Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Telur þú að það þýði eitthvað fyrir erlent fyrirtæki að leita réttar síns gagnvart íslenska ríkinu fyrir íslenskum dómstólum?

Vilhjálmur Bjarnason

Fyrr í sumar sat ég kvöldverð með ágætum manni frá Austurríki. Þessi ágæti maður átti hlut í fyrirtæki sem starfaði á Íslandi en var með heimilisfesti í Evrópulandi.

Ástæða þess að maðurinn vildi ræða við mig, áhrifalausan auðnuleysingja, er sennilega sú að sameiginleg vinkona okkar í New York telur að seta mín á Alþingi og margra ára rýni á íslenskt samfélag geti eitthvað hjálpað gestinum í einfaldri glímu við íslenskt stjórnarfar.

Fyrirtæki það sem gesturinn starfrækir í Evrópu og á Íslandi skrifaði íslenskum stjórnvöldum fyrir um tveimur árum og ítrekaði skrifin nokkrum sinnum án þess að fá svar.

Samtalið rifjaði upp annað mál, sem ritara var nokkuð kunnugt.

Hremmingar ritara

Sá er þetta ritar hefur svo sem lent í svipuðum hremmingum. Málið varðaði fyrirspurn til stjórnvalds með ábendingu um misfellur í eftirlaunasjóðsræksni, sem undir stjórnvaldið heyrði. Eftirlaunasjóður þessi var án stjórnar en sjálfskipaðir stjórnarherrar tóku mjög íþyngjandi ákvarðanir gagnvart sjóðfélaga.

Stjórnvaldið beitti alkunnri tafatækni, ekki einu sinni aðferð formsatriða, heldur beið þess að mótaðili þess dræpist. Þá gæti ráðuneytisstjórinn sagt: „Sáuð þið hvernig ég tók hann!“

Eftir tveggja ára bið gafst ritari upp og beindi erindi sínu til umboðsmanns Alþingis. Þá kom eftirfarandi í ljós: Bankaeftirlitið hafði hleypt í gegn ársreikningum án staðfestingar stjórnar, enda hafði eftirlaunasjóðurinn starfað án stjórnar í átta ár og sjóðurinn var starfræktur án staðfestrar reglugerðar. En lífeyris- og eftirlaunasjóðir skulu leita staðfestingar á reglugerð hjá fjármálaráðuneytinu.

Sjálfskipaðir stjórnarherrar

Annar þessara sjálfskipuðu stjórnarherra í eftirlaunasjóðnum var þekktur vanskilamaður. Vanskil hans voru honum þó ekki áhyggjuefni. Hinn stjórnarherrann var starfsmannastjóri í Íslandsbanka/Glitni. Ráðuneytið sem í hlut átti beindi öllum fyrirspurnum til þessara stjórnarherra.

Ritari þurfti að bíða í tæpt hálft ár eftir leiðréttingu og endurgreiðslu á ofteknum vöxtum, eftir að niðurstaða umboðsmanns Alþingis lá fyrir. Þegar greiðsla loksins barst spurði ritari starfsmannastjóra Íslandsbanka/Glitnis hverju það sætti að ekki væri beðist afsökunar á margendurteknum töfum og öðru háttalagi. Einfalt svar úr síma hjá Íslandsbanka/Glitni var eftirfarandi: „Það þarf ekki að biðja mann eins og þig afsökunar.“ Tæpast telst þetta virðingarverð opinber stjórnsýsla!

Upprifjun

Það sem hér hefur verið sagt er einungis upprifjun og til áminningar. Viðlíka stjórnarfar tíðkast enn, þrjátíu árum síðar.

Áleitin spurning

Hinn útlendi gestur spurði ritara áleitinnar spurningar: „Telur þú að það þýði eitthvað fyrir erlent fyrirtæki að leita réttar síns gagnvart íslenska ríkinu fyrir íslenskum dómstólum?“

Þessi spurning er dálítið ógnvænleg! Er það virkilega svo að íslenskir dómstólar horfi til þjóðernis málsaðila? Er það virkilega svo að íslenskir dómstólar telji sig eiga að vernda íslenska ríkið vegna afglapa íslenskra valdsmanna?

Það rifjaðist upp fyrir ritara að eitt sinn á þingferli hans var til umræðu frumvarp til laga um „stöðugleikaframlag“ og „stöðugleikaskatt“, hvort tveggja vegna upplausnar á eigum þrotabúa íslenskra banka.

„Stöðugleikaskattur“ var þrautavaraúrræði ef um „stöðugleikaframlag“ semdist ekki, sem var vægara úrræði gagnvart kröfuhöfum fallinna íslenskra banka.

Einn þingmaður vildi ganga hreint til verks með „stöðugleikaskatti“, sem var hreint eignarnám. Rökstuðningur þingmannsins var sá að hann sæi ekki fyrir sér að íslenskir dómstólar myndu dæma gegn hagsmunum íslenska ríkisins eða löggjöf sem Alþingi hafi samþykkt. Sennilega hefur þessi þingmaður fengið þá ídeu að hann vildi gera betur en vel, en þá fer alltaf illa.

Þetta sjónarmið hefur verið lögtekið í Ísrael en getur ekki verið viðurkennt sjónarmið í landi sem vill kenna sig við réttarríki.

Vert er að minnast þess að vegna sjónarmiða neyðarréttar töldu íslenskir dómstólar réttlætanlegt að gera innlán í íslenskum bönkum að forgangsréttarkröfum, að mestu leyti á kostnað krafna vegna skuldabréfa, enda væri sú ráðstöfun gerð til að viðhalda allsherjarreglu og afstýra neyðarástandi. Og að vægari ráðstöfun dygði ekki. Almenningur, sveitarfélög og fyrirtæki nutu þessarar ráðstöfunar en íslenska ríkið með óbeinum hætti, með því að ekki varð allsherjarlömun á samfélaginu.

Fyrir hverja eru dómstólar?

En fyrir hverja eru þá dómstólar? Svar við þessari spurningu er einfalt: Dómstólar eru til þess að vernda hinn smáa fyrir hinum stóra. Dómstólar eru ekki til þess að vernda ríkisvald, nema ef vera skyldi að viðhalda allsherjarreglu þegar ógn steðjar að. Sú ögn steðjar ekki að ríkinu eða stjórnvaldi þess, heldur að þegnum ríkisins. Stjórnarherrar njóta engrar sérstakrar verndar fyrir axarsköftum sínum eða sinna embættismanna.

Synd og iðrun

„Aldrei verður maður gripinn jafnsárri iðrun og þegar maður hefur setið sig úr færi við að syndga. Ólán heimsins er sprottið af því mennina skortir hugrekki til að syndga.“ Svo orðaði hugsun sína og mælti hún Jófríður.

Fulltrúum ríkisvalds finnst oft að þeir hafi skynsemina að vopni, „því eitthvað er eðlilegt“. Það sem er eðlilegt þarf að styðjast við málefnalegar ástæður en ekki „eðlilega skynsemi Indriða“.

Réttlæti

Ágætur dómari lagði ungum dómara lífsreglurnar í upphafi dómaraferils: „Hvar liggur réttlætið? Þegar það er fundið er það hin rétta niðurstaða, sem stefna ber að, ef það er unnt eftir laganna leiðum.“

„Réttlætið er köld dygð og ef hún sigrar verður fátt eftir til að lifa fyrir í mannheimi,“ segir Ólafur vinur minn.

Höfundur var alþingismaður.