. Ef þú hefur ekki efni á að leigja búnaðinn þá færðu hann ókeypis. Það finnst mér alveg frábært framtak en þekki ekki hvernig þetta er á Íslandi. Ég finn ekki fyrir þessu lífsgæðakapphlaupi hér í Noregi og hef aldrei fundið fyrir því sem er ósköp ljúft.“

Hvað eru þið spennt að gera saman í haust?

„Við erum ótrúlega spennt fyrir haustinu og getum ekki beðið eftir að sjá í hvaða ævintýrum við munum lenda. Við erum ekki mikið fyrir að plana langt fram í tímann, ævintýrin bara gerast,“ segir Svandís Fjóla að lokum.