Pétur Stefánsson sendi mér póst á þriðjudag: Þar sem enn er sumarveður hér á landi, en haustið handan við hornið, er ekki úr vegi að gauka að þér þessum vísum: Indælt sumar ennþá lifir, okkar gleður þjóð

Pétur Stefánsson sendi mér póst á þriðjudag: Þar sem enn er sumarveður hér á landi, en haustið handan við hornið, er ekki úr vegi að gauka að þér þessum vísum:

Indælt sumar ennþá lifir,

okkar gleður þjóð.

Hellist bráðum heiminn yfir

haustsins litaflóð.

Sumri hallar, hausta fer,

hnignar allur ljóminn.

Laufin falla. Hrörna hér

heimsins vallar blómin.


Sigurbjörn Bergþórsson hét bóndi á Svarfhóli í Dölum, hagyrðingur góður. Eitt sinn kom hann að kvöldlagi á nágrannabæ, en rak höfuðið hastarlega í kvörn eina sem sett hafði verið inn í bæjargöngin, en skuggsýnt var orðið. Vankaður kastaði Sigurbjörn vísu á heimafólkið:
Geng ég inn göngin,
rek ég mig í kvörnina,
ég er eins og jólatré,
ég er í hreppsnefndinni.
Landsfleyg varð vísan, þó furðuleg þætti, heimamenn töldu Sigurbjörn mögulega hafa verið kenndan, en höfuðhöggið hefur hrist rækilega upp í bragarháttum og rími karlsins.
Kristján Samsonarson hét bóndi á Bugðustöðum í Hörðudal, og lifði fram á okkar öld, fljúgandi mælskur og snillingur á bundið mál. Eitt sinn orti hann um lappalangan ráðunaut sem hann hafði heyrt mæla með fótstuttu sauðfé:
Tæki hann mál af sjálfum sér,
síst hann hlyti lofið,
hrelling fyrir herrann er,
hæðin upp í klofið.
Borgfirðingurinn Guðmundur Böðvarsson gat ekki orða bundist þegar hann hugsaði um himnareisu Þorsteins sýslumanns Dalamanna Þorsteinssonar, en Þorsteinn var ötull bókasafnari og snuddaði oft í bókum á bæjum:

Fallega Þorsteinn flugið tók,

fór um himna kliður.

Lykla-Pétur lífsins bók,

læsti í skyndi niður.

Á Boðnarmiði segir Steindór Tómasson: Sá þetta góða heilræði á netinu. Mun vera skagfirskur húsgangur:

Illt er að halla á ólánsmann,

og ætti varla að gera.

Það hafa allir eins og hann

einhvern galla að bera.

Ólafur Stefánsson yrkir limru við fallega ljósmynd: Hekla svo blá:

Ég fyllist fortíðarþrá:

Þegar veröldin var ekki grá,

en flest lék í lyndi,

í laufgrænum vindi ,

og Hekla svo heitfeng og blá.

Herdís Andrésdóttir kvað:

Þegar margt vill móti ganga,

mæða treinist flest,

til að stytta stundir langar

stakan reynist best.

Þó að stundum heima í hljóði

hugann þreyti margt

finni ég yl af ljúfu ljóði

lífið verður bjart.

Enn kvað Herdís:

Oftast svellin örlaga

illum skellum valda,

fyrir brellum freistinga

fáir velli halda.

Fallvaltleiki eftir Bjarna frá Gröf:

Eikur falla, eyðist vín,

ung vill spjallast meyja fín,

maður hallast, máttur dvín,

moldin kallar allt til sín.