Sigríður Ragnarsdóttir fæddist á Ísafirði 31. október 1949. Hún lést 27. ágúst 2023 á Landspítalanum við Hringbraut.

Foreldrar hennar voru Sigríður Jónsdóttir Ragnar, húsmóðir og kennari, f. 26.7. 1922, d. 10.3. 1993, og Ragnar H. Ragnar, söngstjóri og skólastjóri á Ísafirði, f. 28.9. 1898, d. 24.12. 1987. Systkini Sigríðar eru Anna Áslaug píanóleikari, f. 7.11. 1946, og Hjálmar Helgi tónskáld, f. 23.9. 1952.

Sigríður giftist hinn 28.12. 1972 eftirlifandi eiginmanni sínum, Jónasi Tómassyni tónskáldi, f. 21.11. 1946. Börn Sigríðar og Jónasar eru: 1) Ragnar Torfi verkfræðingur, f. 1973, kvæntur Tinnu Þorsteinsdóttur píanóleikara. Þau eiga tvær dætur: Áshildi Jöklu og Steinunni Emblu. 2) Herdís Anna Jónasdóttir sópransöngkona, f. 1983. 3) Tómas Árni Jónasson hugbúnaðarfræðingur, f. 1985, sambýliskona hans er Mary Kay Hickox grafískur hönnuður. Sigríður lagði stund á píanóleik frá unga aldri hjá föður sínum við Tónlistarskóla Ísafjarðar og hélt tónlistarnáminu áfram við Tónlistarskólann í Reykjavík jafnframt því að stunda nám við Menntaskólann í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi hélt hún til Bandaríkjanna til náms í tónlistargreinum og fornmálum við Lindenwood University í Missouri og lauk þaðan BA-prófi vorið 1971. Á árunum 1976-1978 dvaldi Sigríður í München þar sem hún sótti tíma í tónvísindum og fornmálum við Ludwig-Maximilian-háskólann. Sigríður lagði stund á meistaranám í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst 2004-2006 jafnframt því að vera gestanemandi við listkennsludeild Listaháskólans. Árið 2018 lauk hún námi í svæðisleiðsögn um Vestfirði.

Sigríður tók virkan þátt í fjölbreyttum tónlistarstörfum á Vestfjörðum um áratuga skeið. Hún starfaði fyrst sem píanókennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar, varð skólastjóri sama skóla 1984 og gegndi því starfi til 2017. Hún var um áratuga skeið undirleikari Sunnukórsins á Ísafirði og kom fram með kórnum á ótal tónleikum og uppákomum. Þá starfaði hún með ýmsum fleiri kórum, einsöngvurum og hljóðfærahópum. Hún var organisti við Ísafjarðarkirkju og Súðavíkurkirkju um árabil. Sigríður tók þátt í mörgum viðamiklum menningarverkefnum á Vestfjörðum og skipulagði fjölda tónleika og uppfærslur á stórum kórverkum og söngleikjum. Hún var einnig mjög virk í Styrktarfélagi til byggingar tónlistarhúss á Ísafirði. Þá sat hún í stjórnum ýmissa félagasamtaka, var einn af stofnendum Kvennaframboðs og Kvennalista og var í framboði fyrir þau samtök. Hún gekk síðar til liðs við Samfylkinguna og sat um tíma sem varaþingmaður í Vestfjarðakjördæmi.

Sumarið 2008 var Sigríður sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að tónlistarmenntun og sama ár var hún útnefnd bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar. Þá var henni vorið 2022 veitt heiðursviðurkenning Tónlistarskóla Ísafjarðar fyrir brautryðjendastörf í menningarmálum Ísafjarðar og glæsilega skólastjóratíð.

Útför Sigríðar fer fram í Kópavogskirkju í dag, 8. september 2023, klukkan 13.

Kynni okkar mömmu hófust á fallegum sumardegi í júní 1973. Það var við hæfi, sumarið var hennar tími. Raunar var sumardagurinn fyrsti sá hátíðardagur sem mamma hafði hvað mestar mætur á, pönnukökuilmur barst út á götu, sumargjöfum var dreift og Blessuð sértu sumarsól bergmálaði um húsið. Sigga litla, eins og afi kallaði hana alltaf, til aðgreiningar frá ömmu Siggu, var ósérhlífin og kærleiksrík í öllu sínu vafstri, umvafði sína nánustu með hlýju, gaf sér tíma til að hjálpa við hvaðeina sem á bjátaði og var ávallt til staðar fyrir vini og kunningja. Löngu fyrir tíma zoom-funda tók hún símafundi með vinkonum sem ósjaldan stóðu yfir svo klukkustundum skipti. Löngu áður en ofurmamman varð normið fór hún hjólandi að morgni inn í skóg með mér og vinum í pikknikk, eyddi síðdeginu í að sauma vandræðalega bolludagsbúninga og steikti svo kleinur fram á nótt fyrir styrktarsjóð Tónlistarskólans. Þegar hún varð ofuramma kynnti hún dætur okkar Tinnu fyrir grískum goðsögnum og ljúffengri óhollustu. Í ævintýralandi Smiðjugötunnar urðu til ógleymanlegar minningar sem hafa rifjast upp síðustu daga. Nú hallar sumri, haustið heilsar og það styttist í að ísfirsku fjallahnjúkarnir fái snjóhvítar húfur. Við kveðjum mömmu um leið og við þökkum fallegar samverustundir með hlýju í hjarta.

Ragnar Torfi.

Það færðist alltaf einhver ró yfir mig þegar ég gekk inn um dyrnar á Smiðjugötu 5. Þau skipti sem ég ferðaðist ein til Ísafjarðar sem unglingur um páskana tók Sigga frænka mín alltaf svo vel á móti mér, og sagði mér að hér ætti ég heima. Það var aldrei neitt stress, engar væntingar, bara botnlaus umhyggja og gleði. Hún tók mín hugðarefni alvarlega og gaf sér tíma til að ræða mín mál ítarlega, sama hversu stór eða smá þau voru. Hún hafði þann hæfileika að geta sett hlutina í óvænt samhengi, en Sigga var afskaplega skörp í hugsun með sínum hógværa hætti. Í seinni tíð var hún dugleg að segja mér hvað hún væri stolt af mér, og hvað ég minnti hana á Ásgerði frænku, sérstaklega þegar ég gerði eitthvað sem henni þótti djarft og mikilvægt, – enda var hún sjálf gagnrýnin og með mikla réttlætiskennd. Það er kannski Gautlandapönkið í okkur.

Af eiginleikum Siggu kemur fyrst upp í hugann hversu sterkt hún fann alltaf fyrir öllum tilfinningum, bæði ljúfum sem sárum. Svo hvernig hún lifði í stöðugri forvitni um lífið, og um fólkið sem hún kenndi eða mætti. Svo er það ástríða hennar fyrir listinni, fyrir tónlistinni, en Sigga andaði tónlist allt sitt líf. Hún var ætíð ötull stuðningsmaður ungs listafólks og bara almennt allra þeirra sem henni þótti auðga tilveruna. Fyrir henni var það svo mikilvægt að styðja aðra við að elta drauma sína. Hún var svo falleg kona og fegurð hennar margfaldaðist þegar hún var í essinu sínu, sem var oft. Hlátur hennar ómar með mér frá mörgum partíum þar sem hún var hrókur alls fagnaðar, spilandi á píanóið undir söng, langt fram á nótt. Það voru þvílík forréttindi að fá að alast upp í kringum manneskju sem var svona tilfinninganæm og tjáði sig svona sterkt og hispurslaust, svo mikið að það var ekki annað hægt en að hrífast með þessum krafti sem stafaði frá henni. Það er ekki alltaf auðvelt að hafa svona stórt hjarta, en það er svo sannarlega ekki leiðinlegt líf.

Það er skrítið að skrifa um Siggu frænku í þátíð. Hún var tekin frá okkur alltof fljótt. En þann tíma sem hún fékk í þessari tilvist nýtti hún til fulls. Hún hreif með sér alla sem hún hitti, hvort sem kynnin voru stór eða smá, en bros frá henni og smitandi ástríðan lýsti alltaf upp hvert herbergi. Arfleifð hennar sést ekki síst í börnunum hennar þremur, sem eru greinilega afsprengi móður sinnar, og í gegnum þau heldur Sigga áfram að lifa með okkur. Hún er líka með mér þegar ég kenni eða þegar ég gleðst yfir fagurri tónlist, eða þegar ég berst fyrir því sem ég trúi á. Með Siggu í hjartanu er auðveldara að lifa þessu lífi með óþrjótandi forvitni og taumlausri gleði, – þangað til við sjáumst aftur.

Nína Sigríður Hjálmarsdóttir.

Á Ísafirði áttu heima afi minn og amma og þar fæddust börnin þeirra átta. Fjölskyldan fluttist suður, afi féll frá 1955 og börnin hans og tengdabörn fluttu kistu hans með skipi til Ísafjarðar þar sem hann er jarðaður hjá ömmu. Á bryggjunni biðu hjónin Sigríður Jónsdóttir frá Gautlöndum, frænka ömmu, og bóndi hennar, Ragnar H. Ragnar, foreldrar Sigríðar Ragnarsdóttur sem við kveðjum í dag. Þau buðu öllum heim til veislu og slepptu ekki hendinni af mannskapnum fyrr en siglt var suður aftur.

Mamma þreyttist aldrei á að lýsa þessu einstaka fólki í fjölskyldu pabba, gestrisnin og hlýjan engu lík. Sögunni fylgdi að þessi dásamlegu hjón ættu þrjú börn sem væru á reki við okkur systkinin. Ég hugsaði oft um að gaman væri að kynnast þessu frændfólki mínu í framtíðinni. Svo kom að því að Ísafjarðarfólkið kom í heimsókn til okkar. Væntingar mínar stóðust og rúmlega það. Börnin voru algjörlega í stíl við foreldra sína, þrjú sjarmatröll. Við Sigga yngri smullum saman. Þegar hún kláraði MR var hún dúx í máladeildinni. Á þessum árum sóttum við m.a. Garðsböll og eftir eitt þeirra lentum við í partíi hjá strákum sem voru að læra líffræði. Sigga spurði mikið út í námið, enda ekki búin að ákveða hvað hún legði fyrir sig. Gestgjafinn setti í poka svona 5-6 doðranta sem kenndir voru á fyrsta ári í líffræðinni og heimtaði að lána Siggu þá. Nokkrum dögum síðar skilaði Sigga bókunum en líffræðineminn lét hana hafa fleiri. Sigga las bækurnar af ákafa og þegar ég heyrði í henni í vikulok sagði ég: „Ertu að hugsa um að fara í líffræði?“ „Nei, þetta er afskaplega spennandi fag en ég held ég láti pensúm fyrsta ársins duga.“ Svona var Sigga, næmið var svo mikið og áhuginn á öllu ótrúlegur. Allt lá opið fyrir henni.

Það var þó eitt svið sem lá ekki beinlínis opið fyrir henni, það var ættfræði. Sigga áttaði sig á að þar hafði ég einhverja innsýn og treysti á mig þar. Sigga gat t.d. hringt í mig og sagt: „Ég hitti mann sem sagðist vera frændi okkar. Er hann mikið skyldur okkur, miðlungs eða lítið?“ Sigga kynnti mig oft sem náfrænku sína en það var ekki alveg rétt. Langafi hennar, Pétur á Gautlöndum, og föðuramma mín, Kristjana, voru systkini. Ég var alveg hætt að leiðrétta Siggu enda vildi ég vera sem náskyldust henni.

Síðar kom svo Jónas til sögunnar og þau settust að á Ísafirði. Ég fór eins oft og ég gat vestur til að hitta frændfólkið, þ.e. Siggurnar báðar. Valsaði á milli Smiðjugötu og Túngötu. Ég var svo heppin að þegar ég ætlaði að vera í tvo til þrjá daga varð ég yfirleitt veðurteppt og dagarnir gátu orðið tíu. Siggurnar voru ótrúlega líkar, báðar með þennan einstaka sjarma og næmi.

Vinur í raun er sá sem maður hefur samband við, bæði á gleðistundum og á erfiðum tímum. Sigga var alla tíð slíkur vinur minn og mér þykir erfitt að vita að ég geti ekki lengur farið í smiðju til hennar. Í staðinn er ég ekkert nema þakklætið fyrir að hafa átt hana sem einstakan vin og frænku.

Elsku Jónas, og allt fólkið ykkar, megi þakklætið fyrir að hafa átt hana elsku Siggu hjálpa ykkur.

Ragnheiður Kristjana Þorláksdóttir.

Það færðist fjör í litla stelpnabekkinn á öðru ári í MR haustið 1966, þegar nokkrir nýir hressir nemendur bættust í hópinn. Þeirra á meðal var okkar kæra vinkona Sigga Ragnars. Sigga kom frá Ísafirði, þar sem hún hafði lokið fyrsta ári á framhaldsskólastigi, en þetta var áður en Menntaskólinn á Ísafirði kom til sögunnar. Fljótt tókst einlæg vinátta með Siggu og okkur bekkjarsystrum og höfum við haldið saman sem saumaklúbbur æ síðan. Fyrir rúmu ári lést ein úr hópnum, Guðrún Helga Agnarsdóttir, og nú er aftur skarð fyrir skildi með láti Siggu. Guðrún Helga og Sigga greindust með krabbamein með árs millibili fyrir rúmum tuttugu árum og glímdu við þau veikindi síðan með hléum. Báðar sinntu þær ábyrgðarmiklum störfum og tóku virkan þátt í því sem um var að vera hverju sinni.

Sigga kom með ferskan blæ í bekkinn. Hún var skemmtileg, eldklár og víðlesin og hafði lítið fyrir náminu, en stóð sig ávallt með miklum ágætum, var með toppeinkunnir. Eftirminnilegt er hve Sigga átti fallega kjóla, sem mamma hennar hafði saumað úr efnum úr kistunni góðu frá Ameríkuárunum.

Siggu var tónlist í blóð borin og hafði hún numið píanóleik hjá Ragnari föður sínum. Æskuheimili hennar var vettvangur rómaðs tónlistaruppeldis barna á Ísafirði í fjölda ára. Jafnhliða náminu í menntaskólanum stundaði Sigga nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík og fór létt með það eins og annað. Að loknu stúdentsprófi fór hún til náms í Bandaríkjunum í tónlist og klassískum fræðum, þar sem hún lauk BA-prófi. Hún aflaði sér frekari menntunar í gegnum árin, auk þess að vera allt í öllu í tónlistarstarfi á Vestfjörðum í áratugi, sem tónlistarkennari, meðleikari, organisti og skólastjóri Tónlistarskólans á Ísafirði. Einnig var hún liðtæk í alls kyns félagsstörfum. Hún hafði sterkar skoðanir og tók þátt í stjórnmálastarfi. Sigga fékk margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín, meðal annars fálkaorðuna. Hún var sannkölluð ofurkona.

Tónlistarhjónin Sigga og Jónas komu bæði úr einstökum tónlistarfjölskyldum. Það er því ekki að undra að börnin þeirra þrjú, Ragnar Torfi, Herdís Anna og Tómas, hafi fengið tónlistargáfuna í vöggugjöf og lært á hljóðfæri og Herdís Anna gert tónlistarflutning að aðalstarfi.

Þótt Sigga gæti ekki tekið virkan þátt í saumaklúbbnum okkar vegna búsetu fyrir vestan náðum við oft að hittast þegar hún var á ferð fyrir sunnan. Við stelpurnar og makar okkar höfum ferðast saman innanlands og utan og haldið þakkargjörðarhátíð árlega um langt skeið. Undanfarin ár hafa samskiptin orðið meiri, ekki síst eftir að þau Jónas fluttu suður, og höfum við hist ýmist bara stelpurnar eða oftar en ekki með mökum. Hefur trygg og kærleiksrík vinátta frá fyrstu kynnum verið okkur og fjölskyldum okkar ómetanleg.

Við minnumst okkar kæru Siggu með sárum söknuði og þakklæti fyrir ljúfa samfylgd í yfir hálfa öld.

Fyrir hönd okkar allra sendum við einlægar samúðarkveðjur til ástvina Siggu, frændfólks og vina.

Anna Guðmunds, Anna Júlíana, Ingunn, Sigríður Vilhjálms og Sólveig Jóns.

Sigga er öllum sem kynntust henni óviðjafnanleg og ógleymanleg. Hún fékk í arf bæði hæfileika foreldra sinna og lífsviðhorf sem hún lifði með þeim og lifði áfram í daglegu lífi sínu. Í einni setningu væri það líklega „Ísafirði allt“, því tónlistarlífið og tónlistarkennslan er það sem við, sem þekkjum til, tengjum við Ísafjörð fyrst af öllu. Tónlistinni fylgir gleði og gleðinni fylgir lífskraftur. Sigga hafði alltaf kraft og gleði, og tók okkur með sér með hressandi hlátri og þau Jónas buðu fram hús og veitingar rétt eins og Sigga og Ragnar höfðu áður gert. Það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast þessum húsráðendum á Smiðjugötunni og fengið að njóta vináttu og dýrðlegrar gestrisni sem við fátt verður jafnað, því þar var gleðin og hlýjan, hláturinn og vináttan það sem ríkti yfir öllu.

Starfskraftar Siggu voru helgaðir Tónlistarskólanum á Ísafirði. Ég var svo heppin að fá að kenna þar í hennar skólastjóratíð, fyrst í fastri kennslu og síðar á námskeiðum. Hún var alltaf opin fyrir nýjungum og gerði allt sem hún gat til að námsframboð væri sem best og fjölbreyttast. Þó Ísafjarðartími minn væri stuttur er hann alltaf í fersku minni, því þar var svo mikil orka og gleði og vinina sem við hjónin kynntumst þar höfum við átt að okkar bestu, alla tíð.

Sigga fékk mörg og kröfuhörð verkefni um ævina. Það var örugglega ekki einfalt að taka við skólastjórninni og öllum hefðunum, en hún bar velferð skólans og metnað fyrir brjósti alla tíð. Sínum eigin veikindum tók Sigga sem verkefni til að sigrast á og sannarlega vann hún marga sigra og sýndi okkur hinum hvernig lifa má lífinu með jákvæðni og reisn.

En þegar nafn Siggu er nefnt er Jónas það næsta sem kemur. Sigga og Jónas og Jónas og Sigga; þau voru samhent og samstiga hvort sem var í kennslu tónlistar eða gestamóttöku og studdu hvort annað í öllu sem að höndum bar.

Þegar við kveðjum Siggu lokast heil bók. Það er þykk og falleg bók með dýrgripum minninga og mynda.

Elsku Jónas, Ragnar, Dísa og Tómas, Hjálmar og Anna Áslaug; Guð styrki ykkur og fjölskyldur ykkar og gefi ykkur kraft í sorginni og gleði yfir minningunum sem Sigga gaf okkur. Þær eru ljósið sem lýsir áfram og við yljum okkur við.

Á Smiðjugötunni var skálað fyrir gleðinni, einnig á sorgarstundum, og það gerum við í minningu Siggu. Það hefði hún viljað.

Margrét Bóasdóttir.