[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óli Valur Ómarsson, leikmaður Sirius í Svíþjóð, tryggði Íslandi sigur á Finnlandi, 3:2, í vináttulandsleik 21-árs landsliða í fótbolta í Turku í gær með marki á síðustu mínútu leiksins

Óli Valur Ómarsson, leikmaður Sirius í Svíþjóð, tryggði Íslandi sigur á Finnlandi, 3:2, í vináttulandsleik 21-árs landsliða í fótbolta í Turku í gær með marki á síðustu mínútu leiksins. Íslenska liðið var undir, 1:0, þegar 15 mínútur voru eftir en átti frábæran endasprett. Eyþór Aron Wöhler og Davíð Snær Jóhannsson skoruðu tvö fyrri mörkin og Eyþór lagði upp sigurmarkið fyrir Óla Val.

Þórður Þórðarson tilkynnti í gær 20 manna hóp 23-ára kvennalandsliðsins í fótbolta sem sækir Marokkó heim og leikur tvo vináttulandsleiki í Rabat 22. og 25. september. Þróttur á flesta leikmenn í hópnum, fjóra, og tvær stúlknanna leika erlendis, María Ólafsdóttir Gros með Fortuna Sittard í Hollandi og Bergþóra Sól Ásmundsdóttir með Örebro í Svíþjóð. Hópurinn í heild sinni er á mbl.is.

Luis Rubiales, forseti spænska knattspyrnusambandsins, gæti verið á leið í allt að fjögurra ára fangelsi, verði hann fundinn sekur um kynferðislega áreitni í garð Jennifer Hermoso, leikmanns spænska kvennalandsliðsins. Það er Guardian sem greinir frá þessu en í gær bárust fréttir af því að Hermoso hefði lagt fram formlega kvörtun vegna forsetans.

Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði Íslandsmeistara Vals í knattspyrnu og leikmaður íslenska kvennalandsliðsins, er barnshafandi og spilar ekki meira á þessu ári. Þetta tilkynnti hún á samfélagsmiðlinum Instagram í gær en Elísa, sem er 32 ára gömul, á fyrir eina dóttur með sambýlismanni sínum Rasmusi Christiansen, leikmanni Aftureldingar. Elísa er þriðja landsliðskonan á stuttum tíma sem greinir frá því að hún sé barnshafandi en þær Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir eiga einnig von á sér á næsta ári.

Ómar Ingi Magnússon skoraði þrjú mörk fyrir Magdeburg gegn Füchse Berlín í þýsku 1. deildinni í handknattleik í fyrrakvöld. Í blaðinu í gær var ranglega sagt að hann hefði ekki skorað mark en tölfræði á heimasíðu deildarinnar var röng fyrst í stað eftir að leiknum lauk.

Nágrannalöndin Litháen og Lettland leika til úrslita um fimmta sætið á heimsmeistaramóti karla í körfuknattleik en það varð ljóst eftir að Litháen lagði Slóveníu að velli, 100:84, í Maníla á Filippseyjum í gær. Áður hafði Lettland sigrað Ítalíu, 87:82. Jonas Valanciunas, leikmaður New Orleans Pelicans í NBA-deildinni, skoraði 24 stig fyrir Litháen og tók 12 fráköst en Luka Doncic, leikmaður Dallas Mavericks, skoraði 29 stig fyrir Slóvena sem mæta Ítölum í leiknum um sjöunda sætið.