Keldnaland Búist er við að Keldnalandið reynist verðmætara en talið var.
Keldnaland Búist er við að Keldnalandið reynist verðmætara en talið var. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Það lá fyrir að kostnaðaráætlanir samgöngusáttmálans væru ekki byggðar á traustum grunni, ég benti á það strax í upphafi árs,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs í samtali við Morgunblaðið, en hún var spurð hvernig hún brygðist við upplýsingum um stórfellt vanmat kostnaðaráætlunar samgöngusáttmálans.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Það lá fyrir að kostnaðaráætlanir samgöngusáttmálans væru ekki byggðar á traustum grunni, ég benti á það strax í upphafi árs,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs í samtali við Morgunblaðið, en hún var spurð hvernig hún brygðist við upplýsingum um stórfellt vanmat kostnaðaráætlunar samgöngusáttmálans.

Sagðist hún hafa viljað að ráðist yrði í endurskoðun kostnaðaráætlunarinnar, enda þyrfti að byggja áætlanir á traustum grunni þannig að tryggt væri að hagkvæmustu leiðir yrðu farnar.

„Verkefnið fram undan er að finna út úr því hvernig við ætlum að forgangsraða verkefnum á komandi árum og hvað er raunhæft í þeim efnum. Það blasir við að eitthvað þarf að gera. Það þarf að efla almenningssamgöngur, leysa úr umferðarþunganum sem hefur farið vaxandi ár frá ári. Endurskoðun sáttmálans stendur yfir og ég bind vonir við að við fáum að sjá niðurstöðu á næstu vikum,“ segir Ásdís.

Ábyrgt að huga að lausnum

Spurð hvort grundvöllur sáttmálans sé brostinn, í ljósi mun hærri kostnaðar en lagt var upp með, svarar Ásdís þannig að þegar hún hafi tekið við starfi bæjarstjóra hafi henni virst áætlanirnar ekki vera trúverðugar og því hafi hún kallað eftir endurskoðun áætlana sem snúa að sáttmálanum og fjárfestingu í stofnvegum.

„Það er á ábyrgð okkar sem að verkefninu stöndum að huga að lausnum. Auðvitað er óábyrgt að halda blint áfram með verkefnið vitandi að kostnaður er margfalt á við það sem upphaflega var lagt upp með. Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að sveitarfélög byggja á því að þessar framkvæmdir sem eru nær í tíma muni raungerast og skipulag gengur út frá því, ég nefni Fossvogsbrú í því samhengi. Það er óábyrgt að ganga frá verkefninu og gera ekkert. Mikil og aðkallandi þörf er á að leysa úr þeim umferðarþunga sem við upplifum dag frá degi á höfuðborgarsvæðinu.

Ég held að við séum öll sammála um einmitt það að við viljum ekki vera föst í þessari umferð, en við erum ósammála um hvaða leiðir skal fara til að leysa málið. Forgangsverkefnið nú er að finna hagkvæma, ábyrga og raunhæfa leið til að efla almenningssamgöngur og stuðla að fjölbreyttari valkostum fyrir alla, hvort sem er akandi, hjólandi eða gangandi. Íbúar svæðisins þurfa fleiri valkosti, þannig að tryggt verði að hér séu skilvirkar samgöngur fyrir alla,“ segir Ásdís.

Stjórnmálamenn ákveði framhald

„Það er í sjálfu sér ekkert nýtt í þessu. Það var ákveðið í mars að hefja vinnu við að uppfæra sáttmálann og skipuðu ríkið og sveitarfélögin viðræðuhóp sem hefur hefur verið að störfum síðan. Við höfum matað hann á heilmiklum upplýsingum, m.a. þessum tölum sem fjármálaráðherra nefnir, en það er stjórnmálamannanna að taka ákvörðun um áframhaldið,“ segir Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, spurður um mikinn kostnaðarauka við verkefni samgöngusáttmálans.

Davíð bendir á að fyrir liggi að Keldnalandið muni skila meiri verðmætum en gert hafi verið ráð fyrir, en það byggingarland var m.a. framlag ríkisins til verkefnisins og gæti brúað bilið að einhverju leyti. Það sem upp á vanti mætti t.d. brúa með því að fresta framkvæmdum eða hætta við tilteknar framkvæmdir, en það sé stjórnmálamannanna að ákveða hvað gera skuli í því.