Armenar leita eftir skjóli annars staðar og halda heræfingu með Bandaríkjunum

Sá órói sem innrás Rússa í Úkraínu hefur valdið í heimsmálunum hefur teygt anga sína víða, og þá ekki síst til annarra ríkja sem Rússar telja vera innan síns áhrifasvæðis. Undanfarnar vikur hefur til dæmis spennan í samskiptum Armeníu og Aserbaísjan snaraukist, og gætu vopnuð átök hafist á milli ríkjanna í annað sinn frá árinu 2020.

Deilur Armena og Asera hafa staðið yfir með hléum allt frá lokum fyrri heimsstyrjaldar, þó að lengi vel hafi ægishjálmur Sovétríkjanna náð að halda þeim niðri. Þegar Sovétríkin byrjuðu að leysast upp í lok 9. áratugarins blossuðu deilurnar hins vegar upp á ný. Helsta bitbein ríkjanna tveggja var Nagorno-Karabakh-hérað, sem tilheyrir Aserum þó að Armenar séu þar í meirihluta.

Deilurnar leiddu að lokum til stríðs sem stóð yfir næstu tvö árin, eða þar til Rússar gripu inn í og knúðu fram vopnahlé í maí 1994. Frá þeim tíma hafa rússneskir „friðargæsluliðar“ séð um að halda spennunni niðri, en að öðru leyti voru engar varanlegar lausnir á deilum ríkjanna settar fram.

Armenar hafa því um langa hríð treyst mjög á Rússa sem nokkurs konar „stóra bróður“ beggja ríkja, sem gæti komið í veg fyrir að þau færu í blóðug átök. Rússar hafa til að mynda selt báðum ríkjum vopn, og bæði ríki hafa átt í töluverðum viðskiptum við Rússland undanfarna áratugi. Armenar hafa þó hallað sér meira að Rússum en Aserar hafa gert, sem sést meðal annars á því að Armenía gekk til liðs við „varnarbandalagið“ CSTO, en Aserbaísjan ekki.

Nokkuð reyndi á það hlutverk Rússa árið 2020 þegar Aserar ákváðu að nóg væri komið af sjálfræði Nagorno-Karabakh-héraðs. Náðu Aserar þar á rúmlega fjörutíu dögum að umkringja héraðið og hirða mikið af því landi sem Armenar höfðu áður haft á sínu valdi í nágrenninu.

Undanfarna níu mánuði hafa Aserar svo komið í veg fyrir að Armenía geti sent matvæli og aðrar vistir til héraðsins í gegnum Latsjín-skarðið svonefnda, þrátt fyrir að rússneskt friðargæslulið eigi að sjá til þess að það haldist opið. Þá eru ýmis teikn á lofti um að Aserar undirbúi nú aðra sókn gegn Armenum og Nagorno-Karabakh-héraði, en þeir hafa safnað liði á landamærum ríkjanna.

Þessi þróun hefur vakið ugg í Armeníu og um leið ákveðna reiði gagnvart Rússum, sem hafi að mati Armena brugðist öryggishlutverki sínu. Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu, lýsti því yfir á sunnudaginn að það hefðu verið mistök hjá Armenum að treysta alfarið á Rússa um vernd. Sagði Pashinyan í viðtali við ítalska dagblaðið La Repubblica að svo virtist sem Rússar vildu draga sig frá Kákasusríkjunum, þar sem þeir teldu Armena ekki hafa stutt nægilega við bakið á sér.

Þá sagði Pashinyan að erfiðara væri fyrir Armena að útvega sér vopn og skotfæri frá Rússum, þar sem þeir væru nú ekki aflögufærir. Vísaði hann þar til þess að átökin í Úkraínu hafa gleypt í sig hernaðarmátt Rússa.

Þetta eru ekki einu skilaboðin sem Armenar hafa sent Rússum að undanförnu. Í vikunni var til dæmis tilkynnt um fyrstu mannúðaraðstoðina sem Armenía ætlar að senda til Úkraínu, auk þess sem Pashinyan greindi einnig frá því að Bandaríkjaher og Armenar ætluðu sér að halda sameiginlegar heræfingar í næstu viku.

Heræfingin sem slík verður ekki stór þar sem í henni verða einungis um 260 fótgönguliðar frá báðum ríkjum. Engu að síður felast í henni risastór skilaboð frá Armenum um að þeir geti ekki lengur reitt sig á Rússa, og að því sé kominn tími til að leita skjóls annars staðar. Verða þau skilaboð ekki minni í ljósi þess að Armenar neituðu fyrr á árinu að halda sameiginlegar heræfingar með hinum CSTO-ríkjunum í Armeníu.

Viðbrögð Peskovs, umræðustjóra Kremlverja, við heræfingunum benda enda til þess að þar á bæ sé mönnum nokkuð brugðið. Hver viðbrögð Rússa verða hins vegar er algjörlega á huldu, sér í lagi ef þriðja stríðið brýst út á milli Armeníu og Aserbaísjan á næstunni.