Opið Hjónin Friðfinnur Kjaran Elísson og Guðrún Fjóla Kristjánsdóttir draga fánann að húni áður en þau opna að morgni.
Opið Hjónin Friðfinnur Kjaran Elísson og Guðrún Fjóla Kristjánsdóttir draga fánann að húni áður en þau opna að morgni. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú fer hver að vera síðastur til að fá sér kaffi og með’í í Litlabæ við Skötufjörð í Ísafjarðardjúpi þetta árið, því starfsemin er aðeins frá miðjum maí og fram í miðjan september ár hvert. „Það hefur gengið mjög vel í sumar, straumur…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Nú fer hver að vera síðastur til að fá sér kaffi og með’í í Litlabæ við Skötufjörð í Ísafjarðardjúpi þetta árið, því starfsemin er aðeins frá miðjum maí og fram í miðjan september ár hvert.

„Það hefur gengið mjög vel í sumar, straumur ferðamanna verið svipaður og í fyrra, jafnvel meiri,“ segir Guðrún Fjóla Kristjánsdóttir, sem sér um reksturinn ásamt Friðfinni Kjaran Elíssyni, eiginmanni sínum, í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands, en bærinn hefur verið í vörslu safnsins frá 1999.

Guðrún segir að útlendingar séu í miklum meirihluta gesta, þar sem Þjóðverjar og Bandaríkjamenn séu fjölmennastir. Um þessar mundir beri mest á Frökkum og Ítölum og eins Spánverjum. „Fyrir covid komu margir Asíubúar en ekki hefur verið mikið um þá síðan.“

Hellt upp á og bakað

Langafi og langamma Guðrúnar hófu búskap í Litlabæ 1895 og bjuggu forfeður hennar í húsinu til 1969. Húsið stóð autt í þrjá áratugi en eftir að Þjóðminjasafnið tók það yfir hófust viðamiklar viðgerðir á því og útihúsum sem byggð voru 1927. Snemma á framkvæmdatímanum byrjuðu Kristján Kristjánsson og Sigríður Hafliðadóttir, bændur á Hvítanesi og foreldrar Guðrúnar, með veitingasölu í húsinu. „Hvítanes er aðeins kílómetra í burtu og fólk bankaði upp á hjá þeim til að forvitnast um Litlabæ,“ segir Guðrún um byrjun reksturs þeirra í húsinu. „Þau brugðust alltaf vel við, skutust og opnuðu bæinn og sögðu frá lífinu þar á árum áður. Einhver snillingur spurði þau af hverju þau seldu ekki kaffi, þau tóku hann á orðinu og síðan vatt reksturinn jafnt og þétt upp á sig.“

Guðrún segir að móðir sín hafi byrjað á því að bjóða upp á kaffi. Fljótlega hafi hún bakað vöfflur og annað bakkelsi og boðið upp á það með kaffinu. Smátt og smátt hafi reksturinn orðið viðameiri. Fyrir um þremur árum hafi foreldrar sínir ákveðið að hætta og þá hafi þau Friðfinnur tekið við keflinu. „Ég og börnin okkar höfðum hjálpað þeim við þetta og mér þótti sjálfsagt að taka við rekstrinum enda erfitt að loka svona stað.“

Undanfarna þrjá vetur hafa Kristján og Sigríður búið á Ísafirði og Friðfinnur og Guðrún hafa átt heima og unnið á Selfossi í 20 ár, en verið með foreldrum Guðrúnar á Hvítanesi undanfarin sumur. Litlibær er að jafnaði opinn milli klukkan tíu og sex á daginn en núna síðustu dagana er opið til fimm. „Ég sé um að baka vöfflurnar og mamma bakar heilmikið fyrir mig. Hún er því ekki alveg hætt.“