Tap Kópavogsbæjar af rekstri A- og B-hluta bæjarins nam um 1,4 milljörðum króna á fyrri helmingi þessa árs, sem eru rúmlega 650 milljónir króna umfram áætlun bæjarins. Í tilkynningu frá bænum kemur fram að tap umfram áætlun megi rekja til óhagstæðrar vaxta- og verðbólguþróunar

Tap Kópavogsbæjar af rekstri A- og B-hluta bæjarins nam um 1,4 milljörðum króna á fyrri helmingi þessa árs, sem eru rúmlega 650 milljónir króna umfram áætlun bæjarins. Í tilkynningu frá bænum kemur fram að tap umfram áætlun megi rekja til óhagstæðrar vaxta- og verðbólguþróunar.

Skatttekjur bæjarsins námu 17,6 milljörðum króna, um hálfum milljarði umfram áætlun. Heildartekjur bæjarsins, þ.e. A-hluta, voru tæplega 23 milljarðar króna, sem nemur einnig hálfum milljarði umfram áætlun. Rekstrargjöld námu tæplega 22 milljörðum króna, eða um 550 milljónum króna umfram áætlun. Launakostnaður bæjarins nam um 13,1 milljarði króna, sem er um 200 milljónir króna umfram áætlun.

Rekstrarafkoma A- og B-hluta var jákvæð um 591 milljón króna, eða um 60 milljónir króna umfram áætlun. Fjármagnskostnaður bæjarins nam þó tæpum tveimur milljörðum króna, sem er um 700 milljónir umfram áætlun. Heildarskuldir samstæðunnar hafa hækkað um 773 milljónir króna frá áramótum, en þar af nema verðbætur rúmlega 600 milljónum króna.

Rekstrarniðurstaða A-hluta fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 130 milljónir króna í lok tímabilsins, sem er um 50 milljónir króna undir áætlun.

Handbært fé í lok júní nam um 786 milljónum króna.