Sigurbjörg Magnúsdóttir fæddist á Sjúkrahúsinu á Ísafirði 13. mars 1983. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut 29. ágúst 2023.

Foreldrar hennar eru Guðrún Hauksdóttir og Magnús Gunnar Arneson en hann er kvæntur Margréti Kolbeins. Hálfbróðir Sigurbjargar er Arnar Magnússon og hann er kvæntur Önnu Dóru Gunnþórsdóttur.

Sigurbjörg giftist Teiti Helga Hjaltasyni og börn þeirra eru Magnús Ari Teitsson fæddur 2008 og Heiðrún Inga Teitsdóttir fædd 2013.

Sigurbjörg ólst upp á Ísafirði til níu ára aldurs hjá móður sinni og sambýliskonu hennar, Stefaníu Sigurgeirsdóttur. Þaðan fluttist hún ásamt móður sinni til Reykjavíkur og gekk í Langholtsskóla. Hún tók stúdentspróf frá Menntaskólanum við Sund árið 2003 og hóf nám við Háskóla Íslands sama ár í uppeldis- og menntunarfræði og útskrifaðist með B.A.-gráðu 2006.

Sigurbjörg starfaði alla sína tíð á leikskóla, allt frá því hún hóf sumarstörf sem unglingur fram til dánardags. Hún vann síðast frá árinu 2017 á leikskólanum Seljaborg í Reykjavík sem sérkennslustjóri og deildarstjóri.

Útför hennar fer fram frá Fríkirkjunni í dag, 8. september 2023, klukkan 13.

Elsku Sigurbjörg frænka mín og vinkona lést á afmælisdegi ömmu okkar og nöfnu hennar 29. ágúst síðastliðinn. Við Sigurbjörg erum systkinabörn og jafnöldrur. Á okkar yngri árum vorum við frænkur sem þótti gaman að hittast og bralla eitthvað saman. Á menntaskólaárunum þróaðist sambandið í vináttu sem styrktist bara eftir því sem við eltumst. Sigurbjörg fæddist fimm mánuðum á undan mér og þreyttist aldrei á að kalla og kynna mig sem litlu frænku sína þrátt fyrir að ég væri um 10 sm hærri en hún. Við eigum ótal minningar saman af menntaskólaböllum, en ég fékk að fylgja henni á öll MS-böll þar sem böllin í mínum skóla voru ekki eins skemmtileg. Á háskólaárunum fórum við oft á djammið í miðbæ Reykjavíkur og á námsárum mínum í Svíþjóð fór ég yfirleitt beint út á lífið með Sigurbjörgu þegar ég kom heim í fríum. Eftir að við eignuðumst börn og djammverustundunum fækkaði fórum við oft á rúntinn til að spjalla en síðustu ár voru það frekar göngutúrar, hádegisdeit og heimsóknir. Sigurbjörg vildi oftast koma og ganga hér í Langholtshverfinu, gamla hverfinu sínu. Ég er þakklát fyrir að hafa haft tækifæri til að verja meiri tíma með henni sl. vor eftir að hún veiktist. Hádegishittingarnir og göngutúrarnir okkar eru dýrmæt viðbót í minningabankann.

Við Sigurbjörg vorum í mörgu ólíkar en samt svo líkar. Það gerðist oft, frá barnsaldri fram á fullorðinsár, að við keyptum okkur sömu flíkurnar án þess að vita af kaupum hvor annarrar. Til að mynda fermdumst við í eins kínakjólum úr flaueli, Sigurbjörg auðvitað í heiðbláum (sibbubláum) og ég í flöskugrænum. Ég man líka sérstaklega eftir peysunni sem við keyptum báðar, þegar við vorum í 8. eða 9. bekk, og mættum svo í fjölskylduboð hjá ömmu og afa í alveg eins peysum. Við horfðum á sömu þættina, þar sem Leiðarljós var í uppáhaldi, og vorum báðar nammigrísir og sendum oft hvor annarri skilaboð þegar nýtt nammi kom í verslanir svo það færi nú ekki fram hjá okkur.

Síðasta skiptið sem við Sigurbjörg töluðum saman í síma var daginn sem ég pantaði ferð til Gautaborgar fyrir mig og dætur mínar með innan við tveggja sólarhringa fyrirvara. Sigurbjörg hvatti mig til að slá til, hló við og sagði: „Þetta verður örugglega besta ferðalag sem þú hefur farið í.“ Ef ég hefði vitað að þetta yrði í síðasta skiptið sem ég heyrði rödd hennar hefði ég aldrei lagt á.

Ég minnist skemmtilegrar frænku sem var gaman að hitta, leika við og spjalla við. Ég minnist góðrar vinkonu sem alltaf hafði frá einhverju skemmtilegu og spennandi að segja. Ég minnist trúnaðarvinkonu sem alltaf var til staðar. Söknuðurinn er mikill en ég vil trúa því að við Sigurbjörg hittumst aftur og þá verður sko skrafað.

Guð blessi minningu Sigurbjargar og veri með Teiti, Magnúsi Ara, Heiðrúnu Ingu, Guðrúnu, Stefaníu og fjölskyldunni allri í þessari miklu sorg.

Sigrún litla frænka.

Ég á erfitt með að trúa því ennþá að Sibba sé farin frá okkur. Það á eftir að taka tíma að hugsa ekki „ég verð að hringja í Sibbu og segja henni frá þessu.“

Hversu ósanngjarnt er það að kona í blóma lífsins sé tekin frá fjölskyldu, vinum og ungum börnum.

Ég kynntist Sibbu þegar hún byrjaði að vinna á leikskólanum Ásborg fyrir rúmum 20 árum. Hún var alltaf svo rösk, dugleg og kát og allir sem unnu með henni hafa talað um hve gott hafi verið að vinna með henni.

Eftir að Sibba hætti að vinna á Ásborginni héldum við áfram okkar góðu sambandi. Við náðum svo vel saman og áttum svo margt sameiginlegt. Þegar ég var í gönguferðum notaði ég oft tækifærið og hringdi í Sibbu, alltaf var nóg að tala um.

Þegar hún greinist með krabbamein í janúar á þessu ári tók hún því af æðruleysi og ætlaði að gera allt til að geta lifað sem lengst með því. Aldrei hefði maður trúað því að það yrði aðeins sjö mánuðir.

Henni fannst alltaf svo gaman að hitta gamla vinnufélaga og var alltaf svo dugleg að mæta í alla hittinga þar sem við gömlu vinnufélagarnir í Ásborginni vorum að hittast. Þannig að nú er maður svo þakklátur fyrir að hægt var að hafa óvissuferð í júní með gömlum Ásborgurum, ég vissi að Sibba myndi nú ekki láta sig vanta.

Í lok júlí hitti ég hana þegar ég og systir mín fórum í heimsókn til hennar. Ekki hefði mig grunað að það yrði í síðasta skiptið sem við hittumst.

Ég veit að þegar minn tími kemur mun ég hitta elsku Sibbu mína aftur.

Ég sendi Teiti, Magnúsi Ara, Heiðrúnu Ingu og Guðrúnu mína innilegustu samúðarkveðju ásamt öllum öðrum sem nú syrgja hana.

Karen Linda Viborg Einarsdóttir.