Jóhannes Sævar Ársælsson fæddist í Keflavík 23. ágúst 1958. Hann lést á heimili sínu í Vogum á Vatnsleysuströnd 26. ágúst 2023.

Foreldrar hans voru Ársæll Jóhannes Jónsson, f. 3. október 1928, d. 26. mars 2017, og Katrín Guðmundsdóttir, f. 29. desember 1925, d. 29. apríl 2020. Alsystkin Jóhannesar Sævars eru: 1) Jón Rúnar, f. 4. október 1954. 2) Óskar Ágúst, f. 25. júní 1956. Börn hans eru: a) Björg Rún, f. 14. október 1979, gift Tryggva Ingólfssyni, f. 2. júní 1981. Sonur þeirra er Óskar, f. 24. júní 2015. b) Katrín Ósk, f. 14. október 1979, gift Viðari Steini Árnasyni, f. 17. maí 1976. Dætur þeirra eru Elísabet Ósk, f. 20. nóvember 2009, og Rebekka Sigrún, f. 8. desember 2015. c) Ársæll Páll, f. 31. ágúst 1990, giftur Salóme Guðmundsdóttur, 21. október 1983. Börn þeirra eru Benjamín, f. 23. júlí 2018, og Katrín, f. 15. júní 2021. 3) Sigurgeir Kári, f. 23. ágúst 1958, giftur Kristínu Magnúsdóttur, f. 4. desember 1960. Synir þeirra eru Theodór, f. 5. febrúar 1997, og Kári, f. 5. febrúar 1997. Kristín átti áður Magnús Stefánsson, f. 20. ágúst 1988.

Sammæðra systkin Jóhannesar Sævars eru: 1) Ólafur Pétur Pétursson, f. 12. júlí 1952. Dóttir hans er Kristín Eva Ólafsdóttir, f. 1. desember 1991, gift Kristni Frey Sigurðssyni, f. 21. desember 1991. Börn þeirra eru Heiða Karen, f. 16. júlí 2016, og Aron Freyr, f. 7. júní 2020. 2) Guðmunda Ásdís Guðbjörnsdóttir, f. 28. maí 1949, gift Peter Vita sr., f. 29. september 1949. Börn þeirra eru: Soley, f. 27. janúar 1981, gift Louis Zeppetelli, f. 5. maí 1977, og eiga þau Boden, f. 8. nóvember 2015, og Adelynn, f. 27. janúar 2019, og Peter jr., f. 2. nóvember 1983, giftur Jennifer Vita, f. 29. ágúst 1985, og eiga þau Sofiu, f. 29. ágúst 2020.

Jóhannes bjó lengst af í Keflavík og starfaði í 30 ár hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Eftir það fluttist hann í bæinn og bjó lengi vel í Garðabæ og vann ýmis verslunarstörf, þ.á m. í Hagkaup, Víði og nú síðast í Krónunni í Hafnarfirði. Síðustu fimm ár bjó Jóhannes í Vogum á Vatnsleysuströnd með bræðrum sínum, Jóni Rúnari og Óskari, þar sem hann unni sér vel. Hann var mikill stuðningsmaður Manchester United og fór reglulega utan til að horfa á fótboltaleiki.

Útför Jóhannesar Sævars fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 8. september 2023, og hefst athöfnin klukkan 13.

Ég sit hér bugaður af sorg og reyni að setja nokkur orð á blað til minningar um hann Jóa bróður minn. Tárin streyma fram eins og í vatnavöxtum á vorin. Jói, sem nýorðinn var 65 ára, hefur nú kvatt þessa jarðvist og er farinn í sumarlandið. Jói var gull af manni og hvers manns hugljúfi. Hann var hrókur alls fagnaðar og var alls staðar vel liðinn. Við bræður vorum nýkomnir heim frá Dublin en Jói vildi alltaf vera í útlöndum á afmælinu sínu hinn 23. ágúst og fékk ég iðulega að fara með. Við höfum heimsótt Kaupmannahöfn, Berlín, New York, London og Manchester en þangað höfum við farið þrisvar sinnum enda báðir miklir áhugamenn um fótbolta. Við höfum einnig farið á nokkra tónleika, við sáum Eric Clapton í Royal Albert Hall og Paul McCartney í London og voru þetta ógleymanlegar ferðir. Bítlaferð til Liverpool var á dagskrá í vor og mögulega ferð til Tenerife í vetur. Elsku Jói bróðir, þín verður sárt saknað. Hvíl í friði.

Jón R. Ársælsson.

Elskulegi bróðir minn er farinn frá okkur, með stuttum fyrirvara og allt of snemma. Jói var nýhættur að vinna og ætlaði að gera ýmislegt í framtíðinni. Hann langaði að ferðast meira, fara í bíó, í sund og var farinn að íhuga að spila golf. Ferðalög voru honum ofarlega í huga og vorum við í sumar að skoða ferð til Lúxemborgar til að heimsækja Katrínu dóttur mína og fjölskyldu hennar og í leiðinni sjá landsleikinn Lúxemborg – Ísland í fótbolta sem er í kvöld en vegna veikinda minna þurftum við að hætta við. Jói og Nonni fóru til Dublin í ágúst og héldu þar upp á 65 ára afmælið hans Jóa og komu heim daginn fyrir þennan örlagaríka dag, daginn sem hann kvaddi þennan heim. Nonni var duglegur að ferðast með Jóa og fóru þeir líka reglulega saman í veiðiferðir, í bíó og margt fleira. Nonni var hans stoð og stytta eftir að foreldrar okkar féllu frá og verð ég honum ævinlega þakklátur fyrir. Jói var einstakur að öllu leyti, honum þótti vænt um alla og spurði oft hvernig öllum vegnaði í lífinu. Hann var algjört ljúfmenni, vildi öllum vel og gerði aldrei flugu mein. Það var mikil gleði hjá honum Jóa þegar Björg Rún dóttir mín gaf honum kisuna Móu og hugsaði Jói einstaklega vel um þennan kött. Honum fannst gaman að dekra við köttinn, keypti góðan mat handa henni og alls konar kisuleikföng. Jói verður jarðsettur við hliðina á foreldrum okkar í Hafnarfjarðarkirkjugarði og þá finnst mér að hann sé kominn heim og fái að hvíla í friði. Guð blessi þig Jói minn.

Óskar Á. Ársælsson.

Elsku Jói bróðir minn, þú varst allra bestur.

Ég trúi ekki enn að þú sért farinn. Brosið, gleðin og blíðan þín mun lifa að eilífu í hjarta mínu og hjarta Peters, Sóleyjar og Peters.

Þú varst í miklu uppáhaldi hjá þeim líka og þau munu sakna þín mikið.

Blessuð sé minning þín, elsku bróðir minn. Við elskum og söknum þín mikið.

Guð blessi og passi þig.

Guðmunda og Peter Vita,
Sóley og fjölskylda, Peter Vita jr. og fjölskylda.

Elsku Jói frændi.

Nýhættur að vinna, nýkominn frá Dublin og nýbúinn að fagna afmæli þínu kveður þú þennan heim á einu augnabliki. En nú ert þú kominn til ömmu og afa og þar er best að vera.

Þú varst dásamlegur maður. Þú varst alltaf brosandi og þinn einstaki hlátur smitaði alla sem nærri þér voru. Þú hafðir líka svo góða nærveru, varst jákvæður og geðgóður svo um var talað. Þú tókst alltaf vel á móti okkur þegar við komum í heimsókn og hafðir ánægju af að spjalla um málefni líðandi stundar, hvort sem um ræðir stjórnmálin, fótbolta, tónlist, ferðalög eða kvikmyndirnar í bíóhúsum landsins. Þú kvartaðir aldrei, hvorki undan vinnunni þinni, matnum sem þú snæddir eða hávaðanum í okkur systkinum. Þú varst uppáhaldsfrændinn okkar og þín verður sárt saknað.

Takk elsku Jói fyrir öll gleðilegu augnablikin. Minning þín er ljós í lífi okkar allra. Hvíldu í friði.

Björg Rún og Katrín Ósk.