— Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Stemning lá í loftinu þegar Hrunamenn komu af fjalli í gærmorgun og ráku safn sitt fram sveitina í réttirnar, sem eru ekki langt frá Flúðum. Þar verður féð í dag, alls um 3.500 kindur, dregið í dilka, svo rekið heim á bæi eða flutt þangað á vögnum

Stemning lá í loftinu þegar Hrunamenn komu af fjalli í gærmorgun og ráku safn sitt fram sveitina í réttirnar, sem eru ekki langt frá Flúðum. Þar verður féð í dag, alls um 3.500 kindur, dregið í dilka, svo rekið heim á bæi eða flutt þangað á vögnum. Fjallferðin úr Hrunamannahreppi tók alls fimm daga, en smala þarf svæðið allt frá Hofsjökli og Kerlingarfjöllum fram til byggða. Í þetta verkefni þarf tæplega 40 manns og í margra vitund er leiðangur þessi ævintýrið eitt.

Allt gekk að óskum í fjallferðinni og veður var þokkalegt, enda þótt skúrir gengju yfir þegar komið var niður í byggð. Fram undan er svo hvarvetna í sveitum landsins annatími við fjárrag og slátrun. Allt hefur á hverri árstíð sinn fasta gang í bústörfunum – og nú er komið haust með gulum, sölnuðum gróðri eins og vel sést á þessari mynd.