Stórfjölskyldan Valgerður og Sigurður með börnum, tengdabörnum og barnabörnum á Spáni árið 2022. Á myndina vantar elsta barnabarnið, alnöfnu afmælisbarnsins, Valgerði Stefánsdóttur.
Stórfjölskyldan Valgerður og Sigurður með börnum, tengdabörnum og barnabörnum á Spáni árið 2022. Á myndina vantar elsta barnabarnið, alnöfnu afmælisbarnsins, Valgerði Stefánsdóttur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valgerður Stefánsdóttir fæddist 8. september 1953 í Reykjavík og ólst upp í Vogunum. „Við áttum heima niðri í Súðarvogi, en pabbi var með fiskverkun þar. Maður lék sér í fjörunni. Það var mikil náttúra þarna í kring og mikið frelsi

Valgerður Stefánsdóttir fæddist 8. september 1953 í Reykjavík og ólst upp í Vogunum. „Við áttum heima niðri í Súðarvogi, en pabbi var með fiskverkun þar. Maður lék sér í fjörunni. Það var mikil náttúra þarna í kring og mikið frelsi. Ég var bara hálfan mánuð í sveit, í Hamarsfirði,“ segir Valgerður aðspurð. „Pabbi var á móti því að ég færi í sveit. Hann vildi að börnin væru heima hjá sér.“

Skólaganga Valgerðar hófst í Vogaskóla. Hún fór síðan Kvennaskólann en lauk svo stúdentsprófi 1973 frá Menntaskólanum við Tjörnina og síðan B.ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands. Árið 1983 lauk hún prófi sem kennari fyrir heyrnarlausa frá Kennaraháskólanum í Stokkhólmi. Síðar lauk hún meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands. Valgerður stundar nú doktorsnám í mannfræði.

Valgerður var kennari við Heyrnleysingjaskólann/Vesturhlíðarskóla 1977-1990. „Ég sótti um á fimm stöðum og fékk vinnu í Heyrnleysingjaskólanum. Ég hafði aldrei hitt heyrnarlausa manneskju eða kynnst táknmáli. Það eina sem ég hafði kynnst var fingrastafróf í vasabókum. En ég fór semsagt mállaus á máli barnanna inn í bekk og byrjaði að kenna og eina leiðin til að ná sambandi við þau var að biðja þau um að kenna mér táknmál. Einhvern veginn festist maður við þetta og að kynnast þessu samfélagi var svo heillandi að ég hef aldrei sloppið út aftur í 46 ár.“

Árið 1990 var Valgerður ráðin til að hefja undirbúning Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og var forstöðumaður til 2019. „Áður var hvergi hægt að læra táknmál nema á byrjendanámskeiðum, engin túlkaþjónusta var eða rannsóknir á málinu. Ég var farin að túlka fyrir nemendur í framhaldsnámi 1988-89 og þá var ég að túlka í Þroskaþjálfaskólanum fyrir Júlíu G. Hreinsdóttur. Við ræddum mikið á kennarastofunni um að það yrði að vera til staður þar sem unnið væri með táknmál. Þar byrjaði eiginlega baráttan fyrir því að fá samskiptamiðstöðina.“

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra var svo stofnuð áramótin 1990-1991. Hlutverk stofnunarinnar frá byrjun var að vinna að rannsóknum á íslensku táknmáli, kennslu íslensks táknmáls og námsefnisgerð, túlkaþjónustu á milli íslensks táknmáls og íslensku og ráðgjöf. „Fyrstu verkefnin voru að byggja upp kennslu í táknmáli og hefja samstarf við Háskóla Íslands um að koma á námi í táknmálsfræði og táknmálstúlkun. Við unnum síðan náttúrlega með Félagi heyrnarlausa til að fá viðurkenningu á íslensku táknmáli í lögum, sem fékkst 2011. Þá var það viðurkennt sem jafnrétthátt íslensku, en þrátt fyrir það er mikill mismunur á stöðu þeirra sem nota íslenskt táknmál og þeirra sem tala íslensku.

Maður upplifði mjög mikið í vinnunni hversu undirokað íslenskt táknmál var því öll málefni táknmálsins fengu mjög tregan framgang innan kerfisins. Eitt af því sem hefur til dæmis ekki gengið er að fá túlkun fyrir heyrnarlaust fólk í atvinnulífi. Staða þess í atvinnulífinu er því verri en annarra og því njótum við ekki hæfileika fólks sem notar íslenskt táknmál, þegar það getur ekki sinnt vinnu sinni eins og aðrir. En í öllum nágrannalöndum okkar er túlkun í atvinnulífi sjálfsagður hlutur.“

Valgerður er núna sjálfstætt starfandi fræðimaður og nýbúin að leggja lokahönd á doktorsritgerð um uppruna, þróun og vistsvæði íslensks táknmáls. „Það sem varð til þess að ég fór í doktorsnámið var að það skapraunaði mér að í fyrsta lagi var því haldið fram að íslenskt táknmál væri komið úr dönsku táknmáli, og annað var að það pirraði mig að pólítíkusar, stjórnkerfið og almenningur skildu ekki hversu mikilvægt það væri að íslenskt táknmál væri til. Það er í útrýmingarhættu og ég vildi skoða þetta og hef verið að því síðan 2012. Það er því mikill áfangi að vera að klára doktorsritgerðina.“

Árið 2020 hlaut Valgerður fálkaorðuna fyrir störf í þágu íslensks táknmáls og jafnréttisbaráttu þeirra sem tala það.

Áhugamál Valgerðar eru hundaþjálfun og hundarækt. „Það er frekar umfangsmikið. Ég er til dæmis í fjarnámi við Hamar Hundeskole í Noregi að læra hundaþjálfun. Svo er ég í teymi sem er að byggja upp faglegan ramma í kringum það að fólk geti veitt íhlutun með aðstoð hunda, m.a. að meta skapgerð þeirra. Svo er ég búin að læra um íhlutun með aðstoð hunda við Norges Miljø- og biovitenskapelige Universitet. Þetta er því frekar umfangsmikið hobbí.

Auk þessa hefur Valgerður lengi verið að rækta hunda. „Ég er þó líklega að hætta ræktuninni.“

Fjölskylda

Eiginmaður Valgerðar er Sigurður Guðni Valgeirsson, f. 22.5.1954, upplýsingafulltrúi. Þau eru búsett í Vesturbæ Hafnarfjarðar. Foreldrar Sigurðar voru hjónin Hrefna Sigurðardóttir, f. 2.6. 1916, d. 1.4. 1996, verslunarmaður, og Valgeir Þórður Guðlaugsson, f. 18.7. 1910, d. 26.12. 1989, verslunarmaður. Þau voru búsett í Reykjavík.

Börn Valgerðar og Sigurðar eru 1) Stefán Sigurðsson, f. 10.11. 1972, stofnandi og listrænn stjórnandi, Maki: Ragna Sara Jónsdóttir, framkvæmdastjóri. Þau eru búsett í Charlottenlund, úthverfi Kaupmannahafnar. Börn þeirra eru Valgerður, Tómas, Jakob og Anna Karólína; 2) Valgeir Þórður Sigurðsson, f. 30.1. 1980, trésmíðameistari og byggingastjóri. Maki: Brynja Björk Jónsdóttir, starfsmaður gæðaeftirlitsdeildar Coripharma. Þau eru búsett í Hafnarfirði. Börn þeirra eru Hildur Jóna og Sigurður Guðni; 3) Guðni Sigurðsson, f. 20.12. 1982, upplýsingafulltrúi Icelandair. Maki: Elfur Hildisif Hermannsdóttir, ljósmyndari og almannatengill. Þau eru búsett í Reykjavík; 4) Hrefna Sigurðardóttir, f. 12.5. 1989, vöruhönnuður. Maki: Brynjar Úlfarsson verkefnisstjóri. Þau eru búsett í Reykjavík. Börn þeirra eru Guðrún Svava og Sigríður Vala.

Systkini Valgerðar eru Þórarinn Stefánsson, f. 25.7. 1941, verkfræðingur dr.-ing., búsettur í Noregi; Guðni Stefánsson, f. 9.6. 1947, eftirlaunaþegi, búsettur í Reykjavík; Tryggvi Björn Stefánsson, f. 30.12. 1949, skurðlæknir, búsettur í Kópavogi, og Ástríður Stefánsdóttir, f. 10.2. 1961, prófessor, búsett í Garðabæ.

Foreldrar Valgerðar voru hjónin Anna Þórarinsdóttir, f. 23.7. 1918, d. 24.6. 2006, sjúkraþjálfari, og Stefán Guðnason, f. 5.8. 1911, d. 3.4. 1998, forstjóri. Þau voru búsett í Reykjavík.