Aðalsteinn Baldursson
Aðalsteinn Baldursson
Aðalsteinn Baldursson, formaður verkalýðsfélagsins Framsýnar á Húsavík, tekur ekki vel í það að flugfélagið Ernir íhugi að hætta áætlunarflugi sínu milli Húsavíkur og Reykjavíkur um næstu mánaðamót. Ernir hefur haldið úti flugi frá Húsavík frá árinu 2012 en nú eru blikur á lofti hvað það varðar

Aðalsteinn Baldursson, formaður verkalýðsfélagsins Framsýnar á Húsavík, tekur ekki vel í það að flugfélagið Ernir íhugi að hætta áætlunarflugi sínu milli Húsavíkur og Reykjavíkur um næstu mánaðamót. Ernir hefur haldið úti flugi frá Húsavík frá árinu 2012 en nú eru blikur á lofti hvað það varðar.

Aðalsteinn segist vel skynja ótta og áhyggjur sveitunga sinna og segir að mikill skjálfti sé í samfélaginu fyrir norðan vegna þessa máls.

„Sá orðrómur er uppi um að flugfélagið Ernir sé að hætta flugi til Húsavíkur og síminn hefur vart stoppað hjá mér eftir að þetta spurðist út. Við hjá verkalýðsfélaginu Framsýn höfum haft frumkvæði að því að vinna með Erni og stjórnendum þess á hverjum tíma, að láta þetta flug ganga og höfum allt frá upphafi komið að þessu og erum enn að,” sagði verkalýðsleiðtoginn í samtali við Morgunblaðið.

Fulltrúar Norðurþings og Framsýnar munu funda með fulltrúum Ernis eftir helgi til að ræða framtíð áætlunarflugsins. Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar, sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem fram kemur að sveitarfélagið hafi fundað reglulega um málefni Húsavíkurflugvallar og áætlunarflugið. Mikilvægt sé að halda uppi reglulegu áætlunarflugi til Húsavíkur fyrir heimafólk og atvinnulíf. „Það ríkir fákeppni í innanlandsflugi og eru leiðir innanlands styrktar með ríkisframlagi. Það gildir ekki um Húsavík,“ segir í tilkynningu Hjálmars. gummih@mbl.is