Guðrún Siglaugsdóttir (Gógó) fæddist á Akureyri 1. ágúst 1947.

Foreldrar hennar voru Guðfinna Sigríður Jónsdóttir, f. 17. desember 1920, d. 4. mars 2000, og Siglaugur Brynleifsson, f. 24. júní 1922, d. 8. febrúar 2003. Alsystkini hennar eru Ingibjörg, f. 1950, Sigþrúður, f. 1952, d. 2006, Brynleifur, f. 1953, Guðbrandur, f. 1956, Júlía, f. 1959, og Hallgrímur, f. 1961. Hálfsystkini samfeðra eru Þorsteinn, f. 1967, Dóróthea, f. 1968, og Brynleifur, f. 1970. Eiginmaður Guðrúnar var Sigurður Emil Ragnarsson, f. 12. september 1943, d. 5. september 2000. Þau eignuðust þrjú börn. 1. Ragnar Karl Sigurðsson, f. 1974, 2. Bryndís Sigurðardóttir, f. 1975, maki hennar er Karl Már Einarsson, f. 1977. Börn þeirra eru Samúel Már Kristinsson, f. 2000, sambýliskona Aníta Daðadóttir, f. 2002, og Einar Már Karlsson, f. 2010. 3. Hafdís Sigurðardóttir, f. 1981, sambýlismaður hennar er Arnar Már Guðmundsson, f. 1980. Guðrún ólst upp og bjó alla tíð á Akureyri fyrir utan eitt ár í Reykjavík á yngri árum. Guðrún kláraði landspróf og hélt svo út á vinnumarkaðinn.

Hún starfaði lengi í apóteki en lengst starfaði hún sem læknaritari á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, alveg til 67 ára aldurs þegar hún lét af störfum. Guðrún var mikil keppniskona á skíðum á sínum yngri árum og fylgdist alla tíð mikið með öllum íþróttum. Guðrún var virk í starfi eldri borgara á Akureyri síðustu ár sín.

Útför Guðrúnar verður gerð frá Akureyrarkirkju í dag, 8. september 2023, klukkan 13.

Nú hefur Gógó systir kvatt þetta jarðlíf. Eftir situr söknuður, þakkir og minningar. Þegar horft er til baka rifjast margt upp, hún var þremur árum eldri en ég, fædd 1. ágúst 1947.

Upp í hugann kemur hjólatúr frá Oddeyrargötu 24 og inn að Litla Garði á þríhjólum. Gógó níu ára, ég sex ára og Helga vinkona Gógóar þar í milli. Þetta er löng leið og það voru þreyttir og sárir fætur sem hlúa þurfti að er heim var komið.

Aðfangadagur. Við tvær elstu með þau systkini sem voru gönguhæf, hlaðnar jólapökkum á leið niður á Eyri til Ingu frænku og Öddu frænku. Þar þáðum við góðgerðir og hlaðnar pökkum komum við heim aftur og þá mætti okkur rauðkálslyktin, þessi dásamlega jólalykt.

Sumrin í Garðhúsum, frændfólkið í Holti og Holtskoti, hestaferðir. Eitt sinn komu menn að sunnan í heimsókn til pabba, meðferðis höfðu þeir flottar veiðigræjur. Nú átti að veiða í Kvíslinni. Gógó fékk að fara með, hún átti litla stöng, hún var sú sem veiddi, ekki hinir.

Unglingsárin. Vinkonurnar Edda og Svanhvít og sigling með Gullfossi. „Júllugleði“ voru níðþröngar buxur sem draga þurfti af Gógó og voru þær þyrnir í augum gömlu konunnar, hennar Júllu frænku. Allt gert til að tolla í tískunni. Í rúmt ár unnum við Gógó saman í Stjörnuapóteki, alltaf farið heim í mat eins og þá tíðkaðist.

Skíðin. Hún var flink á skíðum, mikil keppniskona. Hún hafði mig stundum með, þá sem ekkert kunni, upp í skíðahótel þar sem var gist. Gjarnan voru æfingar fyrir mót, á einni slíkri fótbrotnaði hún. Þá var til siðs að fólk lægi í rúminu og þá helst á spítala. Nei ekki kom það til greina, heim ætlaði hún og Inga systir gæti annast hana. Hún Gógó vissi hvað hún vildi.

Svo kynntist hún Sigga, þau giftu sig um jólin 1967. Fljótlega fóru þau að byggja í Espilundinum. Þar fengum við Pétur inni 1972 með Þórarin Inga nýfæddan þar til við fórum suður í áframhaldandi nám.

Börnin fæddust: Ragnar Karl 1974, Bryndís 1975 og Hafdís 1981. Barnauppeldi, heimilisstörf og ýmis vinna utan heimilis. Það var gangur lífsins. Árin liðu, heimsóknir, aðstoð við veisluhöld á báða bóga. Gógó átti prjónavél um tíma og framleiddi hún gammosíur, nærboli og peysur sem margir nutu. Svo lést Siggi og var það erfiður tími en Gógó stóð keik.

Seinni árin. Heimsóknir, ferðalög, berjaferðir og bókaskipti en Gógó las alltaf mjög mikið. „Ertu ekki að horfa?“ voru þau orð sem við sögðum þegar við hringdumst á og landsleikir voru í gangi. Hún fylgdist með nær öllum íþróttum í sjónvarpi. Eftir að við hættum báðar að vinna úti og báðar orðnar ekkjur vorum við sammála um það að stundum má maður bara gera ekki neitt.

Elsku Ragnar Karl, Bryndís, Hafdís og fjölskyldur. Innilegar samúðarkveðjur frá mér og mínum. Minningin lifir.

Far þú í friði kæra systir, friður Guðs þig blessi og þakkir fyrir allt og allt.

Þín systir,

Ingibjörg (Inga).

Hún var alltaf mikil tilhlökkunin hjá okkur systkinum þegar við vorum lítil og til stóð að heimsækja frændfólk okkar fyrir norðan. Sérstaklega þó Gógó og Sigga og frændsystkinin Ragnar Karl, Bryndísi og Hafdísi og sennilega er ekki ofmælt að þau hafi verið okkur nánust af öllu frændfólki okkar. Þau komu líka reglulega í heimsókn til okkar suður og voru þá alltaf fagnaðarfundir. Bæði var það tilhlökkunarefni að hitta frændsystkinin sem voru á sama aldri og við en ekki síst að fá að spjalla við Gógó og Sigga um heima og geima. Nú eru þau bæði farin til betri heims; Siggi lést haustið 2000 og í dag verður Guðrún Siglaugsdóttir, sú yndislega kona sem alltaf var kölluð Gógó, borin til grafar.

Minningarnar hellast yfir, sér í lagi þegar kallið kemur skyndilega og maður hefur ekki náð að búa sig undir sorgartíðindin. Heimsóknir okkar til Gógóar og fjölskyldu á Akureyri þegar við vorum lítil og heimsóknir þeirra suður, sumarbústaðaferðir í Brekkuskóg eða Ölfusborgir eða heimsóknir hennar í bæinn á síðari árum. Allt eru þetta góðar minningar og það sem upp úr stendur er að Gógó var alltaf sjálfsagður hluti af fjölskyldu okkar. Hún var frænka okkar en fyrir okkur var hún ekki Gógó frænka heldur einfaldlega bara Gógó og einhvern veginn svo miklu meira en „bara“ frænka. Það kom heldur aldrei annað til greina en að koma við hjá Gógó þegar farið var til Akureyrar. Hjá Gógó leið manni vel og hún var enda höfðingi heim að sækja og var oft blásið til skyndiveislu þegar eitthvert okkar bar að garði, jafnvel þó um óvænta heimsókn væri að ræða.

Hún var lífsglöð kona og hafði fjölmarga kosti. Sem dæmi má nefna að í æsku var Gógó afrekskona á skíðum en það segir margt um mannkosti hennar að hún grobbaði sig aldrei af afrekum sínum. Hún var dugnaðarforkur og þegar Siggi maður hennar dó fyrir nærri aldarfjórðungi sýndi hún aðdáunarverðan styrk og var börnum sínum stoð og stytta.

Með Gógó er gengin yndisleg kona sem við munum öll sakna. Mestur er þó missir barna hennar þriggja, þeirra Ragnars Karls, Bryndísar og Hafdísar, og ömmudrengjanna tveggja og vottum við okkar kæru frændsystkinum og fjölskyldum þeirra innilega samúð okkar. Minningin um Gógó mun alltaf lifa og hún var sannarlega einstök manneskja. Blessuð sé minning hennar.

Sverrir, Ingi Björn og Edda.

Elsku Gógó, hvar á maður eiginlega að byrja?

Þrátt fyrir að tíminn hafi flogið áfram seinustu árin og heimsóknirnar orðið færri þá á ég ekki erfitt með að rifja upp margar góðar minningar með þér.

Allar heimsóknirnar í æsku þar sem maður beið spenntur eftir að sitja við eldhúsborðið og borða endalaust af rækjusalati og oftar en ekki áttir þú líka til kók með því, sem var auðvitað ákveðinn hápunktur. En svo til að toppa það var oftast tekin fram kaka í eftirrétt, kaka sem var alltaf kölluð Gógóarterta því hún var alltaf í boði hjá þér. Hvítur brauðbotn með perum og þykku rjómasúkkulaðikremi ofan á, nammi namm! Gógóarterta og rækjusalat með kóki mun alltaf minna mig á þig og stundirnar sem við áttum við eldhúsborðið í Rauðumýri.

Það er ein önnur minning sem ég get ómögulega gleymt og ég hugsa ennþá um og get ekki annað en hlegið.

Það var um verslunarmannahelgina árið 2004 ef mig misminnir ekki. Ég og vinkonur mínar höfðum einhvern veginn fengið foreldra okkar til að leyfa okkur að fara á Halló Akureyri, en þar sem við vorum bara 15 ára máttum við að sjálfsögðu ekki gista á tjaldstæðinu. Ég fékk þá frábæru hugmynd að spyrja hvort við mættum ekki gista í garðinum hjá þér og einhverra hluta vegna varðst þú við þeirri beiðni okkar. Þarna mættum við sex 15 ára stelpur með tjöld á föstudeginum til að tjalda í garðinum þínum. Ekki nóg með það því í lok helgarinnar hafði íbúatalan í tjöldunum aukist úr sex í níu þar sem þrír aukagestir af hinu kyninu höfðu bæst í hópinn. Og þessir aukagestir þorðu að sjálfsögðu ekki að fara inn til að nota klósettið hjá frænku hennar Evu! Ég mun aldrei fá að vita nákvæmlega hvað þér fannst um þetta hátterni hjá frænku þinni og vinkonum hennar en ég man að minnsta kosti ekki eftir miklum skömmum, bara kannski smá tiltali um ákveðna virðingu og að garður væri ekki salerni, sem átti auðvitað 100% rétt á sér og ég mun seint skilja af hverju það var ekki gert meira mál úr þessu. Þú ranghvolfdir sjálfsagt augunum yfir þessum unglingum úti í garðinum þínum þegar við sáum ekki til.

Síðasta minningin var aðeins nokkrum dögum áður en þú lést þegar þú komst suður í brúðkaupið mitt. Þú varst fyrsti gesturinn sem ég hitti þennan dag, við náðum að spjalla aðeins saman meðan við biðum eftir restinni af gestunum, eftir á að hyggja var þessi stund okkar saman svo dýrmæt. Seinna um kvöldið komstu svo og kvaddir mig og ég fékk gott Gógóarknús sem ég vissi ekki þá að væri síðasta knúsið okkar, því nokkrum dögum seinna fæ ég samtal um að þú sért látin, það sem heimurinn getur verið óútreiknanlegur og ósanngjarn. Þú varst tekin of fljótt frá okkur og maður finnur það eftir á að maður átti eftir að ná almennilegu rækjusalatsspjalli með glasi af kóki við eldhúsborðið þitt og ræða allt milli himins og jarðar.

Mig langar að enda þessa grein á því sem þú skrifaðir í gestabókina í brúðkaupinu: „Njótið allra daga, Gógó.“

Elsku Gógó frænka takk fyrir allt!

Þín frænka,

Eva Ýr Óttarsdóttir.

Gógó er dáin. Andlátsfregnin var óvænt, kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ég er varla búinn að átta mig á því enn að hún sé sönn, enn síður að sætta mig við hana. Við töluðum síðast saman í síma hinn 14. ágúst og þá var hún eins og hún átti að sér að vera, hress og kát. Viku seinna var hún öll.

Mér finnst ég hafa þekkt Gógó frá því ég man fyrst eftir mér. Við vorum systrabörn, systurnar mæður okkar jafnan samrýmdar, mikill samgangur var á milli heimilanna og við höfðum frá því fyrsta mikið saman að sælda. Á fyrstu árunum lékum við okkur mikið saman, oft með öðrum frændsystkinum, og á unglingsárum lágu leiðir okkar tíðum saman í ýmsum viðfangsefnum. Þar er margs að minnast sem ekki verður upp talið hér en á seinni árum bar fundum okkar sjaldan saman án þess að rifjuð væru upp tvö ævintýri sem voru okkur báðum einkar minnisstæð. Hið fyrra var þegar við vorum tvö ein að baksa við að taka upp kartöflur af margra hektara akri vestur í Skagafirði. Þar skriðum við unglingarnir rennblautir í moldinni, höfðum ekki önnur verkfæri en fötur og fingurna, allan tímann í hellirigningu og haustkulda. Þarf varla að taka fram að uppskeran var lítil þótt við legðum okkur öll fram. Hið síðara var þegar við að uppástungu Gógóar leigðum bílaleigubíl í Reykjavík haustið 1965 og buðum systrunum mæðrum okkar í „sunnudagsbíltúr“ á bernskuslóðir þeirra austur á Stokkseyri. Þær „gömlu“ geisluðu af kátínu, höfðuð hvorug komið á Stokkseyri í áraraðir, og við Gógó urðum margs vísari, hittum meðal annars nákomna ættingja sem við höfðum ekki hugmynd um að væru til!

Eftir að ég flutti suður yfir heiðar urðu samfundirnir vitaskuld stopulli en þráðurinn slitnaði aldrei, styrktist jafnvel ef eitthvað var. Þær Elín kona mín urðu strax góðar vinkonur og Sigga, mann Gógóar, þekkti ég dável frá fyrri tíð. Við skiptumst ávallt á heimsóknum þegar færi gafst og fórum oftar en einu sinni saman með börnin í sumarbústaði. Þar skemmtu allir sér vel, börnin náðu vel saman og fullorðna fólkið ekki síður.

Hún Gógó frænka mín var mikil afreksmanneskja, ein af þessum hljóðlátu íslensku hvunndagshetjum. Hún var bráðgreind og vel lesin, dugnaðarforkur sem vildi öllum vel. Hún var móður sinni stoð og stytta á erfiðum tímum og þegar hún varð skyndilega ekkja sýndi hún ótrúlegt þrek og sálarstyrk.

Guð blessi minningu Gógóar. Hennar er sárt saknað af öllum sem henni kynntust og mestur er missir barna hennar og ömmustrákanna tveggja, Samúels og Einars Más. Við Ella sendum þeim og öllum öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Jón Þ. Þór.