Norðurljós Kammersveit Reykjavíkur í öllu sínu veldi en á sunnudaginn leika aðeins átta hljóðfæraleikarar.
Norðurljós Kammersveit Reykjavíkur í öllu sínu veldi en á sunnudaginn leika aðeins átta hljóðfæraleikarar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kammersveit Reykjavíkur hefur sitt 49. starfsár með kammertónleikum í Norðurljósum Hörpu á sunnudaginn klukkan 16. Á efnisskránni er aðeins eitt verk, Oktett fyrir þrjá blásara og fimm strengi eftir Franz Schubert

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

Kammersveit Reykjavíkur hefur sitt 49. starfsár með kammertónleikum í Norðurljósum Hörpu á sunnudaginn klukkan 16. Á efnisskránni er aðeins eitt verk, Oktett fyrir þrjá blásara og fimm strengi eftir Franz Schubert.

„Þetta er klukkustundarlangt verk og er eitt af hans frægustu kammerverkum og í raun eitt af frægustu kammerverkum þessa tíma í evrópskri músík,“ segir Rúnar Óskarsson klarinettuleikari og meðlimur sveitarinnar.

„Beethoven var þarna áður búinn að skrifa septett (fyrir sjö hljóðfæraleikara) og Schubert fær pöntun um að skrifa eitthvað svipað. Hann bætti við einu hljóðfæri og þessi tvö verk kallast dálítið á og eru um margt svipuð þó að höfundareinkenni Schuberts komi mjög sterkt í gegn.“

Síðasta verkið sem hann heyrði flutt

Rúnar segir að á þeim tíma sem verkið er samið hafi gríðar margt verið að gerjast í tónlistarlífi Evrópu. Stóru tónskáldin, Mozart og Beethoven, höfðu lagt frekar skýrar línur og ung tónskáld á borð við Schubert reyndu hvað þau gátu að falla ekki í skuggann sem ýtti undir allskyns tilraunir. Eftir Schubert liggur ótrúlegur fjöldi tónverka og það þrátt fyrir að hann hafi látist aðeins rúmlega þrítugur.

„Mörg verkanna sem samdi heyrði hann aldrei flutt. En þetta verk heyrði hann leikið að minnsta kosti tvisvar og sagan segir að þetta sé það verk sem hann heyrði síðast áður en hann lést.“

Verkið er eins og áður segir nokkuð langt og hlýtur að krefjast langrar yfirlegu.

„Við æfum nú kannski ekkert rosalega oft saman. Tökum kannski tíu daga fyrir tónleika en svo er ég sjálfur búinn að vera með þetta á púltinu í marga mánuði. Ég hef kíkt á þetta öðru hvoru síðan í vor en svo er líka kostur að við höfum held ég flest spilað þetta verk áður.“ Verkið myndi hins vegar seint teljast teknískt erfitt og ekki er það ýkja hratt svo ég spyr hvaða áskoranir það býður upp á í flutningi.

„Samspilið er krefjandi. Að allt harmóneri vel saman og að allir séu að sigla í sömu átt. Þetta er ekkert sérlega hratt, það er satt, en oft er það þannig að hægu kaflarnir eru erfiðastir. Það getur verið erfitt að halda þeim á lífi. Svo er mikil áskorun fyrir hljóðfæraleikara að halda einbeitingu og spilagleði í klukkutíma. Maður má aldrei kveikja á sjálfstýringunni heldur gefa sig allan í verkefnið.“

Kammersveit Reykjavíkur hóf störf árið 1974 og fagnar því stórafmæli á næsta ári. „Ég er á því að þetta sé mjög merkileg hljómsveit, stofnuð af hugsjónafólki með það fyrir augum að spila tónlist sem hafði ekki mikið heyrst hér á landi. Fyrstu 10 árin var sveitin starfrækt án þess að hljóta nein laun fyrir eða styrki til tónleikahalds.“

Það hafi nú breyst sem betur fer að sögn Rúnars og nú njóti sveitin styrkja frá yfirvöldum.

„En þetta er ennþá grasrótarstarf sem er rekið af hljóðfæraleikurunum sjálfum og Kammersveitin hefur staðið fyrir frumflutningi á tónverkum eftir innlend og erlend tónskáld sem að öðrum kosti hefði aldrei gerst þannig að sveitin sinnir merkilegu starfi og ómissandi hluti af íslensku menningarlífi.“

Og það þykir eftirsóknarvert að vera í sveitinni ekki satt?

„Að sjálfsögðu, þetta er á háum standard og skemmtilegur félagsskapur.“’

Karnival dýranna

Una Sveinbjarnardóttir stýrir sveitinni á sunnudaginn líkt og undanfarin ár en hún tók við af Rut Ingólfsdóttur sem stjórnaði og rak sveitina í áratugi.

„Nafn Rutar og kammersveitarinnar er algjörlega samtvinnað og hún mætir enn á alla tónleika og situr á fremsta bekk,“ segir Rúnar.

Í lokin má geta þess að sveitin frumflytur tvö íslensk verk á Myrkum músíkdögum í febrúar en svo verður bryddað upp á barnaprógrammi í vor og hið stórskemmtilega Karnival dýranna eftir Camille Saint-Saëns leikið.

Oktett í F-dúr

Vinsælt verk

Oktett Schuberts, skrifaður árið 1824, fyrir þrjú blásturs- og fimm strengjahljóðfæri, var pantaður af Ferdinand von Troyer greifa og ráðsmanni Rudolfs erkihertoga, sem áður hafði lært hjá Beethoven. Troyer var metnaðarfullur áhuga-klarinettuleikari og var klarinett-hlutinn sérstaklega saminn fyrir hann. Troyer hafði hugsað sér tónverk í ætt við Septett fyrir blásara og strengi eftir Beethoven, sem var gríðarlega vinsælt verk alla 19. öld – svo vinsælt að tónskáldið óttaðist að það myndi jafnvel skyggja á stærri og viðameiri verk hans. Oktettinn var saminn á nokkrum vikum í febrúar og mars 1824 og var fyrst fluttur í apríl á heimili vinar Troyers í Vínarborg. Sveitin var undir stjórn fiðluleikarans Ignaz Schuppanzigh, en hljómsveit hans hafði meðal annars frumflutt flesta síðari Beethoven strengjakvartettana. Fyrsti opinberi flutningur verksins fór ekki fram fyrr en 1827 – aftur undir forystu Schuppanzigh – og verkið var ekki gefið út á nótum fyrr en aldarfjórðungi eftir dauða tónskáldsins. Schubert varð að ósk greifans, Oktettinn kallast á við Septett Beethovens og deila verkin nokkrum stíleinkennum. Verk Schuberts er hins vegar víðfeðmara og flóknara, með lengri köflum og meiri tilfinningalegri dýpt.