Stríð Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, skoðaði í gær skóla í Jahidne sem Rússar gerðu að fangelsi áður en þorpið var frelsað.
Stríð Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, skoðaði í gær skóla í Jahidne sem Rússar gerðu að fangelsi áður en þorpið var frelsað. — AFP/Brendan Smialowski
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði í gær að Úkraínumenn væru hægt og bítandi að vinna á í gagnsókn sinni

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði í gær að Úkraínumenn væru hægt og bítandi að vinna á í gagnsókn sinni. „Þetta eru þungir og erfiðir bardagar, en þeir hafa náð í gegnum varnarlínur rússneska hersins og þeir eru að sækja fram á við,“ sagði Stoltenberg er hann ávarpaði utanríkismálanefnd Evrópuþingsins í gær.

Sagði Stoltenberg að árangur Úkraínumanna sannaði hversu mikilvægur stuðningur vesturveldanna hefði verið, sem og getu og vilja þeirra til þess að halda þeim stuðningi áfram. Benti Stoltenberg á að Úkraínumenn hefðu þurft að sækja fram þrátt fyrir að Rússar hefðu lagt fjöldann allan af jarðsprengjum við víglínuna.

„En Úkraínumenn ákváðu að hefja sóknina því að þeir ætla að frelsa land sitt og þeir eru að ná árangri. Kannski ekki eins miklum og við vonuðumst eftir, en þeir eru að sækja fram hægt og bítandi, um 100 metra á dag,“ sagði Stoltenberg, sem varaði við því að átökum fylgdu bæði sigrar og ósigrar. „Það verða slæmir dagar og góðir dagar. Við þurfum að styðja Úkraínu ekki bara þegar vel gengur, heldur einnig þegar illa fer,“ sagði Stoltenberg.

Stoltenberg ræddi einnig eldflaugaárásir Rússa á hafnarborgir Úkraínumanna við Dóná, en áin markar landamæri Úkraínu að Rúmeníu, sem er aðili að Atlantshafsbandalaginu.

Rúmensk yfirvöld viðurkenndu í fyrradag að brak úr rússneskum sjálfseyðingardróna hefði lent innan Rúmeníu, en Stoltenberg sagði að þess væru engin merki að Rússar hefðu ætlað sér að ráðast á NATO-ríki. Atvikið sýndi hins vegar hættuna á árekstrum og slysum sem hefði skapast vegna innrásar Rússa.

Drónaárásir á báða bóga

Rússar gerðu aftur drónaárás á hafnarborgina Ismaíl við Dóná í gærmorgun, en þetta er í fjórða sinn á síðustu fimm dögum sem Rússar ráðast á borgina. Oleg Kiper, héraðsstjóri í Ódessa-héraði, sagði að árásin hefði valdið skemmdum á korngeymslum og öðrum innviðum sem tengdust kornútflutningi Úkraínu.

Stóð drónaárásin yfir í um þrjá klukkutíma að sögn Kipers, en loftvarnir Úkraínu sögðust hafa náð að skjóta niður 25 af þeim 33 drónum sem Rússar sendu á loft.

Úkraínumenn gerðu sínar eigin drónaárásir á Rússland í fyrrinótt og gærmorgun. Réðust þeir meðal annars að borginni Rostov við Don-ána, en þar eru höfuðstöðvar suðurherja Rússa til staðar, en þaðan hafa Rússar lagt á ráðin um margar af aðgerðum sínum í Úkraínu.

Sögðust Rússar í gær hafa skotið niður tvo dróna í og við borgina og lenti annar þeirra á akri utan borgarmarkanna, en hinn skall á byggingu einungis um 50 metrum frá höfuðstöðvunum. Olli sprengingin miklum skemmdum á nálægum bifreiðum, auk þess sem rúður brotnuðu í að minnsta kosti þremur byggingum í næsta nágrenni.

Rostov hefur hingað til ekki þurft að þola miklar árásir vegna átakanna í Úkraínu, þrátt fyrir að borgin sé einungis um 80 km frá landamærum Rússlands og Úkraínu. Valerí Golubev, héraðsstjóri Rostov, sagði að einn hefði særst í árásinni í gær, en sá hefði neitað því að vera fluttur á sjúkrahús. Golubev fyrirskipaði brottflutning íbúa úr nálægum húsum í gær á meðan skaðinn af árásinni væri metinn. Þá var neyðarástandi lýst yfir í borginni.

Úkraínumenn gerðu einnig drónaárásir á Moskvu og í Bríansk-héraði, en Rússar sögðust hafa náð að skjóta þá dróna niður.

Fordæma áform um rýrt úran

Dmitrí Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, fordæmdi í gær áform Bandaríkjastjórnar um að senda skotfæri gerð úr rýrðu úrani til Úkraínu, en þau eru einkum notuð til þess að granda skriðdrekum.

Skotfærin eru umdeild, þar sem ásakanir hafa borist um að þau geti valdið aukningu á tíðni krabbameins og fæðingargalla þar sem þeim er beitt. Engin rannsókn hefur hins vegar getað staðfest að þær ásakanir eigi við rök að styðjast. Peskov sagði þrátt fyrir það að krabbameinssjúklingum myndi snarfjölga þar sem skotfærunum yrði beitt, og sagði að ábyrgðin á því myndi vera á herðum Bandaríkjanna.

Áður höfðu Bretar tilkynnt að þeir hygðust senda slík skotfæri til Úkraínu, og vakti það svipuð viðbrögð frá stjórnvöldum í Moskvu. Sögðu bresk stjórnvöld þá að Rússar væru viljandi að dreifa röngum upplýsingum um rýrt úran og áhættuna af því.

Þá gagnrýndi Peskov einnig ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að afhenda Úkraínu um 5,4 milljónir bandaríkjadala, eða sem nemur tæpum 725 milljónum íslenskra króna, en upphæðin er dregin af eigum rússneskra ólígarka, sem Bandaríkjastjórn hefur fryst.

Sagði Peskov að rússnesk stjórnvöld litu á öll mál sem sneru að því að gera eigur Rússa upptækar, hvort sem um væri að ræða eigur ríkisins eða rússneskra einstaklinga, sem ólögmæt. „Á einn hátt eða annan munu þau leiða til málaferla,“ sagði Peskov í gær.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson