Réttarfar Áform eru uppi um lagabreytingu og að heimila birtingu skjala með stafrænum hætti.
Réttarfar Áform eru uppi um lagabreytingu og að heimila birtingu skjala með stafrænum hætti. — Morgunblaðið/Hanna
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Í heildina erum við hjá Lögmannafélaginu fylgjandi þessum áformum og það má hugsa sér að gera kleift að birta stefnur í einkamálum með þessum sama hætti. Það er mikill kostnaður, óskilvirkni og tafir sem fylgja því fyrirkomulagi sem notað er í dag,“ segir Sigurður Örn Hilmarsson, hæstaréttarlögmaður og formaður Lögmannafélags Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Í heildina erum við hjá Lögmannafélaginu fylgjandi þessum áformum og það má hugsa sér að gera kleift að birta stefnur í einkamálum með þessum sama hætti. Það er mikill kostnaður, óskilvirkni og tafir sem fylgja því fyrirkomulagi sem notað er í dag,“ segir Sigurður Örn Hilmarsson, hæstaréttarlögmaður og formaður Lögmannafélags Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Leitað var álits hans á áformum dómsmálaráðherra sem er með í undirbúningi lagafrumvarp til breytinga á löggjöf um réttarfar sem felur m.a. í sér að heimila megi að birta ákærur og önnur skjöl við meðferð sakamála með stafrænum hætti. Frá því greinir í Samráðsgátt stjórnvalda þar sem boðið er upp á að gera athugasemdir við áformin.

Sigurður Örn bendir á að grundvallarréttindi fólks um réttláta málsmeðferð séu stjórnarskrárvarin og ekki eigi að gefa neinn afslátt af því.

Umtalsverð breyting frá gildandi lögum

Gangi áform dómsmálaráðherra eftir verður um að ræða umtalsverða breytingu frá gildandi lögum, en þar er kveðið á um að ákæra skuli vera í pappírsformi og þannig staðið að málum að hún sé birt ákærða af lögreglumanni, fangaverði eða öðrum starfsmanni, eða þá af stefnuvotti, nema hún sé birt á dómþingi af dómara. Eftir að ákæra í pappírsformi hefur verið birt ákærða kveða núgildandi reglur á um að hún sé afhent dómara ásamt birtingarvottorði.

Miðla gögnum stafrænt

Sömu reglur gilda um kvaðningu vitna og birtingu dóma, takist ekki að birta með öðrum hætti.

Í umfjöllun dómsmálaráðuneytisins um þessi áform segir að eftir breytingarnar eigi gildandi réttarfarslöggjöf ekki að standa í vegi fyrir því að unnt sé að miðla gögnum stafrænt á milli stofnana réttarvörslukerfisins. Skýrt verði kveðið á um með hvaða hætti birta megi tiltekin gögn sem áskilja strangan birtingarhátt fyrir borgurunum á stafrænan hátt. Því sé áformað að gera réttarfarslöggjöfina hlutlausa um afhendingarmáta gagna, heimila meðal annars notkun rafrænna undirskrifta, auk þess að heimila stafræna birtingu ákæra og annarra skjala við meðferð sakamála sem nú krefjast tiltekins birtingarmáta.

Nægir að skrá sig inn í pósthólfið

Hvað varðar aðferðir þegar kemur að því að birta ákærða ákæru er lagt til „að gagn (ákæra) teljist réttilega birt þegar það hefur verið birt í stafrænu pósthólfi og viðkomandi hefur skráð sig inn í pósthólfið, það er honum má vera kunnugt um gagnið og að hann geti kynnt sér efni þess,“ segir í skjali þar sem þessum fyrirætlunum er lýst og væntanlega vísað þar til vefsíðunnar island.is.

Talið auka skilvirkni og gegnsæi

Samkvæmt því virðist svo vera að ekki sé skylt að hinn ákærði lesi ákæruna, aðeins að viðkomandi hafi skráð sig inn í stafræna pósthólfið.

„Í grunninn er þetta spennandi verkefni, að færa réttarvörslukerfið inn í 21. öldina. Ég tel að þetta muni auka skilvirkni og gegnsæi, þannig að við erum fylgjandi þessum hugmyndum, en það skiptir auðvitað máli hvernig útfærslan er,“ segir Sigurður Örn.

Hann bendir á að ýmsum hugmyndum sé velt upp í skjali dómsmálaráðuneytisins þar sem þessum áformum er lýst. Skilji hann það rétt, þá eigi að vera nægjanlegt að birta skjöl með sendingu í stafrænt pósthólf og þau hafi réttaráhrif fari viðkomandi einstaklingur þangað inn. Hann segir að flestir séu komnir með stafrænt pósthólf og á einhverjum tímapunkti verði gert skylt að vera með slíkt pósthólf.

„En þangað til svo verður, þarf auðvitað að gæta þess að enginn sem á mögulega erfitt með að nýta sér þessa tækni, falli á milli skips og bryggju. Síðan geta verið sárafá mál sem geta verið einhvers konar takmarkatilvik og þá skiptir máli að til séu leiðir til að grípa þau,“ segir Sigurður Örn.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson