Hafdís Bára Bjarnadóttir fæddist í Reykjavík 26. ágúst 1962. Hún lést á Sjúkrahúsinu í Neskaupstað 1. september 2023.

Foreldrar hennar eru Jóhanna Jóhannesdóttir, f. 24 ágúst 1931 og Bjarni Helgason, f. 6. júlí 1926, d. 25. ágúst 2007. Hafdís Bára var gift Guðjóni Guðjónssyni, f. 5 desember 1956, d. 20. júní 2020. Börn Hafdísar Báru og Guðjóns eru: 1) Guðbjörg Rós, f. 30. október 1981. Maki hennar Gunnar Óli Ólafsson, f. 16. maí 1980. Börn þeirra: a) Hafþór Helgi, fæddur 2013, b) Íris Elma, fædd 2016, c) Guðný Jóna Sól, fædd 2020. 2) Birkir Snær, f. 27. janúar 1986. Maki hans Katrín Lea Hjálmarsdóttir, f. 27. maí 1989. Börn þeirra: a) Hrafnhildur Sara, fædd 2013, b) Berglind Agla fædd 2017.

Hafdís var fimmta í röðinni af sjö systkinum; elstur er Erlingur, f. 1954, þá Sigrún, f. 1956, Jóhannes, f. 1958, Helgi, f. 1960, Steinunn, f. 1965 og loks Sigríður, f. 1973.

Hafdís Bára ólst lengst af upp í Selás í Reykjavík, uns hún flutti í Álfheima. Hún lauk grunnskólagöngu í Árbæjarskóla, en fór í framhaldi af því í Ármúlaskóla.

Hún fluttist til Fáskrúðsfjarðar 1980 og vann við ýmis störf: í sláturhúsi, síld, fiskvinnslu, póstútburð, símsvörun á Stöðvarfirði, í leikskóla, Olís á Reyðarfirði og Krónunni. Hafdís nam félagsliðann og hóf aftur störf við leikskólann árið 2015 ásamt því að byrja í námi í leikskólafræðum við Háskólann á Akureyri, þaðan sem hún útskrifaðist með B.Ed.-gráðu í leikskólakennarafræðum vorið 2018. Hún tók virkan þátt í félagsstörfum á Fáskrúðsfirði, var formaður frjálsíþróttadeildar Leiknis, sat um tíma í menningarmálanefnd Búðahrepps, var í línudansi, formaður Gallerý Kolfreyju, söng í kórum, lengst af í Kór Fáskrúðsfjarðarkirkju, svo eitthvað sé talið. Hún tók líka virkan þátt í undirbúningi og skipulagningu Franskra daga, ásamt börnum sínum.

Útförin fer fram frá Fáskrúðsfjarðarkirkju í dag, 8. september 2023, klukkan 14.

Kveðja frá bekkjarfélögum í Árbæjarskóla

Það er með miklum trega sem við kveðjum Hafdísi Báru bekkjarsystur okkar. Ekki síst vegna þess að fæst okkar náðu að kynnast henni almennilega sem fullorðinni konu í raunheimum. Kjarni bekkjarins okkar fylgdist að allan grunnskólann, þ.á m. Hafdís, og nutum við leiðsagnar aðeins tveggja bekkjarkennara, sem hlýtur að teljast fremur sjaldgæft. Þar var lagður grundvöllur að sterkum tengslum á meðal okkar sem hafa þróast yfir í mikla væntumþykju og kærleik með árunum. Hafdís Bára hafði þá sérstöðu í bekknum að mamma hennar var kennari við skólann og fjölskylda þeirra bjó í reisulegu húsi nánast á skólalóðinni! Það var ekki alveg laust við að maður öfundaði hana af þessari örstuttu leið í skólann.

Eins og gefur að skilja tvístraðist hópurinn að loknu grunnskólanámi, en smám saman höfum við náð að endurvekja gömul kynni. Bekkjarkennarinn okkar í gagnfræðadeildinni, Jón Þorvalds, og ekki síst samfélagsmiðlar hafa einna helst stuðlað að því. Jón hefur hvatt mjög til þess og átt ítrekað frumkvæði að því að hópurinn komi saman. Vegna búsetu sinnar austur á fjörðum hafði Hafdís ekki tök á að hitta okkur jafn oft og við hefðum kosið, en hún gerðist hins vegar vinur okkar flestra á facebook og á þeim vettvangi höfum við kynnst konu sem hafði unun af ferðalögum og náttúru Íslands. Hún var greinilega mikil fjölskyldukona sem naut samvistanna við barnabörnin. Alltaf var stutt í skop og skemmtilegheit. Við bundum vonir við að eiga eftir að kynnast Hafdísi betur nú þegar hægist um hjá flestum okkar og tækifæri til að hittast verða fleiri. Það hefði verið ljúft að rifja upp gamlar minningar frá þeim níu árum sem við fylgdumst að á grunnskólabekk.

Fyrir hönd bekkjarins votta ég aldraðri móður Hafdísar, börnum hennar og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð. Far vel okkar kæra.

Valdís.