Fundur Steinn Örvar Bjarnason og Stefán Einar Stefánsson ræddu um ýmislegt tengt gervigreind á fundinum.
Fundur Steinn Örvar Bjarnason og Stefán Einar Stefánsson ræddu um ýmislegt tengt gervigreind á fundinum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gervigreind hefur þróast mikið og hratt á undanförnum misserum. Unnt er að nýta þessa tækni í ýmsum tilgangi og getur hún gagnast fyrirtækjum sem og einstaklingum á margvíslegan hátt. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Steins Örvars…

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Gervigreind hefur þróast mikið og hratt á undanförnum misserum. Unnt er að nýta þessa tækni í ýmsum tilgangi og getur hún gagnast fyrirtækjum sem og einstaklingum á margvíslegan hátt.

Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Steins Örvars Bjarnasonar, sérfræðings hjá Advania, en hann hélt erindi um gervigreind á morgunverðarfundi Kompanís, viðskiptaklúbbs Morgunblaðsins, í gær.

Það gerðist frekar nýlega að gervigreind varð aðgengileg almenningi og í máli Steinars kom fram að möguleikarnir sem fælust í gervigreind væru endalausir. Hægt er að nýta ChatGPT til að vinna texta, búa til gögn og handrit og fá tölvustýrða rödd til að útskýra hluti fyrir þér. Þá er hægt að setja tónlistarbrot inn í forritið sem síðan færir það í nýjan búning. Sjónvinnsla og gervigreind nýtur einnig mikilla vinsælda en hægt er að setja inn mynd í forritið og láta það setja fram myndina á annan hátt eða fengið lýsingu á hvað sé í gangi á myndinni.

„Það sem er svo frábært við gervigreind og aðgengi almennings að henni er að það er búið að lýðræðisvæða tæknina. Almenningur þarf ekki að hafa neina þekkingu á tækni eða forritun til að geta nýtt sér hana,“ sagði Steinar.

Gervigreindarforrit á borð við ChatGPT eru langt frá því að vera fullkomin. Þróun gervigreindar hefur bæði sínar jákvæðu og neikvæðu hliðar. Spurður á fundinum hvort hann hefði trú á því að gervigreindin muni gera heiminn að betri stað sagði Steinar það undir okkur sjálfum komið.

„Í hvert skipti sem þú gerir eitthvað þá getur þú ekki séð fyrir hverjar niðurstöðurnar verða. Margar uppfinningar eiga sér góðar og slæmar hliðar. Tökum eld sem dæmi en hann er bæði hægt að nota í góðum og slæmum tilgangi og það sama á við um gervigreind. Þetta snýst allt um hvað við ákveðum að gera við hana.“