Taprekstur Tap af rekstri Reykjavíkurborgar nemur um 22 milljörðum króna á síðastliðnum 18 mánuðum.
Taprekstur Tap af rekstri Reykjavíkurborgar nemur um 22 milljörðum króna á síðastliðnum 18 mánuðum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.is Tap Reykjavíkurborgar nam á fyrri helmingi ársins rúmlega 6,7 milljörðum króna af A- og B-rekstri borgarinnar. Borgin hafði í áætlunum sínum gert ráð fyrir sex milljarða króna hagnaði og er niðurstaðan því um tæplega 13 milljörðum króna lakari.

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Tap Reykjavíkurborgar nam á fyrri helmingi ársins rúmlega 6,7 milljörðum króna af A- og B-rekstri borgarinnar. Borgin hafði í áætlunum sínum gert ráð fyrir sex milljarða króna hagnaði og er niðurstaðan því um tæplega 13 milljörðum króna lakari.

Borgin birti árshlutareikning sinn í gær. Tap borgarinnar á síðasta ári nam um 15,6 milljörðum króna og nemur tapið síðustu 18 mánuði því rúmlega 22 milljörðum króna.

Rekstrartap A-hluta borgarinnar, sem er að hluta eða öllu leyti fjármagnað með skatttekjum, nam um 920 milljónum króna á fyrri helmingi ársins, en áætlun borgarinnar hafði gert ráð fyrir um 860 milljóna króna hagnaði. Skatttekjur A-hluta borgarinnar námu um 67,4 milljörðum króna og jukust um 8,9 milljarða á milli ára. Þá jukust skatttekjur um 3,6 milljarða króna umfram það sem borgin hafði áætlað. Rekstrartekjur í heild námu um 87 milljörðum króna og jukust um 4,5 milljarða á milli ára.

Heildartekjur borgarinnar, þ.e. af A- og B-hluta, námu um 121,6 milljörðum króna, sem er aukning um tæpa 15 milljarða króna á milli ára og rúmur milljarður umfram áætlun.

Skrifa tapið á börn og fatlaða

Rekstrargjöld A-hluta borgarinnar jukust þó um rúma 6,9 milljarða króna á milli ára og námu tæplega 83 milljörðum króna. Það er um fimm milljörðum króna umfram áætlun.

Meirihluti borgarstjórnar rekur hluta af auknum rekstrarútgjöldum borgarinnar til þess að laun og launatengd gjöld voru um 2,1 milljarði króna yfir fjárheimildum. Í uppgjörinu kemur fram að kostnaður hjá skóla- og frístundasviði vegna aukins stuðnings við börn af erlendum uppruna og hátt veikindahlutfall bæði hjá skóla- og frístundasviði og velferðarsviði, sem og orlofstaka starfsfólks á velferðarsviði á uppsöfnuðu orlofi, hafi kallað á aukna mönnun. Þá segir í uppgjörinu að hallinn af málaflokki fatlaðs fólks nema um 4,8 milljörðum króna á tímabilinu.

Skuldir aukast

Langtímaskuldir borgarinnar hafa aukist um rúma 17 milljarða króna frá áramótum og nema nú um 336 milljörðum króna. Heildarskuldir borgarinnar nema um 479 milljörðum króna, en inni í því eru þó skammtímaskuldir. Þá námu nýjar lántökur borgarinnar um 14,8 milljörðum króna.

Fjármagnskostnaður borgarinnar, A- og B-hluta, nam um 18,6 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins og jókst um 5,3 milljarða króna. Þá var fjármagnskostnaðurinn rúmlega níu milljarðar króna umfram áætlun borgarinnar, þar af um einn milljarður króna yfir áætlun á A-hluta borgarinnar. Áætlun borgarinnar miðast við 2,85% verðbólgu, sem er í samræmi við hagspá Hagstofunnar frá því í fyrravor, en verðbólgan á tímabilinu reyndist 5,3%.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri nefnir sérstaklega í tilkynningu frá borginni að veltufé frá rekstri hafi aukist á tímabilinu. Veltufé frá rekstri, sem gefur til kynna getu borgarinnar til að greiða afborganir af skuldum og til fjárfestinga, var í hlutfalli af tekjum jákvætt um 6,8 milljarða króna á tímabilinu, en var neikvætt um 4,5 milljarða króna á sama tíma í fyrra. Þar vegur þó þungt að borginni barst arðgreiðsla frá Orkuveitu Reykjavíkur, sem nam um 5,1 milljarði króna, á tímabilinu en sú arðgreiðsla var fyrr á ferðinni en síðustu ár.

Félagsbústaðir í vanda

Í uppgjöri Reykjavíkurborgar kemur fram að matsbreyting fjárfestingaeigna Félagsbústaða var jákvæð um 702 m.kr. á tímabilinu, sem er um 3,2 mö.kr. lægra en áætlun gerði ráð fyrir. Ástæðan er rakin til þess að hægst hafi á hækkun fasteignaverðs. Í skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar kemur hins vegar fram að fjárhagsáætlun ársins 2023 geri ekki ráð fyrir að veltufé frá rekstri standi undir afborgunum langtímalána. Því telur sviðið mikilvægt að leitað verði leiða til að styrkja rekstrargrundvöll félagsins þannig að tekjur félagsins standi undir rekstrarkostnaði og afborgunum lána til framtíðar.