Emilía Ósk Guðjónsdóttir fæddist í Reykjavík 3. mars 1935. Hún lést 23. ágúst 2023 á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Foreldrar hennar voru Guð­jón Ólaf­ur Guð­mundsson húsgagnasmíðameistari, f. 1908 í Bolungarvík, d. 1987, og Laufey Sæmundsdóttir húsmóðir, fædd 1908 í Reykjavík, d. 1991. Systkini hennar eru Emilía Ósk f. 1930, d. 1935, Jóhanna S., f. 1934, d. 1941, Hilmar Logi f. 1937, d. 2022, Guðmundur Hafsteinn, f. 1942, d. 1951, Guðlaugur Elís, f. 1948, d. 2004, Rúnar, f. 1946, og Elín, f. 1953, d. 1958.

Eiginmaður Emilíu var Ögmundur Guðmundsson, framkvæmdastjóri og innheimtufulltrúi Keflavíkurbæjar, f. 1. mars 1928, d. 10. febrúar 1990. Foreldrar hans voru Guðmundur Ögmundsson bóndi, f. 1896, d. 1960, og Sigríður Bjarnadóttir húsmóðir, f. 1891, d. 1975.

Börn Emilíu og Ögmundar eru: 1) Kolbrún, f. 1957, gift Jóni Þóri Eyjólfssyni, f. 1956. Börn þeirra eru: a) Eyjólfur Örn, kvæntur Hjördísi Ingu Guðmundsdóttur og eiga þau þrjú börn. b) Emil Örvar. Unnusta hans er Kristrún Huld Sigurðardóttir. Hann á einn son, móðir hans er Theódóra Mjöll Skúladóttir Jack. c) Berglind Ösp, gift Helga Bjarti Þorvarðarsyni. Þau eiga fjögur börn. 2) Guðm. Hafsteinn, f. 1958, kvæntur Svanhildi Erlu Benediktsdóttur, f. 1954, d. 2010. Dóttir þeirra er a) Emilía, gift Sigurði Sævarssyni og eiga þau tvo syni. Stjúpdætur Hafsteins eru Anna Margrét, Agnes og Silvía. Unnusta Hafsteins er Sigurbjörg Guðmundsdóttir. 3) Auður Elín, f. 1959, gift Ívari Sigurbergssyni, f. 1963. Sonur þeirra er Birgir. 4) Sigrún, f. 1961, gift Ásgeiri Stefáni Sigurðssyni, f. 1966. Dætur þeirra eru a) Svandís Anna, b) Fanný Hrund, hún á tvö börn, og c) Arna Sif. 5) Ögmundur Máni, f. 1965, kvæntur Petrínu Mjöll Jóhannesdóttur, f. 1966. Börn þeirra eru a) Elísabet Ósk, unnusti hennar er Hjalti Unnar Ágústsson, b) Eva Ásdís, unnusti hennar er Jökull Starri Hjaltalín, c) Ögmundur Ísak, kvæntur Örnu Ýri Karelsdóttur, þau eiga tvö börn. d) Ester Inga, unnusti hennar er Pálmi Albert Pálmason.

Sambýlismaður Emilíu til fjölda ára var Árni Þ. Þorgrímsson, f. 1931, d. 2019.

Emilía ólst upp í Reykjavík og gekk þar í skóla. Hún útskrifaðist frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1957 og fluttist til Keflavíkur ásamt eiginmanni sínum sem hún giftist 19. október 1957. Þar starfaði hún fyrst við heimahjúkrun og síðar við Sjúkrahús Keflavíkur bæði sem deildarstjóri og yfirhjúkrunarkona. Þegar hún lét af störfum árið 1994 fluttist hún til Reykjavíkur og bjó þar til æviloka. Snemma kynntist hún starfi KFUM og KFUK og Kristniboðssambandsins og vann ötullega að framgangi þess starfs á Suðurnesjum. Hún varð frumkvöðull að því að fest væru kaup á húsnæði undir starfsemi KFUM og KFUK í Keflavík ásamt eiginmanni sínum og hélt utan um blómlegt æskulýðsstarf á vegum félaganna í fjöldamörg ár. Hún var gerð að heiðursfélaga KFUM og KFUK árið 2009. Hún var einnig félagi í Kristniboðsfélagi Keflavíkur og Kristniboðsfélagi kvenna til æviloka og bar kristniboðsstarfið alla tíð mjög fyrir brjósti.

Útför Emilíu Óskar fer fram í Seljakirkju í dag, 8. september 2023, klukkan 14.

Mamma var alger nagli og harðjaxl sem þurfti oft í lífi sínu að berjast gegn mótbyr af ýmsu tagi. Á unga aldri missti hún fjögur systkini og foreldrarnir skildu. Pabbi féll svo frá í blóma lífsins og mamma varð ekkja 54 ára. Þetta er víst ekki alveg uppskriftin að þægilegu og áhyggjulausu lífi en þrátt fyrir þessar hremmingar á lífsleiðinni var líf mömmu gjöfult og árangursríkt.

Mamma kynntist pabba, þessum hægláta og hugulsama sveitakarli, ung að árum og áttu þau fimm börn, fjögur í einum rykk og svo eitt dekurbarn í lokin. Mömmu man ég mest eftir vinnandi sem yfirhjúkrunarkona í Keflavík. Svo var hún alltaf að þvo, skúra, elda og ýmislegt annað sem fylgdi stóru heimili. Hún notaði svo kvöldin til að stoppa í sokka, gera við buxur og sauma föt frá grunni. Heimilinu hélt hún ætíð fínu og fékk okkur til að hjálpa sér við laugardagshreingerningarnar. Svo var verðlaunað með sjónvarpskökubakstri.

Mamma og pabbi voru dugleg að bralla margt og fóru í fjölda ferðalaga. Hringvegsferð 1974 er mér mjög minnisstæð, þar sem keyrt var um á VW-bjöllu með toppgrind og fimm krakka aftur í og ávallt gist í tjaldi. Vatnaskógarferðirnar sem voru margar með foreldrum mínum eru einnig eftirminnilegar. Við áttum góða tíma saman í tjaldi og í frábæru umhverfi. Utanlandsferðirnar eru einnig ógleymanlegar þar sem við heimsóttum ættingja í Svíþjóð og Noregi ásamt sólarlandaferðum til Ítalíu og sitja vel í minni sem frábærar ferðir og ævintýralegar.

Mamma og pabbi voru harðdugleg til vinnu og nutum við systkinin afraksturs þess í stuðningi til náms og annars sem máli skipti. Ég fékk t.d. alltaf Levi's-buxur úr Reykjavik því það voru að hennar sögn einu buxurnar sem pössuðu á guttann.

Mamma var trúuð kona og kom það henni vel í öllum þeim áföllum sem hún glímdi við. Hún stofnaði ásamt öðrum konum Kristniboðsfélag kvenna í Keflavík og svo tók hún KFUM- og K-starfið á sínar herðar með hjálp góðra manna og kvenna. Þar nýttist orka og kraftur mömmu vel til verka.

Þegar formlegri vinnuævi mömmu lauk fluttist hún í Reykjavík og hjálpaði okkur systkinunum með því að passa barnabörnin og skutla um allan bæinn. Bústaðaferðir voru einnig óteljandi og þá með jafnvel 3-4 börn í farteskinu þar sem sundferðir og lúpínutínslu bar hæst.

Eftir að pabbi dó tóku við önnur áhugamál, t.d. fjallgöngur og hjólaferðir vítt og breitt um landið, þvert og endilangt. Já, jaxlinn hún mamma var engum lík. Svo kom Árni til sögunnar og fóru þau saman í styttri göngur og hjólatúra og flottar utanlandsferðir þess á milli.

Mömmu á ég margt að þakka. Hún sýndi ekki oft tilfinningar en ást og umhyggju sýndi hún með aðstoð og framkvæmdum. Hún mætti t.d. nær daglega þegar ég gerði upp Langagerðið, framkvæmdir sem stóðu yfir í þrjá mánuði. Hún sópaði og „ráðlagði“ og sá um að vinnumenn hefðu mat og kaffi, kraftakerling þar á ferð. En eins og í mínu starfi þá brotna og gefa sig hinir bestu jaxlar og það átti einnig við um mömmu. Harðjaxlsins hennar mömmu verður sárt saknað. Takk fyrir allt elsku mamma.

Ögmundur Máni Ögmundsson.

Okkur í fjölskyldunni í Kópalind langar að minnast Emilíu Óskar, mömmu, tengdamömmu og ömmu.

Mamma mín var engum lík. Þegar maður horfir til baka veltir maður fyrir sér hvaðan öll þessi orka og dugnaður kom. Mamma og pabbi voru alltaf til staðar fyrir okkur börnin fimm og lögðu þann grunn sem ég hef byggt líf mitt á. Þau kenndu mér heiðarleika, að orð skulu standa og ég vissi að ég gæti alltaf treyst á þau í stóru sem smáu.

Mamma var með stórt heimili en vann á sama tíma sem hjúkrunarfræðingur og sá um allt starf KFUM og K í Keflavík. Hún keypti hús undir starfið og gerði það upp með hjálp góðra manna og kvenna. Ekkert af þessu hefði hún getað nema með dyggum stuðningi pabba sem stóð vaktina á heimilinu þegar hún var ekki til staðar.

Mamma varð ekkja 55 ára en pabbi dó langt um aldur fram. Mamma, sem hafði fram að þessu verið ótrúlega dugleg, þurfti nú að horfast í augu við að þurfa að halda áfram með líf sitt og það gerði hún af sama krafti og dugnaði.

Mamma átti sinn sælureit í Grafningnum en þar höfðu þau pabbi keypt sér sumarbústað 1980. Fátt vissi mamma betra en að vera í bústaðnum, vakna í sólinni og setjast út í kyrrðina. Svo þurfti auðvitað að snyrta gróðurinn og dytta að, endalaus vinna, en það fannst mömmu minni ekki leiðinlegt. Eftir fráfall pabba voru það börnin hennar og barnabörn sem fóru með henni í sveitina og eru þessar ferðir barnabörnunum mjög minnisstæðar enda mikið borðað af mat og nammi, leikið sér í ánni og vakað fram eftir og spilað.

Þótt tengdamamma hafi stunduð verið hrjúf og átt erfitt með að tjá tilfinningar sínar þá voru síðustu orðin sem hún sagði þegar við heimsóttum hana á Hrafnistu: „Ef þú bara vissir hvað mér þykir vænt um þig, Ívar.“ Tengdamamma sýndi kærleika sinn í verki.

Emilía, amma mín, elskaði tónlist og fannst fátt skemmtilegra á seinni árum en að hafa tónlist í gangi hvort sem það var uppi í bústað eða þegar keyrt var á milli staða. Ef lagið var gott söng hún oft með þó að textakunnátta hafi ekki verið hennar sterkasta hlið. Bústaðurinn í Grafningi að kvöldi til, spila vist eða teningaspil og hlusta á tónlist eru minningar sem ég mun aldrei gleyma. Amma sýndi væntumþykju sína með því að búa til minningar og tæki það heila bók að nefna þær allar. Utanlandsferðir, bústaðurinn, rúntar, göngur eða aðrir leiðangrar er það sem einkenndi hana og má segja að hún hafi aldrei hætt að vera á fullri ferð. Amma var til í hvað sem er, því ekkert fannst henni leiðinlegra en að gera ekkert. Síðasta minning mín um hana er sú að við sátum og hlustuðum á Söknuð með Villa Vill og hún söng með eftir bestu getu og ég með. Mikið gæfi ég fyrir að eiga aðra svona stund með henni en lífið tekur enda og mikilvægt að muna að búa til minningar meðan hægt er. Sannarlega á ég margar minningar um ömmu mína og er ég þakklátur fyrir þær. Takk fyrir allt, elsku amma, þér gleymi ég aldrei.

Blessuð sé minning Emilíu Óskar sem trúði því staðfastlega að til væri himnaríki þar sem við munum hittast þegar okkar tími kemur.

Auður, Ívar og Birgir.

Elsku mamma. Það er komin kveðjustund en hvernig kveð ég þig í síðasta sinn? Síðustu ár voru þér erfið þegar líkaminn fór að gefa sig og þú gast ekki gert allt sem þig langaði til. Í huga mínum var andlát þitt einhvern veginn svo fjarri. Þú varst alltaf sjálf að bíða eftir bata, þannig að ég átti eiginlega von á því að þú yrðir eilíf.

Undanfarna daga hefur hugurinn reikað aftur í tímann og minningar sprottið upp. Sumarfrí fjölskyldunnar þegar ég var barn en þú lagðir alltaf áherslu á að eitthvað skemmtilegt væri gert í sumarfríinu, þú og pabbi þeystust um lawndið með okkur fimm systkinin í tjaldferðalög o.fl. Ég minnist þess hve mikið þið pabbi lögðuð á ykkur svo við systkinin gætum notið sem mestra gæða, farið í utanlandsferðir og notið menntunar.

Í gegnum árin hefur þú alltaf reynt að vera til staðar, stóðst með sópinn þegar við hjónin keyptum okkur fokhelt húsnæði, fylgdist grannt með öllu og sást til þess að alltaf væri matur á borðum að loknu dagsverki. Börnunum mínum og barnabörnum varst þú dýrmæt og rifja þau upp sumarbústaðaferðir með þér og þegar þú hrærðir reglulega í sjónvarpsköku handa þeim og keyrðir með frá Keflavík til Hafnarfjarðar og ekki síst eftir að strákarnir kvörtuðu við þig í síma og sögðu ekkert vera til heima.

Við fjölskyldan bjuggum um tíma í Englandi, á þeim tíma fórst þú í enskuskóla í Bognor Regis og komst í heimsóknir til okkar um helgar á meðan á enskunáminu stóð.

Þegar maður sest núna niður og rifjar upp öll árin með þér skilur maður ekki hvernig þú komst öllu í verk sem þú gerðir og hve sterk þú varst. Það eitt að fara út að vinna í fullri vinnu frá fimm börnum á aldursbilinu 3-11 ára segir margt. Þú varðst ekkja tæplega 55 ára sem var sárt en þú hélst sterk áfram, fórst í gönguhóp, fórst til Noregs sumarlangt til að vinna sem hjúkrunarfræðingur mállaus á norska tungu.

Þú gafst þig í starf KFUM og K og Kristniboðsfélagsins í Keflavík og hélst utan um hvort tveggja, þú seldir skeyti, safnaðir flöskum, frímerkjum o.fl. og komst upp húsnæði fyrir starfið með dyggum stuðningi pabba. Fyrir utan þetta allt helltir þú þér í bútasauminn, saumaðir rúmteppi handa okkur börnunum þínum og barnabörnum.

Mamma mín, ég sakna þín, þú varst fyrirmynd og lifir í minningum mínum og fjölskyldu minnar.

Við minningu um þig geymum

og aldrei við gleymum,

hve trygg varst þú okkur og góð.

Við kveðjum þig, mamma,

og geymum í ramma

í hjarta okkar minningu um þig.

(GV)

Þín dóttir,

Kolla.

Kolbrún.

Elsku elsku amma mín.

Núna er dagurinn allt í einu runninn upp að við göngum með þér síðasta spölinn og kveðjum þig í síðasta skipti. Dagur sem ég einhvern veginn hafði aldrei hugsað til eða hvarflað að mér, „lífið án ömmu“, en það er bara ein ástæða fyrir því: Amma mín lifði lífinu og lífið var til að lifa því og hafa áhrif í lífinu.

Aldrei talaðirðu um dauðann eða veikindin sem hrjáðu þig í lokin þannig að þú myndir ekki vera hérna alltaf með okkur!

Einstök kona og hafðir svo mikil áhrif á líf fólks. Þú varst einstök fyrirmynd og lést ekkert stoppa þig. Það skipti ekki máli hvaða hindranir mættu þér í lífinu, þú hélst áfram og gerðir gott úr hlutunum. Það einkennir svolítið þennan hóp af fólki sem þú ólst upp og gafst af þér. Kraftmikið og duglegt fólk sem þú varst svo stolt af.

Það að hafa setið með fólkinu þínu síðustu daga sem skipti þig öllu máli og rifja upp öll árin þín þá upplifir maður einstakt þakklæti og verður stoltur að verið sé að tala um ömmu mína.

Ég get ekki annað en þakkað fyrir árin okkar saman, elsku amma, ferðirnar okkar saman til Svíþjóðar, allar sumarbústaðarferðirnar (hann var jú þinn allra mesti uppáhaldsstaður og er okkur öllum, sérstaklega barnabörnunum þínum, afar kær) eða bara notalegu stundirnar bæði á Kirkjuveginum og svo í Árskógum.

Ég á eftir að sakna þess að stoppa við í bakaríinu og koma við í Árskógum og fá mér kaffibolla með þér og ræða málin.

Það sem ég er þakklát að börnin mín fengu að kynnast þér og eiga með þér fallegar stundir. Þar verður minningunni um einstaka og kraftmikla konu svo sannarlega haldið á lofti alla tíð.

En eins og börnin reyndu að hughreysta mömmu sína sem var brotin daginn eftir að þú kvaddir okkur og Veronika Von segir við mig: „Mamma mín, þetta er allt í lagi, núna er amma hjá Enok Helga og Dúlla bræðrum mínum og passar þá fyrir okkur.“

Ég er alveg viss um að það hafi verið eitt af því fyrsta sem þú gerðir af því að allt gerðirðu fyrir fólkið þitt. Alla þá ást og umhyggju sem þú áttir sýndirðu í verki, alltaf fyrst til!

Ekkert skipti þig jafn miklu máli og fjölskyldan þín og fólkið þitt!

Elsku elsku amma mín, elska þig alltaf og missirinn er alltof sár. En þar til við hittumst aftur þá sendi ég þér koss á hvora kinn eins og þú vildir alltaf hafa það og þéttingsfast knús!

Elska þig alltaf mest.

Þú varst okkur amma svo undur góð

og eftirlést okkur dýran sjóð,

með bænum og blessun þinni.

Í barnsins hjarta var sæði sáð,

er síðan blómgast af Drottins náð,

sá ávöxtur geymist inni.

Við allt viljum þakka amma mín,

indælu og blíðu faðmlög þín,

þú vafðir oss vina armi.

Hjá vanga þínum var frið að fá

þá féllu tárin af votri brá,

við brostum hjá þínum barmi.

Við kveðjum þig elsku amma mín,

í upphæðum blessuð sólin skín,

þar englar þér vaka yfir.

Með kærleika ert þú kvödd í dag,

því komið er undir sólarlag,

en minninga ljós þitt lifir.

Leiddu svo ömmu góði guð

í gleðinnar sælu lífsfögnuð,

við minningu munum geyma.

Sofðu svo amma sætt og rótt,

við segjum af hjarta góða nótt.

Það harma þig allir heima.

(Halldór Jónsson frá Gili)

Þín

Berglind Ösp.

Með Emelíu Ósk er horfinn dyggur þjónn Drottins. Ég kynntist henni fyrst sem ungur maður. Þá voru haldnar árlega kristniboðsvikur í Keflavík og var hún ásamt nokkrum öðrum konum kjarni Kristniboðsfélagsins í Keflavík sem Ólafur Ólafsson kristniboði hafði á sínum tíma forgöngu um að yrði stofnað. Áhugi og elja kvennanna var aðdáunarverð.

Emilía bauð m.a. starfsmönnum Kristniboðsins í mat þegar skólar á svæðinu voru heimsóttir eða mikið var um að vera. Hún vann sín verk í kyrrþey, beindi ekki sjónum manna að sjálfri sér heldur þjónaði Drottni og náunganum í einlægni og kærleika. Það var mikill fengur fyrir kristilega stafið í Keflavík að eiga Emilíu að. Fyrir utan reglulega fundi í kristniboðsfélaginu var Emilía einnig í forystu þróttmikils starfs KFUM og KFUK í Keflavík. Þegar kristniboðsvikur voru haldnar í Keflavík var kirkjan á stundum þétt setin og viðstöddum boðið í kaffi á eftir, sem frekar ber að kalla kaffisamsæti. Emilía var alltaf nálæg og önnum kafin.

Með hærri aldri fækkaði félagskonunum smám saman og Emilía flutti til Reykjavíkur. Hún gerðist þar félagi í Kristniboðsfélagi kvenna og sótti samkomur í Kristniboðssalnum. Það var eðlilegt þar sem kristniboðið var hennar hjartans mál, sem hún bað fyrir og studdi dyggilega með fjárframlögum og sjálfboðavinnu, áhugasöm og virk ef eitthvað þurfti að gera. Með trúfesti sinni, áhuga, dugnaði og þolgæði í öllu sem hún tók þátt í var hún einstök fyrirmynd og vitnisburður um kærleika Guðs í Jesú Kristi. Fyrir það skal nú þakkað. Drottinn blessi minningu Emelíu Óskar, huggi og styrki afkomendur alla, ættingja og vini.

Ragnar Gunnarsson.