Stórt Norwegian Prima hefur komið reglulega til Reykjavíkur sl. árið.
Stórt Norwegian Prima hefur komið reglulega til Reykjavíkur sl. árið. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Mikill erill var við Skarfabakka í Reykjavík í gær vegna fjölda skemmtiferðaskipa sem lágu þar við bryggju. Gærdagurinn var með stærri dögum í komum skemmtiferðaskipa en alls lágu sex skip við höfnina í gær

Mikill erill var við Skarfabakka í Reykjavík í gær vegna fjölda skemmtiferðaskipa sem lágu þar við bryggju. Gærdagurinn var með stærri dögum í komum skemmtiferðaskipa en alls lágu sex skip við höfnina í gær. Eitt við hverja bryggju og það sjötta á akkeri. Það var því mikið líf við höfnina og margt um manninn.

Á meðal þeirra skipa sem lágu í höfn við Skarfabakka er skipið Norwegian Prima sem er í eigu Norweg­i­an Cruise Line. Skipið er með stærstu skemmtiferðaskipum heims en því var einmitt gefið nafn sitt í lok ágúst á síðasta ári við Skarfabakka. Guðmóðir þess er engin önnur en bandaríska söngkonan Katy Perry sem viðstödd var athöfnina.

Skipið er 294 metra langt, 142.500 brúttótonn og vistarverur eru á 16 hæðum. Það tek­ur 3.250 farþega og í áhöfn eru 1.500 manns. Því eru tæp­lega 5.000 manns um borð.

Fjöldi skemmtiferðaskipa hefur komið til landsins í sumar og hafa mörg þeirra haft viðkomu í Reykjavík. Sigla svo mörg þeirra til annarra hafna á Íslandi eða á haf út til framandi landa.