Perlan Stærð hússins og tanka er um 5.800 fermetrar og er það metið á tæpa 4 milljarða króna. Borgarfulltrúi segir sölu tankanna varhugaverða.
Perlan Stærð hússins og tanka er um 5.800 fermetrar og er það metið á tæpa 4 milljarða króna. Borgarfulltrúi segir sölu tankanna varhugaverða. Morgunblaðið/Árni Sæberg
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær að heimila eignaskrifstofu borgarinnar að hefja söluferli á eign Reykjavíkurborgar í Perlunni auk tveggja vatnstanka í Öskjuhlíð við Varmahlíð 1. Stærð hússins og tanka er um 5.800 fermetrar og er fasteignamat 3.942.440.000 krónur

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær að heimila eignaskrifstofu borgarinnar að hefja söluferli á eign Reykjavíkurborgar í Perlunni auk tveggja vatnstanka í Öskjuhlíð við Varmahlíð 1. Stærð hússins og tanka er um 5.800 fermetrar og er fasteignamat 3.942.440.000 krónur.

Meirihlutaflokkarnir, Samfylkingin, Framsókn, Píratar og Viðreisn, lögðu fram tillöguna og samþykktu hana svo ásamt atkvæði frá Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins.

Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokksins, Trausti Breiðfjörð Magnússon, kaus gegn tillögunni en Kjartan Magnússon, borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sat hjá.

Fengu stuttan fyrirvara

Kjartan segir í samtali við Morgunblaðið að hann sé ekki mótfallinn sölu Perlunnar heldur sölunni á tveimur vatnstönkum sem eiga að fylgja með. Þeir geti reynst mikilvægir til að tryggja orkuöryggi borgarbúa, sérstaklega ef áherslan á þéttingu byggðar í vesturhluta borgarinnar gangi eftir.

„Menn voru ekki að byggja þessa tanka að gamni sínu. Þeir höfðu framsýni til að sjá að borgin myndi vaxa og dafna og að ef byggð myndi þéttast þá þyrfti að minnsta kosti einn miðlunartank til viðbótar,“ segir Kjartan og bætir við að í slæmum kuldaköstum hafi ekki mátt miklu muna að grípa hefði þurft til þess ráðs að loka fyrir ákveðna þjónustu eins og aðgengi að sundlaugum. Við alvarlegar bilanir í kerfinu gætu vatnstankarnir reynst nauðsynlegir. Hann gagnrýnir einnig hversu lítinn fyrirvara borgarráð fékk til að meta tillöguna og gögnin sem með henni fylgdu en dagskráin lá fyrir á miðvikudag.

„Það ber vott um örvæntingu af hálfu meirihlutans hvernig hann keyrði þessa afgreiðslu í gegn,“ segir Kjartan og veltir því fyrir sér hvort þetta sé gert af meirihlutanum vegna slæmrar rekstrarniðurstöðu borgarinnar á fyrri hluta þessa árs.

Sósíalistar voru mótfallnir sölunni sökum þess að reksturinn hefði skilað borginni tekjum síðustu ár.

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson