Fjölskyldan á Dalvík ákvað að selja húsið og fara í bakpokaferðalag.
Fjölskyldan á Dalvík ákvað að selja húsið og fara í bakpokaferðalag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við höfum oft verið að grínast með það að selja bara kofann og fara bara eitthvað þar sem lífið væri aðeins rólegra. Eitt kvöldið vorum við að ræða hvað allt væri búið að hækka. Matarkarfan, leikskólagjöldin og lánin

Við höfum oft verið að grínast með það að selja bara kofann og fara bara eitthvað þar sem lífið væri aðeins rólegra. Eitt kvöldið vorum við að ræða hvað allt væri búið að hækka. Matarkarfan, leikskólagjöldin og lánin. Þá dæsti Þorri og sagði við mig: Æ, veistu, mig langar eiginlega bara að selja kofann og fara til Asíu. Ég sagði: Já, veistu, gerum það. Ég er til ef þú ert til,“ segir Hrefna Katrín um hvernig þau fengu hugmyndina.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Hrefna Katrín og Þorri, eins og Þorvaldur er ávallt kallaður, fara í langt ferðalag með lítinn farangur. Hrefna Katrín segir þó að það að fara í langt ferðalag með börnin hafi verið fjarlægur draumur. „Við höfum áður farið í bakpokaferðalag en þá vorum við bara tvö. Þegar við vorum búin að vera saman í tvo mánuði þá fórum við að leggja drög að tveggja mánaða ferðalagi um Evrópu. Við fórum í þá ferð átta mánuðum seinna og áttum eins árs sambandsafmæli í ferðinni. Við sögðum alltaf að ef sambandið myndi lifa af bakpokaferðlagið þá væri þetta samband komið til þess að vera.“

Sýna börnunum að lífið er ekki kassi

Þarf að undirbúa börn fyrir svona ferðalag á einhvern hátt?

„Það þarf klárlega að undirbúa þau. Við erum mikið að ræða flutningana og að við getum ekki tekið allt dótið með okkur. Að við séum að fara í burtu í langan tíma og munum ekki hitta vini og ættingja en við getum alltaf hringt myndsímtal og séð fólkið okkar þegar við söknum þess. Það er mikið verið að ræða flugferðir þessa dagana. Við eigum fyrir höndum rúmlega tíu tíma flug. Við reynum eftir bestu getu að fræða þau og tala opinskátt um allt saman. Allar tilfinningar eiga rétt á sér. Þetta verður örugglega mjög erfitt á tímum en það á líka eftir að vera ofboðslega gaman,“ segir Hrefna Katrín.

Hvað haldið þið að ferðalagið geti kennt börnunum ykkar?

„Ég vona að þetta sýni þeim og kenni að lífið sé ekki bara einn kassi, heldur er það alls konar,“ segir Hrefna Katrín sem segir að þau leggi af stað í ferðalagið með það að markmiði að upplifa ævintýri sem fjölskylda.

Skipuleggur maður heimsreisu öðruvísi þegar fjögurra manna fjölskylda fer á flakk en þegar kannski einn eða tveir fullorðnir fara?

„Já, ekki spurning. Öryggi og líðan barnanna er ávallt efst í huga.“

Hvert ætlið þið að fara?

„Stórt er spurt! Við byrjum á því að heimsækja ættingja og vini í Svíþjóð, en þar ætlum við bara dvelja í nokkra daga. Næst er haldið til Taílands þar sem við verðum í fjórar vikur. Í nóvember reiknum við með því að vera í Víetnam. Jólunum langar okkur að eyða í Taílandi. Meira er ekki ákveðið og í raun getur allt breyst. Við erum með nokkra áfangastaði í huga sem okkur langar að heimsækja. Balí, Kambódía, Japan, Ástralía bara svona til að nefna eitthvað.“

Spennandi að komast úr rútínu

Finnst ykkur heillandi að komast úr kapphlaupi hversdagsins?

„Já, það er nú aðalatriðið! Að komast úr rútínu. Í meiri afslöppun og ævintýri. Að geta átt þennan tíma með börnunum áður en grunnskólinn byrjar.“

Hvernig fjármagnar maður svona ferðalag?

„Við ákváðum að selja húsið og við munum einnig losa okkur við eitthvað af dótinu okkar. Það sem við ætlum að eiga fer í geymslu. Við reiknum alveg eins með því að selja bílinn en við höfum ekki tekið endanlega ákvörðun með hann.“

Hvernig tilfinning er það að selja ofan af sér og kveðja æskuheimili barnanna?

„Í fyrstu voru þetta pínu blendnar tilfinningar en við erum öll tilbúin fyrir næsta kafla. Það hafa allir gott af breytingum.“

Hver voru viðbrögð fólksins í kringum ykkur?

„Heilt yfir hafa verið góð og skemmtileg viðbrögð en það er alltaf einn og einn sem finnst þetta vera algjör þvæla og skilja ekkert í því af hverju við ætlum að fara í svona mikið ferðalag með svona lítil börn. Að þau eigi ekki eftir að muna eftir ferðalaginu.

En að fara ekki í ferðalag með barnið þitt vegna þess að það eigi ekki eftir að muna eftir því er líkt og að lesa ekki bók fyrir það, því það á ekki eftir að muna eftir sögunni.“

Hvað ætlið þið að vera lengi?

„Við stefnum á að koma aftur til Íslands haustið 2024, þá byrjar Baldvin Karl í grunnskóla.“

Hægt er að fylgjast með ævintýrum fjölskyldunnar á Instagram-reikningnum Flakkariprakkari.

Höf.: Guðrún Selma Sigurjónsdóttir |