Baldvin Páll Óskarsson fæddist 18. maí 1955 í Reykjavík. Hann lést 23. ágúst 2023 á Landspítalanum í Fossvogi.

Foreldrar hans voru Óskar Guðlaugsson, f. 31. janúar 1931, d. 18. desember 1984, og Dýrleif Jónína Tryggvadóttir, f. 5. apríl 1929, d. 13. janúar 2015.

Systkini Baldvins eru Guðlaugur Tryggvi, f. 1952, d. 2017, óskírður drengur, f. 1957, d. 1957, Sigurlín Rósa, f. 1959, Óskar Jósef, f. 1960, og Anna Elín, f. 1963.

Baldvin eignaðist dóttur með Hafdísi Gerði Guðmundsdóttur, Huldu Ósk, f. 1977, sambýlismaður hennar er Óskar Gunnarsson, f. 1977. Börn Huldu eru Arnór Þorri, f. 2004, Þorvaldur Borgfjörð, f. 2007, Ýr, f. 2008, og Elías, f. 2017. Baldvin bjó um tíma með Sigrúnu Pálmadóttur, dætrum hennar og barnabarni, Arnari Atla.

Baldvin ólst upp í Vogahverfinu í Reykjavík og gekk í Vogaskóla. Hann vann við bílaviðgerðir hjá Hemlastillingu og Bílastöðinni í mörg ár og sín síðari ár vann hann við smíðar.

Baldvin Páll verður jarðsunginn frá Langholtskirkju í dag, 8. september 2023, klukkan 13.

Allt líf tekur enda, ekkert endist að eilífu. Þó að lífi okkar ljúki og formið liggi andvana þá lýkur því í raun aldrei því andinn fer hvergi. Hann lifir í minningum þeirra er eftir standa. Þótt Balli bróðir sé mér horfinn að formi til þá lifir hann í anda í minningum mínum. Það er margs að minnast enda fylgdumst við að í á sjöunda áratug.

Við Balli vorum svo lánsamir að við deildum ástríðu fyrir fótbolta og var það taugin sem tengdi okkur alla tíð. Balli æfði á sínum yngri árum með KR við ágætan orðstír og var því alla tíð dyggur stuðningsmaður KR og fór oft á leiki með þeim. Við bræður spiluðum innanhússfótbolta vikulega í góðum hópi félaga í áratugi. Vorum lengi í Gerpluhúsinu í góðum og þéttum hópi af skemmtilegum félögum og seinni árin vorum við í ýmsum sölum borgarinnar.

Balli hafði mikið keppnisskap og var fylginn sér í leikjum. Hann var alla tíð lítið fyrir það að tapa en það er jafnan fylgifiskur þess að hafa mikið keppnisskap. Orðatiltækið enginn er annars bróðir í leik er margsannað, það veit ég. Eina litla sögu kann ég af Balla þegar ég er 10 eða 11 ára og hann þá 15 til 16 ára. Ég hafði farið upp á Sólheimavöll, sem var mikið sóttur af krökkum í Vogahverfinu á þessum tíma. Var í félagi við vin minn úr blokkinni heima og stóðum við við hliðarlínuna. Það var einhver hópur af strákum þarna hjá okkur líka. Tóti, strákur litlu eldri en ég, snýr sér að mér og segir: „Heldur þú að þið fáið að vera með?“ „Ég ætla að fá að spila með bróður mínum, hann er inni á vellinum núna,“ svara ég. „Hver er bróðir þinn?“ spyr Tóti þá. „Bróðir minn heitir Balli,“ svara ég. „Er Balli „balance“ bróðir þinn?“ spyr Tóti þá og lítur á mig vantrúaður. „Já,“ svara ég og bora tánni í malarvöllinn. „Hann heitir reyndar Baldvin Páll.“ Þetta var mér alla tíð minnisstætt og skildi ég kannski ekki þarna á þessari stundu hversu skemmtilegt það var að Balli þótti það góður að verðskulda viðurnefni. Góðir íþróttamenn hafa jafnan fengið viðurnefni og er Balli fullsæmdur af sínu. Allir fótboltamenn þrá að hafa gott jafnvægi eða „balance“.

Kæri bróðir, ég óska þess að þú hafi fundið jafnvægi þar sem þú ert núna og seinna en örugglega samt þá tökum við leik á Bæjartúninu, notum peysurnar okkar til að gera mörk og skorum á einhverja sem þora í tveir á móti tveim.

Í fyllingu tímans

þegar grasið hefur skotið rótum

vitja ég þín

um nónbil á sólskinsdegi

eyði með þér stund

fylli minningu þína lífi

með trega þess er saknar

Þinn bróðir,

Óskar Jósef.

Elsku Balli, mikið er sárt og ósanngjarnt að þurfa að kveðja þig.

Síðustu daga hef ég hugsað mikið um liðin ár og ég er svo óendanlega þakklát fyrir hvað við áttum gott samband og minningarnar því ansi margar.

Fyrsta minningin sem ég man eftir er þegar ég var hjá ömmu og þú varst að horfa á Manchester United-leik og bjóst til popp í potti, besta popp sem ég hef smakkað.

Við áttum það sameiginlegt að hafa mikinn áhuga á tilboðum og drasli sem okkur fannst sniðugt.

Þú pantaðir oft marga hluti og beiðst spenntur eftir að koma og sýna okkur, eins og bláu fínu sokkana sem reyndust svo vera kvenmannsnælonsokkar, það var mikið hlegið.

Við áttum eftir að gera svo margt.

Við vorum oft búin að tala um að fara til Vestmannaeyja til að kíkja á gamla pósthúsið og eldgosasafnið, leigja okkur hopphlaupahjól, setja upp nýja símann þinn og tölvuna

Ég vildi óska þess að við hefðum náð að gera þetta allt.

Elsku besti frændi minn, takk fyrir allt, þín verður sárt saknað.

Þín frænka,

Halldóra Ósk.

Sérhver draumur lifir aðeins eina nótt.

Sérhver alda rís en hnígur jafnan skjótt.

Hverju orði fylgir þögn – og þögnin
hverfur allt of fljótt.

En þó að augnablikið aldrei fylli stund

skaltu eiga við það mikilvægan fund

því að tár sem þerrað burt – aldrei nær að græða grund.

Þú veist að tímans köldu fjötra enginn flýr.

Enginn frá hans löngu glímu aftur snýr.

Því skaltu fanga þessa stund – því fegurðin í henni býr.

Líttu sérhvert sólarlag,

sem þitt hinsta væri það.

Því morgni eftir orðinn dag

enginn gengur vísum að.

(Bragi V. Skúlason)

Nú kveðjum við þig, elsku Balli, í hinsta sinn. Þetta er sárara en tárum taki

en við vitum að það verður tekið vel á móti þér.

Elsku Hulda, Óskar, Arnór, Þorvaldur, Ýr og Elías, ykkar missir er mikill og vottum við ykkur okkar innilegustu samúð.

Anna Elín Óskarsdóttir,Sigurlín Rósa Óskarsdóttir.