Í húsi skáldsins Kamilla Kjerúlf skrifaði mikið þegar hún var barn og unglingur en tók svo upp þráðinn aftur meðfram háskólanámi í lögfræði.
Í húsi skáldsins Kamilla Kjerúlf skrifaði mikið þegar hún var barn og unglingur en tók svo upp þráðinn aftur meðfram háskólanámi í lögfræði. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Þetta kom mér mjög á óvart og ég varð óskaplega glöð,“ segir Kamilla Kjerúlf sem í gær veitti Barnabókaverðlaunum Guðrúnar Helgadóttur viðtöku við hátíðlega athöfn í Höfða fyrir bók sína Leyndardómar Draumaríkisins

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

„Þetta kom mér mjög á óvart og ég varð óskaplega glöð,“ segir Kamilla Kjerúlf sem í gær veitti Barnabókaverðlaunum Guðrúnar Helgadóttur viðtöku við hátíðlega athöfn í Höfða fyrir bók sína Leyndardómar Draumaríkisins. Kamilla er fædd árið 1995 og er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands. Leyndardómar Draumaríkisins er fyrsta bók hennar og kom út í gær hjá Bjarti & Veröld.

Um hvað fjallar bókin?

„Hún fjallar um Davíð, 11 ára gamlan strák sem verður fyrir höfuðhöggi og þá nótt ferðast hann til Draumaríkisins sem er töfrandi staður þar sem draumar verða til. Þar hittir hann stelpuna Sunnu og með henni lendir hann í ýmsum ævintýrum,“ segir Kamilla.

Skemmtileg og spennandi

Verðlaunin eru veitt árlega fyrir óprentað handrit að barna- eða ungmennabók og er ætlað að styðja við nýsköpun í greininni. Að þessu sinni bárust 24 óprentuð handrit.

Í umsögn dómnefndar segir: „Í Leyndardómum Draumaríkisins tekst höfundi að smíða vel úthugsaðan ævintýraheim sem söguhetjan flakkar um með flæðandi hætti. Persónur eru vel framsettar og trúverðugar og ritstíllinn góður. Aðalpersónan Davíð stendur frammi fyrir vandamáli í raunheimum sem ævintýralegar heimsóknir hans í draumalandið hjálpa honum að takast á við. Sögupersónan vex fyrir vikið og sýnir ungum lesendum að oft má yfirstíga vandamál sem virðast óleysanleg. Jafnframt hefur höfundur gætt þess að einskorða söguna ekki við eitt kyn og eru samskipti Davíðs við aðrar persónur bæði eðlileg og uppbyggileg. En það sem er þó fyrir mestu er sú skoðun dómnefndar að sagan er skemmtileg og spennandi og munu ungir lesendur án efa taka henni fagnandi, eins og bókum Guðrúnar Helgadóttur meðan að hennar naut við.“

Í dómnefnd sátu Kristinn Jón Ólafsson, Yrsa Sigurðardóttir og dr. Guðrún Steinþórsdóttir.

Las bækur Guðrúnar Helgadóttur

Kamilla segir að hún hafi lesið og skrifað mikið þegar hún var barn og unglingur en hlé hafi orðið á skrifunum þegar hún byrjaði í menntaskóla. Þráðinn tók hún svo ekki upp aftur fyrr en hún vann að meistararitgerð sinni í lögfræði mörgum árum seinna.

„Þá skrifaði ég ritgerðina á daginn og sögur á kvöldin.“

Barnabókaverðlaunin voru stofnuð árið 2018 til heiðurs Guðrúnu Helgadóttur rithöfundi en bækur hennar hafa glatt og auðgað ímyndunarafl margra kynslóða lesenda, eins og segir í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Guðrún lést á síðasta ári og við athöfnina í Höfða minntist borgarstjóri sérstaklega á hennar mikilvæga framlag til barnabókmennta.

„Ég las Guðrúnu Helgadóttur mikið þegar ég var yngri,“ segir Kamilla. „Öðruvísi-þríleikinn las ég til dæmis þegar ég var kannski í kringum átta, níu og tíu ára. Jón Odd og Jón Bjarna, Sitji guðs englar og fleiri.“

Ertu búin að ákveða hvort þú ætlar að leggja lögfræðina fyrir þig eða skáldskapinn?

„Hvoru tveggja helst,“ segir hún og hlær.

Ertu þá kannski byrjuð á næstu bók?

„Já, ég er byrjuð á framhaldi þessarar bókar, hugmyndin er að gera úr þessu þríleik,“ segir hún hvergi bangin.

Verðlaunin eru nú veitt í fjórða sinn. Fyrri verðlaunahafar voru Bergrún Íris Sævarsdóttir fyrir Kennarinn sem hvarf árið 2019; Arndís Þórarinsdóttir og Hulda Sigrún Bjarnadóttir fyrir Blokkin á heimsenda árið 2020 og Margrét Tryggvadóttir fyrir Sterk árið 2021. Verðlaunin voru ekki veitt 2022 þar sem ekkert handrit þótti uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til verðlaunaverka.